Ný reikistjarna?

Í mars 2004 bárust fréttir um það að fundist hefði hnöttur, nokkru minni en Plútó, sem gengi um sólina í mjög mikilli fjarlægð. Hnöttur þessi fékk bráðabirgðaheitið 2003 VB12. Finnendurnir hafa nefnt hann Sednu eftir hafgyðju Eskimóa, en það nafn bíður staðfestingar. Hnötturinn fannst á myndum sem teknar voru í stjörnustöðinni á Palomarfjalli (þó ekki með stærsta sjónaukanum þar) í nóvember 2003. Hann hefur síðan verið ljósmyndaður í mörgum stjörnustöðvum. Hnöttur þessi fannst í meiri fjarlægð en nokkur sem áður hefur fundist í sólkerfinu, 90 sinnum lengra frá sól en jörðin og rösklega tvöfalt lengra í burtu en  reikistjarnan, Plútó þegar hún er í meðalfjarlægð frá sólu.  Umferðartími hnattarins um sólina er 12300 ár. Brautin er afar ílöng. Þegar hnötturinn er næst sólu, er fjarlægð hans um 76 stjarnfræðieiningar, en þegar hann er lengst frá sólu er fjarlægðin um 990 stjarnfræðieiningar (stjarnfræðieiningin samsvarar meðalfjarlægðinni milli sólar og jarðar).  Um þessar tölur ríkir enn nokkur óvissa. Sama er að segja um þvermál hnattarins; í fyrstu var talið að hann gæti verið allt að því 1800 km í þvermál, en nýjustu mælingar með Hubble-sjónaukanum benda til þess að þvermálið sé innan við 1600 km. Þessi hnöttur er því álíka stór og reikistirnið 2004 DW sem fannst í febrúar 2004. Til samanburðar má nefna að þvermál Plútós er nálægt 2400 km. Hnötturinn er rauðleitur, nærri því eins rauður og Mars, en ekki er vitað hvað veldur þessum óvenjulega lit.  

Þótt talað sé í fjölmiðlum um nýja reikistjörnu er það tæpast réttnefni, og hið sama má í rauninni segja um Plútó þótt hefð sé fyrir því að kalla hann reikistjörnu. Hinn nýfundni hnöttur er   reikistirni, eitt af útstirnunum sem svo eru kölluð. Flest útstirni tilheyra svonefndu Kuipersbelti sem liggur utan við braut Neptúnusar, en Sedna heldur sig alltaf  langt utan við það belti. Menn þekkja reikistirni (2000 OO67) sem kemst ennþá lengra frá sól en Sedna, en innsti hluti brautar þess reikistirnis liggur gegnum Kuipersbeltið, inn fyrir braut Neptúnusar.  

Til að lesendur geti betur gert sér grein fyrir fjarlægðum í sólkerfinu má nefna að ljósið, sem fer 300 þúsund km á sekúndu, er rúmlega eina sekúndu að berast frá tunglinu, 15 mínútur að berast frá reikistjörnunni Mars þar sem hún er nú, 4 klst. frá Plútó og 12 klst. frá Sednu þar sem hún er nú, en þegar Sedna er lengst frá sólu er ljósið tæpa 6 sólarhringa að berast frá henni til jarðar. 


Þ.S. 16. 3. 2004. Síðast breytt 31. 5. 2004

Almanak Háskólans