eftir Þorstein Sæmundsson Formáli Það fræðsluefni um fingrarím sem hér
er birt í tilraunaskyni, hefur ekki komið út í
bókarformi til þessa. Þetta er safn greina sem ég
samdi fyrir mörgum árum og birti í Almanaki Þjóðvinafélagsins
(árin 1970, 1972 og 1976). Mér hefur verið bent á,
að þessar gömlu greinar væru fæstum aðgengilegar
og þyrfti því að gefa þær út
á ný, til dæmis á Veraldarvefnum sem allur fjöldinn
hefur nú aðgang að. Þessi ábending varð
tilefni þeirrar samantektar sem hér fer á eftir. Nokkrar
breytingar hafa verið gerðar á upphaflega textanum þar
sem ástæða þótti til. Teikningarnar eru
óbreyttar, en þær gerði Gunnar Eyþórsson.
Inngangur Það mun hafa verið síðla árs 1965, að til mín kom maður að nafni Konráð Árnason. Erindi hans var að biðja mig um staðfestingu á niðurstöðu sem hann hafði komist að. Niðurstaða sú snerti breytinguna sem varð þegar nýi stíll (gregoríanska tímatalið) tók við af gamla stíl (júlíanska tímatalinu). Til þess að ganga úr skugga um að gesturinn hefði á réttu að standa, fletti ég fyrst upp í einhverri fræðibók, en tók svo fram blað og blýant því að ég ætlaði mér ekki þá dul að fara að glíma við tímatalsþrautir með hugarreikningi einum saman. Undrun mín varð mikil þegar það kom í ljós að gesturinn studdist hvorki við blað né bók, heldur fingurna á höndum sér. Hér var kominn maður sem kunni þá fornu list, fingrarím, en þá list þekkti ég aðeins af afspurn og stóð reyndar í þeirri trú að hún væri löngu úrelt og í gleymsku fallin. Þegar ég varð þess áskynja hve greiðlega
Konráði gekk að leysa tímatalsþrautir á
fingrum sér, vaknaði hjá mér áhugi á
að kynna mér þessa list nokkru nánar. Reyndar veit
ég ekki hvort úr því hefði orðið
ef Konráð hefði ekki komið aftur í heimsókn
skömmu síðar og fært mér að gjöf
endurprentaða útgáfu af bók þeirri um fingrarím
sem Jón Árnason Skálholtsbiskup gaf út árið
1739. Lét Konráð þau orð fylgja að sér
léki forvitni á að vita hvort ég sæi ráð
til að breyta svo einni helstu fingrarímsreglu Jóns,
að hún gilti fyrir 20. öldina líka, en reglan hafði
fallið úr gildi árið 1900. Þessa frýjun
gat ég auðvitað ekki staðist, og þar sem jólahelgin
fór í hönd, gafst mér brátt næði
til að kynna mér fingrarímið.
|
1. mynd. Fingrarímsbók Jóns Árnasonar Skálholtsbiskups
Fingrarím Jóns biskups er fjörlega skrifuð bók
og skemmtileg aflestrar. Mér segir svo hugur um að fleiri myndu
lesa hana ef hún væri rituð með nútímaletri.
Gotneska letrið er nú svo sjaldséð að menn hliðra
sér hjá því að lesa það. Jón
var fæddur 1665 og hefur því verið kominn yfir sjötugt
þegar hann gaf út fingrarímsbókina. Grímur
Thomsen segir reyndar í æviágripi Jóns (Tímarit
Bmf. 1880, bls. 49), að Fingrarímið hafi komið út
árið 1712, en það mun á misskilningi byggt
því að orðalag í bókinni sýnir
að hún er samin árið 1737.
