Plútó ekki lengur í tölu reikistjarna

Á þingi Alþjóðasambands stjarnfræðinga sem haldið var í Prag í ágúst 2006 var samþykkt skilgreining á hugtakinu reikistjarna. Samkvæmt þessari skilgreiningu teljast reikistjörnur sólkerfisins nú átta í stað níu áður því að Plútó verður framvegis talinn í öðrum flokki sem ber heitið dvergreikistjörnur. Í þeim flokki verða, auk Plútós, hnötturinn Seres, sem áður taldist til smástirna, og hinn nýfundni hnöttur 2003 UB313 sem enn hefur ekki fengið endanlegt nafn (sjá eldri frétt). Fleiri hnettir kunna síðar að verða taldir með dvergreikistjörnum.

Heitið reikistjarna skal hér eftir aðeins haft um himintungl sem (1) gengur umhverfis sólu, (2) er nægilega stórt til þess að hafa náð hnattlíkri jafnvægislögun vegna eigin þyngdarafls og (3) hefur hreinsað burt helstu reikisteina í grennd við braut sína. Himintungl sem uppfyllir fyrstu tvö skilyrðin, en ekki það þriðja, skal kallað dvergreikistjarna, svo fremi hnötturinn 
er ekki tungl einhverrar af reikistjörnunum, en þau fylla sérstakan flokk. Öll önnur himintungl í sólkerfinu skulu heita reikistirni (á ensku: Small Solar-System Bodies). Í þeim hópi teljast smástirni, útstirni og halastjörnur, en þær síðastnefndu hafa ekki áður verið flokkaðar með reikistirnum.

Flokkurinn "dvergreikistjörnur" skarast óhjákvæmilega við aðra flokka. Þannig hefur Plútó verið úthlutað númeri 134340 í lista yfir reikistirni, og fullyrða má að Seres verði áfram talinn til smástirna. 

Samkvæmt nýju reglunum eru reikistjörnurnar þessar, talið frá sólu: Merkúríus, Venus, Jörðin, Mars, Júpíter, Satúrnus,  Úranus og Neptúnus.

Dvergreikistjörnur eru: Seres, Plútó og 2003 UB313 (bráðabirgðaheiti). Mun fleiri koma til greina, en úrskurður í þeim álitamálum bíður seinni tíma.

Hin nýja tilhögun hefur þegar valdið miklum deilum meðal stjörnufræðinga og er hugsanlegt að málið verði tekið upp aftur á næsta alþjóðaþingi stjörnufræðinga eftir þrjú ár.

Þ.S. 24.8. 2006. Viðbót 14. 9. 2006

Almanak Háskólans