Vígahnettir yfir Íslandi  

    Meðfylgjandi tafla  gefur yfirlit um bjarta loftsteina sem undirritaður hefur haft fregnir af og sést hafa frá Íslandi eða í nágrenni landsins. Söfnun upplýsinga um þessi fyrirbæri hófst árið 1976, en getið er nokkurra loftsteina sem féllu fyrir þann tíma. Með því að bera saman lýsingar sjónarvotta hef ég reynt að reikna feril loftsteinanna, og stöku sinnum hefur það tekist með sæmilegri nákvæmni. Þær fáu myndir sem náðst hafa af loftsteinum eða slóðum eftir þá hafa reynst mjög gagnlegar við slíka útreikninga. Árlegur fjöldi tilkynninga um loftsteina er talsvert breytilegur eins og sjá má af töflunni, en erfitt er að draga ályktanir af þeim tölum.
    Loftsteinar birtast svo snöggt og óvænt að menn hafa sjaldnast tíma til að gera sér glögga grein fyrir átt eða hæð á himni. Jafnvel liturinn, sem ætti að vera eftirminnilegur, verður oft óljós í minningunni svo að vitnum ber ekki saman. Þeir sem verða vitni að björtum loftsteini (vígahnetti), ættu að festa sér í minni hvar ljósið hvarf, í hvaða átt það var miðað við kennileiti og í hvaða hæð yfir láréttum sjóndeildarhring. Að meta hæðina í gráðum getur verið erfitt, en 1 cm á reglustiku í útréttri hendi svarar nokkurn veginn til einnar gráðu, og krepptur hnefi (lóðréttur) er um það bil 10°. Þá eru menn hvattir til að hlusta eftir hljóði í nokkrar mínútur eftir að loftsteinninn hverfur, og fylgjast með því hvað tímanum líður. Nær allir loftsteinar missa hraðann vegna loftmótstöðu og hætta að sjást meira en  20 km frá jörðu, svo að það tekur hljóðið að minnsta kosti mínútu að berast til jarðar. Oftast eru steinarnir miklu lengra frá athuganda og hljóðið þeim mun lengur að berast.
Sjá einnig:
Loftsteinar
Loftsteinninn 1. ágúst 1976
Óvenjulegur vígahnottur yfir Íslandi

                                                            Þorsteinn Sæmundsson
23.10. 2009. Síðast breytt 2.8. 2020  

Almanak Háskólans