Nafnið fingrarím hljómar undarlega í eyrum nú á dögum því að fæstir kannast við aðra merkingu í orðinu rím en þá sem tengd er samhljómun í kveðskap. Nafn eins og fingraalmanak myndi síður valda misskilningi þótt merkingin sé sú sama. Ef til vill hefur það ýtt undir misskilning að ýmsar minnisvísur ("rímvísur") voru notaðar með fingraríminu til að auðvelda mönnum að muna tiltekin atriði svo sem messudaga o.fl. Hið eiginlega fingrarím er þó laust við allan kveðskap. Sú hugmynd að nota fingurna til tímatalsreiknings hlýtur að vera ævagömul. Tugakerfið í almennum talnareikningi minnir okkur á, að endur fyrir löngu notuðu menn sína tíu fingur til að telja og reikna. Hvað var þá eðlilegra en að menn reyndu að leysa tímatalsdæmi á fingrum sér. Frá því að sögur hófust hefur tímatal valdið mönnum erfiðleikum og heilabrotum, og um það hafa verið samdar ýmsar flóknar reglur. Að sumu leyti hefur þetta stafað af illri nauðsyn, því að hinar náttúrlegu tímaeiningar, dagurinn, tunglmánuðurinn og árstíðaárið, eru svo ósamstæðar sem raun ber vitni. En þar á ofan hafa menn svo íþyngt kerfinu að óþörfu með torskildum viðbótarreglum, sérstaklega reglum um helgihald. Er ekki að efa að þær reglur um páskahald og aðrar færanlegar kirkjuhátíðir sem settar voru á 4. öld hafa átt sinn þátt í að ýta undir þróun fingraríms hjá kristnum þjóðum. Mun notkun þess hafa farið vaxandi allt fram til þess tíma að prentuð almanök fóru að ná verulegri útbreiðslu, en það var ekki fyrr en á 16. öld. Þeir sem mesta stund lögðu á fingrarímið hafa eflaust verið klerkar og aðrir fræðimenn sem þurftu á því að halda í störfum sínum. Á Íslandi fékkst almúgafólk þó einnig við þessa list, og eftir því sem Jón biskup Árnason segir, kunni fjöldi manns með hana að fara hér á landi á 17. öld. Þörfin fyrir fingrarímið minnkaði að sjálfsögðu þegar prentuð almanök komu til sögunnar. En það sem úrslitum réði var tímatalsbreytingin sem hófst á 16. öld og Gregoríus páfi 13. stóð að. Eftir þá breytingu var ekki lengur hægt að nota gömlu fingrarímsreglurnar, og voru menn því tilneyddir að gefa fingrarímið upp á bátinn eða semja nýjar reglur í samræmi við breytt tímatal. Slíkt var þó ekki auðhlaupið og bendir allt til þess að erlendir fræðimenn hafi heykst á þessu verkefni, enda var fingrarímið allflókið fyrir og varla bætandi á það aukareglum hins nýja stíls. Afrek Jóns biskups er í því fólgið að hann slítur sig að miklu leyti frá hinum eldri rímreglum og skapar nýtt fingrarím sem í senn samræmist nýja stíl og er miklu einfaldara en það fingrarím sem fyrir var. Í bók sinni gerir Jón ítarlegan samanburð á sínum reglum og hinum eldri, og eftir þann samanburð hlýtur lesandinn að fyrirgefa Jóni þótt hann sé eilítið drjúgur með sig á köflum. Jón biskup hefur haft mjög góða þekkingu á tímatalsfræðum, og bók hans er traust grundvallarrit, auk þess sem hún er vel samin og aðgengileg kennslubók. Má vafalaust telja að mjög margir hafi numið fingrarímið af bók Jóns á 18. öld. Bókin var endurprentuð í Kaupmannahöfn 1838 og sá Þorsteinn Jónsson um útgáfuna. Um svipað leyti hófst reglubundin útgáfa íslenskra almanaka, og hefur þá vegur fingrarímsins farið minnkandi. Hin prentuðu almanök gengu líka að einu leyti í berhögg við reglur fingrarímsins því að þau færðu fyrsta vetrardag frá föstudegi yfir á laugardag. Sú