Ný tungl Júpíters

Snemma árs 2004 tilkynntu stjörnufræðingar við Hawaii-háskóla að tveir smáhnettir sem fundust árið 2003 hefðu reynst vera á braut um reikistjörnuna Júpíter. Höfðu þá samtals 23 ný tungl bæst í fjölskyldu Júpíters á  því ári.  Áður voru þekkt 40 tungl þessarar reikistjörnu svo að heildarfjöldinn er nú kominn í 63. Lítill vafi er á, að enn fleiri tungl eigi eftir að koma í leitirnar.

Þessi nýjustu tungl fundust við leit með þremur stórum sjónaukum á fjallinu Mauna Kea á Hawaii. Tunglin eru  afar lítil, á að giska 2 km í þvermál, og ganga um Júpíter eftir aflöngum, hallandi brautum. Eins og flest þeirra smátungla sem fundist hafa við Júpíter á síðustu árum ganga þau  í öfuga stefnu við stóru tunglin. Bendir það til þess að þau séu reikistirni sem Júpíter hafi fangað með aðdráttarafli sínu.  Sjá enn fremur yfirlitið Tungl reikistjarnanna.
 

Þ.S. 26.2. 2004

Almanak Háskólans