Ný tungl Úranusar

Í ágústmánuði 2003 fundust þrjú áður óþekkt tungl sem ganga kringum reikistjörnuna Úranus. Eitt tunglanna fannst á myndum sem teknar voru með sjónauka á fjallinu Mauna Kea á Hawaii. Reyndist það vera tungl sem stjörnufræðingar höfðu talið sig sjá árið 2001 en hafði ekki sést aftur svo að óvissa ríkti um tilvist þess. Þetta tungl hefur hlotið bráðabirgðaheitið S/2001 U2. Það er afar lítið, um 10 km í þvermál, og lengra frá Úranusi en nokkurt annað tungl sem vitað er um. Umferðartími þess um Úranus er tæp átta ár. Tvö tungl fundust með Hubble-geimsjónaukanum sem er á braut um jörðu. Þeim voru gefin nöfnin S/2003 U1 og S/2003 U2. Þessi tungl eru einnig mjög smávaxin, annað um 15 km í þvermál en hitt um 10 km. Þau ganga svo nærri reikistjörnunni að umferðartíminn er skemmri en einn sólarhringur. Með Hubble-sjónaukanum tókst mönnum einnig að finna aftur tunglið S/1986 U 10 sem menn höfðu talið sig sjá óljóst á myndum sem teknar voru úr geimflauginni Voyager 2 árið 1986. 

Í september 2003 var svo tilkynnt um tvö tungl í viðbót. Annað tunglið fannst á myndum sem teknar voru í stjörnustöðinni á fjallinu Cerro Paranal í Síle. Hitt fannst á myndum frá sjónauka á Mauna Kea fjalli. Tungl þessi fengu til bráðabirgða heitin S/2001 U3 og S/2003 U3. Athugun leiddi í ljós að bæði höfðu sést áður, þótt óljóst væri, á myndum frá Cerro Tololo í Síle árið 2001, og var það ártal látið ráða þegar fyrra nafnið var ákveðið.  Umferðartími þess tungls er níu mánuðir, en hitt tunglið er tæp fimm ár að fara sína braut.

Er þá fjöldi staðfestra tungla Úranusar orðinn 27. 

Sjá enn fremur yfirlitið Tungl reikistjarnanna.
 
Þ.S. 30.11. 2003

Almanak Háskólans