Ný tungl NeptúnusarÍ janúar 2003 var tilkynnt um fund þriggja, áður óþekktra tungla sem ganga umhverfis reikistjörnuna Neptúnus. Þessi tungl fengu bráðabirgðaheitin S/2002 N1, S/2002 N2 og S/2002 N3. Í lok ágústmánaðar 2003 fundust svo tvö tungl í viðbót, og voru þau auðkennd með nöfnunum S/2003 N1 og S/2002 N4. Síðastnefnda tunglið hafði sést í ágúst 2002 en það týndist aftur. Tunglin fundust við skipulega leit með tveimur stórum stjörnusjónaukum, öðrum við stjörnustöðina á fjallinu Cerro Tololo í Síle, hinum á fjallinu Mauna Kea á Hawaii. Tunglin eru smá, hið stærsta er um 60 km í þvermál. Þrjú tunglanna ganga rangsælis en tvö réttsælis um reikistjörnuna. Þau eru svo langt frá Neptúnusi að umferðartímarnir eru frá 7 árum upp í 25 ár, sem er algjört met í sólkerfinu.Þar með er fjöldi þekktra tungla sem ganga um Neptúnus kominn í 13. Sjá enn
fremur yfirlitið
Tungl reikistjarnanna.
|