ráðstöfun studdist við forn ákvæði sem finnast í Rímbeglu og líklega eru frá 12. öld, en enginn veit í rauninni hvort eða hvenær þau ákvæði hafa verið í heiðri höfð. Þótt mörgum þætti breytingin orka tvímælis, hlaut almanakið að ráða. Um aldamótin 1900 féll svo úr gildi ein helsta fingrarímsregla Jóns biskups, og eftir það mun lítið hafa kveðið að notkun fingrarímsins. Það sem ritað hefur verið um fingrarím síðan Jón biskup leið er fremur lítið að vöxtum. Í grein eftir Guðmund Bergsson sem birtist í blaðinu Hauki á Ísafirði árið 1901 (bls. 17) er vikið að fingraríminu, og þá sérstaklega aðferðinni til að finna sunnudagsbókstaf. Í Skírnisgrein Guðmundar Björnsonar um íslenska tímatalið (1915, bls. 263) er einnig minnst á fingrarímið, en Guðmundur heldur þó meira fram reikniformúlum, sem hann telur auðveldari viðfangs. Árið 1939 kom út leiðarvísir um fingrarím eftir Sigurþór Runólfsson, sem einhverjir munu kannast við eftir sjónvarpsþátt um þetta efni. Leiðarvísir þessi er að mestu leyti byggður á fingrarími Jóns, en því miður gætir víða misskilnings sem dregur úr gildi ritsins. Loks má nefna grein um fingrarím eftir Sigurð Daðason í Lesbók Morgunblaðsins árið 1930 (bls. 178) þar sem bent er á misræmi milli fingraríms og prentaðra almanaka á þessari öld. Vel má vera að meira hafi verið ritað um þetta efni, og væri mér þá þægð í að fá ábendingar um það. Hvað sem því líður er óhætt að segja að fingrarím Jóns Árnasonar hefur verið hið eina og sanna fingrarím í meira en tvö hundruð ár, og engar teljandi breytingar eða nýmæli hafa komið fram. Slíks er þó vissulega þörf, ef nokkur von á að vera til þess að endurvekja áhuga manna á fingrarími nú á dögum. Einhver kynni nú að spyrja hvort nokkur þörf sé á því að endurlífga þessa gömlu aðferð þegar nóg er til af prentuðum almanökum. Þessu svarar Jón Árnason einmitt í inngangi bókar sinnar og gerir það á svo skemmtilegan hátt að engu þarf við að bæta. Hér skal aðeins minnt á að almanök eru ekki alltaf við höndina, jafnvel ekki almanak líðandi árs. Fáir hafa í fórum sínum almanök sem ná langt aftur í tímann, og almanök fram í tímann, meira en ár eða svo, eru sjaldséð. Þá er einnig að vissu leyti andleg fullnæging í því að geta leyst úr algengum spurningum um tímatal bókarlaust. Í stað fingraríms mætti auðvitað nota reikniformúlur. Fingrarímið er þó yfirleitt miklu fljótvirkara, nema því aðeins að notuð sé tölva sem mötuð hefur verið með viðeigandi forriti. Ef við tökum páskareikninginn sem dæmi, er vandalaust fyrir þjálfaðan mann að finna páska fyrir hvaða ár sem vera skal á einni mínútu með fingrarími, en að ná sama hraða með formúlum og reiknivél, án sérhæfðs forrits, er nánast ógerningur. Loks má ekki gleyma því að fingrarímið getur verið skemmtileg dægradvöl, ekki síður en krossgátur og önnur viðfangsefni sem menn grípa til þegar tóm gefst. Lifandi dæmi um notagildi einfaldrar minnisreglu er vísan
"Ap, jún, sept, nó" sem séra Ólafur í
Sauðanesi gerði, og birtist í Hólarímbókinni
1597. Þessi litla vísa hefur gengið manna á milli
öld fram af öld og þykir gagnleg enn í dag þrátt
fyrir öll almanökin. Það vill svo til að vísan
á sér hliðstæðu í einfaldri fingrarímsreglu
sem ýmsir munu eflaust kannast við þótt þeir
þekki ekki til fingraríms að öðru leyti. Reglan
er þessi: Mánaðanöfnin eru talin upp í röð.
