Nýlega var sýnt í sjónvarpsfréttum
myndskeið úr eftirlitsmyndavél í lögreglubíl frá Selfossi. Á
myndinni kom fram bjartur blossi, og varð fljótlega ljóst að þar hafði
loftsteinn verið á ferð. Tveir lögreglumenn voru í bílnum, og gátu þeir
gefið glögga lýsingu á því sem þeir sáu. Að þeirra dómi kemur alls ekki
fram á kvikmyndinni hve bjartur loftsteinninn var. Annar sjónarvottur
var lögreglumaður í Vestmannaeyjum. Sá var á ferð í bíl skammt frá
Stórhöfða. Þriðji sjónarvottur var einnig lögreglumaður, staddur undir
Akrafjalli ekki fjarri Hvalfjarðargöngum. Síðar barst lýsing manns sem
hafði verið á ferð sunnan við Blönduós og loks ýtarleg lýsing frá
manni sem staddur var á Meðallandi. Með því að bera saman þessar
frásagnir og afla upplýsinga um myndavélina í lögreglubílnum (hornið sem
myndavélin tekur) reyndist mögulegt að staðsetja lofsteininn með
sæmilegri nákvæmni. Hann virðist hafa farið frá austri til vesturs yfir
Meðallandsbug, á að giska 30 km sunnan við land og sprungið í 20-30 km
hæð. Á Meðallandi sló birtu á jörð, og þar heyrðust drunur eftir eina og
hálfa til tvær mínútur að sögn. Vitnum ber ekki að öllu leyti saman um
lýsingu á loftsteininum, en það er alvanalegt. Nokkur vafi leikur líka á
tímasetningunni. Samkvæmt myndavélinni í lögreglubílnum gerðist þetta
fjórum mínútum eftir miðnætti. Nánari fyrirspurn leiddi í ljós að
klukkan í myndavélinni hefði líklega verið tveimur mínútum of sein. Hins
vegar töldu tveir sjónarvottar á Meðallandi að þetta hefði gerst rétt
fyrir miðnættið, þ.e. 4. október en ekki 5., svo að þarna er umtalsvert
misræmi í tímasetningu. Yfirlit um loftsteina sem sést hafa á Íslandi á liðnum áratugum er að finna hér. Þ.S. 24.10. 2009 |