Þessa dagana eru á himni tvær halastjörnur sem eru nógu bjartar til að sjást með berum augum. Önnur þeirra verður reyndar ekki sýnileg frá Íslandi á dimmum himni fyrr en í desember. Það er halastjarnan ISON, sem mikið hefur verið fjallað um í fréttum. Hún er nú á hraðferð til sólar og kemst næst sólu 28. nóvember. Þá verður hún væntanlega björtust, en hversu björt veit enginn, því að halastjörnur eru ólíkindatól og menn skyldu ekki gera sér of miklar væntingar. Halinn er þegar langur og gæti orðið áberandi á himni. Braut ISON liggur svo nærri sól að fjarlægð hennar frá yfirborði sólar verður minna en sólarþvermál. Í meðfylgjandi töflu geta menn séð hve hátt ISON verður á himni í Reykjavík og í hvaða átt að morgni og kveldi. Einnig er sýnt hvenær hún kemur upp og sest. Nafnið ISON er skammstöfun á nafninu International Scientific Optical Network sem er samstarfshópur margra stjörnustöðva með miðstöð í Rússlandi. Formlegt heiti halastjörnunnar er C/2012 S1 þar sem C táknar halastjörnu sem ekki hefur sést áður, en tölur og stafir þar fyrir aftan segja til um það hvenær halastjarnan fannst, eftir sérstöku kerfi.
Myndir og aðrar upplýsingar um ISON er að finna á vefsíðu
tímaritsins
Sky&Telescope.
Á vefsíðu Sky&Telescope er þessi mynd af halastjörnunni Lovejoy, tekin gegnum stjörnusjónauka 7. nóvember s.l. Myndina tók Rolando Ligustri á Ítalíu.
Viðbót 3.12. 2013
|