Við fyrsta nafnið, janúar, er vísifingur hægri
handar lagður á ysta hnúann á vinstri hendi, sem
haldið er krepptri eins og meðfylgjandi mynd sýnir. Við
annað nafnið, febrúar, er fingurinn færður yfir
í millibilið milli ysta hnúans og þess næsta.
Við þriðja nafnið, mars, er fingurinn færður
á næsta hnúa. Þannig er haldið áfram
þar til komið er á síðasta hnúann (júlí),
en þá er byrjað aftur á fyrsta hnúa (með
ágúst). Þegar að er gáð, sést
að þeir mánuðir sem hafa 31 dag hafa allir lent á
hnúunum, en styttri mánuðirnir (30 daga mánuðirnir
og febrúar) hafa allir lent í millibilunum. Þessa aðferð
hafa menn notað til að rifja upp dagafjölda hvers mánaðar,
en hve gömul reglan er veit ég ekki. Hennar er ekki getið
í fingrarími Jóns biskups.
|
2. mynd. Aðferð til að muna dagafjölda hvers mánaðar
Þær fingrarímsreglur sem lýst verður
hér á eftir eru í ýmsum meginatriðum frábrugðnar
aðferðum Jóns. Reglur þessar hafa orðið til
smám saman á undanförnum árum eftir því
sem ég hef komið auga á nýjar leiðir til að
gera fingrarímið víðtækara eða auðveldara.
Þeir sem kunna fingrarím Jóns munu kannast við
kjarnann í sumum reglunum, en í öðrum hefur þróunin
gengið svo langt að ekkert er eftir sem minnir á aðferðir
Jóns. Sú þróun hefur þó venjulega
orðið stig af stigi en ekki í einu stökki. Þess
ber og að gæta, að Jón gerði sitt fingrarím
þannig úr garði að það hentaði fyrst
og fremst til notkunar á 18. öld, en þegar þetta
er ritað er það 20. öldin sem sérstaklega verður
að hafa í huga.
Útskýringunum hér á eftir mun ég reyna að haga svo, að lesandanum verði ljósar þær grundvallarorsakir sem liggja að baki hverrar reglu, þótt skýringarnar verði af þessum sökum nokkru lengri en ella hefði orðið. Þær reglur sem fjallað verður um eru sem hér segir: I.
Regla til að finna vikudag hvers mánaðardags.
Reglunum fylgja töflur sem gerðar hafa verið til samanburðar við fingrarímið. Áður en lengra er haldið er rétt að benda
á það, að fingrarímsreglumar mynda samtvinnaða
heild. Þannig er t.d. reglan sem notuð er til að finna vikudag
hvers mánaðardags mikilvægur liður í öðrum
reglum, svo sem aðferðinni við að finna páskadag
hvers árs. Sá sem aðeins vill kunna reglu til að
finna vikudag hvers mánaðardags á tiltekinni öld,
en kærir sig ekki um aðra þætti rímsins, gæti
því fullt eins vel lært utanbókar þá
tölulegu aðferð sem birtist í almanakinu á árunum
1966-1971 undir heitinu "Mánaðardagar og vikudagar". Sumir myndu
jafnvel telja þá reglu auðlærðari þótt
hún útheimti ofurlítinn hugarreikning. En sá
sem hefur lært fingrarímsregluna til að finna vikudaga
er jafnframt kominn vel á veg með aðrar reglur rímsins,
og frá því sjónarmiði svarar fyrirhöfnin
fyllilega kostnaði.
|