Ný tungl Plútós
Hinn 31. október 2005 tilkynntu bandarískir stjörnufræðingar
að á ljósmyndum sem teknar voru með Hubble geimsjónaukanum hefðu sést
tveir daufir ljósdeplar sem að líkindum væru tvö lítil tungl á braut um
reikistjörnuna Plútó. Deplarnir sáust fyrst á myndum sem teknar voru í
maí 2005. Ekki tókst að finna tunglin þótt leitað væri með stærstu
sjónaukum á jörðu niðri, en undir lok október fundust áþekkir deplar á gömlum
myndum sem teknar höfðu verið með Hubble sjónaukanum, nánar tiltekið í
júní árið 2002, og var afstaða þeirra til Plútós í samræmi við áætlaða
brautargöngu tunglanna. Hin nýju tungl hafa hlotið bráðabirgðaheitin
S/2005 P1 og S/2005 P2. Þau virðast ganga um Plútó í sömu átt og stóra tunglið Karon sem áður var þekkt, en
eru lengra frá reikistjörnunni. Eins og fram kemur í yfirlitinu
Tungl reikistjarnanna fylgja tunglin miðbaugsfleti
Plútós en hvorki brautarfleti hans né meðalfleti sólkerfisins. Líklegt má því
telja að Plútó og tunglin eigi sameiginlega myndunarsögu. Stærð tunglanna er óviss,
og verður að giska á hana eftir birtunni,
en að líkindum eru þau innan við 100 km í þvermál.
Þ.S. 1.11. 2005. Breytt 23.2. 2006
Almanak Háskólans
|