Ný tungl Satúrnusar

    Síðan almanakið fyrir árið 2001 fór í prentun hafa fundist fjögur ný tungl sem ganga um reikistjörnuna Satúrnus. Tunglin fundust við skipulega leit með sjónaukum á Hawaii og í Chile. Enn er lítið vitað um þessi tungl annað en birtustig þeirra, en af birtunni má ráða að þau séu 10-50 km í þvermál. Þau eru mjög langt frá Satúrnusi, mun lengra en ysta tunglið sem áður var þekkt, en nákvæmar brautir hafa ekki verið reiknaðar. Meðan svo er, er ekki alveg víst að þessir smáhnettir séu á braut um Satúrnus, en verði það staðfest eru tungl Satúrnusar orðin 22 talsins, fleiri en tungl nokkurrar annarrar reikistjörnu  (sjá yfirlitið Tungl reikistjarnanna ). Hinir nýfundnu hnettir hafa hlotið bráðabirgðanöfnin S/2000 S1, S2, S3 og S4.
 

Þ.S. nóv. 2000