Tíunda reikistjarnan? Hinn 29.
júlí 2005 tilkynntu stjörnufræðingar í Bandaríkjunum að fundist hefði áður
óþekktur hnöttur í sólkerfinu, langt utan við reikistjörnuna Plútó og
stærri en hún. Hnöttur þessi
hefur fengið bráðabirgðaheitið 2003 UB313, og fram
hefur komið uppástunga um nafnið "Xena", en endanlegt heiti bíður
staðfestingar Alþjóðasambands stjörnufræðinga. Hnötturinn kom fyrst fram
sem daufur depill á myndum sem teknar voru í október 2003, en það var ekki fyrr
en nýjar myndir voru teknar, í janúar 2005, að í ljós kom að depillinn hafði
hreyfst miðað við fastastjörnurnar. Mælingar sem síðan hafa verið gerðar sýna að
þetta er hnöttur sem gengur umhverfis sólu eftir ílangri braut sem hallast
um 44° miðað við brautarflöt jarðar. Meðalfjarlægð hans frá sólu er
68 stjarnfræðieiningar (SE), en vegna þess hve brautin er ílöng er þessi
fjarlægð breytileg frá 38 til 97 SE. Til samanburðar má nefna að
fjarlægð Plútós, sem venjulega er talinn ysta reikistjarnan í sólkerfinu,
sveiflast milli 30 og 50 SE. Þetta merkir að hinn nýfundni hnöttur getur
farið inn fyrir braut Plútós. Umferðartími hnattarins um sólu er 560 ár, en umferðartími Plútós 248 ár. Sem stendur er
hnötturinn nálægt hámarksfjarlægð, þrefalt lengra frá sól en
Plútó. Ljósið, sem er 8 mínútur að berast frá sól til jarðar, er 13
klukkustundir að berast frá hinum nýfundna hnetti. Sjónaukinn sem fyrstu myndirnar voru teknar með, er sá sami og notaður var þegar reikistirnið Sedna fannst í nóvember 2003 (sjá Ný reikistjarna?). Þetta er sjónauki af Schmidt gerð á Palomarfjalli í Kaliforníu. Hann er 1,2 m í þvermál og hefur verið í notkun síðan 1949. Hann hefur mjög stórt sjónsvið og var lengst af notaður til að kortleggja himinhvelfinguna. Í fyrstu voru myndirnar teknar á ljósmyndaplötur sem náðu yfir 6 gráður himins á hvorn veg, en árið 2000 var sjónaukanum breytt og ljósflögur settar í staðinn. Sjónsvið sjónaukans er nú 4 gráður á breidd og myndir eru teknar sjálfvirkt með klukkutíma millibili eða svo í leit að reikistirnum eða halastjörnum. Í því tilviki sem hér um ræðir (hnöttinn 2003 UB313) var hreyfingin svo lítil að stjörnufræðingar tóku ekki eftir henni á þeim þremur myndum sem náðust í október 2003, en þær myndir voru teknar með 90 mínútna millibili. Viðbót 31.10. 2005. Samkvæmt nýjustu mælingum telst hnötturinn vera 2700 km í þvermál og því örugglega stærri en Plútó. Viðbót 16.4. 2006. Mælingar með Hubble sjónaukanum hafa nú leitt til þeirrar niðurstöðu að 2003 UB313 sé 2400 km í þvermál. Óvissan í þeirri tölu er talin 100 km á hvorn veg. Samkvæmt þessu er hnötturinn um 5% stærri en Plútó að þvermáli. Þá hafa stjörnufræðingar uppgötvað að lítið tungl er í fylgd með þessum hnetti. Tunglið er afar lítið; birta þess er einn fimmtugasti af birtu 2003 UB313. Viðbót 12.7. 2006. Samkvæmt frásögn í tímaritinu Sky & Telescope, júlíhefti 2006, endurvarpar hnötturinn 86% af því sólarljósi sem á það fellur. Þetta er mjög hátt hlutfall og bendir til þess að ís sé á yfirborðinu. Þ.S. 31. 7. 2005. Síðast breytt 24.8. 2006 |