Aðfaranótt 24. desember gekk tunglið fyrir reikistjörnuna Mars og
myrkvaði hana frá Íslandi séð. Þetta er sjaldgæfur viðburður. Frá því að
farið var að birta yfirlit um stjörnumyrkva í almanakinu árið 1972 hefur
aðeins gefist eitt tækifæri til að sjá Mars myrkvast á dimmum himni í Reykjavík.
Var það 26. mars 2004. Sá myrkvi sást milli skýja sums staðar á
Reykjavíkursvæðinu. Í almanaki fyrir árið 1972 er getið um Marsmyrkva
15. maí kl. 20:21, en þá var sól á lofti og ólíklegt að nokkur hafi séð
þann myrkva. Sama er að segja um myrkva 22. mars 1991, 12. júní 2002 og
27. júlí 2006 sem allir voru að degi til. Þeirra var ekki getið í
almanakinu. Yfirlit yfir myrkvanir reikistjarna frá 1837 til 2020 er að
finna á annarri vefsíðu. Skilyrði til að fylgjast með myrkvanum 24. desember voru mjög hagstæð í Reykjavík, veður stillt og aðeins þunnar skýjaslæður. Samkvæmt almanakinu átti myrkvinn að hefjast kl. 03:07 og ljúka kl. 03:30. Mars var gegnt sólu einmitt þennan dag og því nærri jörðu, bjartur og áberandi. Með góðum stjörnusjónauka mátti greina drætti á yfirborði reikistjörnunnar. Þegar tunglið gengur fyrir fastastjörnu hverfur stjarnan á augnabliki. En þegar um reikistjörnu er að ræða, tekur það tunglið dálítinn tíma að myrkva hana. Þvermál Mars þennan dag var 16 bogasekúndur. Ef Mars hefði gengið bak við miðju tunglsins hefði hann myrkvast á minna en hálfri mínútu og myrkvinn hefði staðið í tæpa klukkustund. En Mars fór nærri rönd tunglsins og var því rúmlega mínútu að hverfa, en myrkvinn var jafnframt mun skammvinnari. Snævarr Guðmundsson náði frábærum myndum af þessum myrkva og birtast þær hér fyrir neðan.
|