Á síðustu árum hefur athygli stjörnufræðinga í vaxandi mæli beinst að
svonefndum fjarreikistjörnum, þ.e. reikistjörnum sem ganga um fjarlægar
sólstjörnur. Það er ekki langt síðan að mælitækni komst á það stig að
unnt væri að sanna tilvist slíkra reikistjarna vegna þess hve daufar þær
eru í samanburði við sólstjörnurnar. Fyrstu fjarreikistjörnurnar fundust
árið 1992, og þegar þetta er ritað er fjöldinn kominn yfir 800. Þessar
reikistjörnur hafa oftast verið greindar vegna áhrifa þeirra á
móðurstjörnuna (sólstjörnuna) sem lýsa sér í smávægilegum
hraðabreytingum að eða frá jörðu. Þá hafa verið mældar örlitlar
birtubreytingar sem fram koma þegar reikistjörnurnar ganga milli
móðurstjörnunnar og jarðar. Í nokkrum tilvikum hafa sést
birtubreytingar þegar reikistjarnan er nákvæmnlega í sjónlínu við
sólstjörnuna séð frá jörð, en við það magnast ljósstyrkur sólstjörnunnar vegna þyngdarhrifa
reikistjörnunnar. Eins og við
er að búast er auðveldast að greina reikistjörnur sem eru mjög stórar og
hafa skamman umferðartíma. Fáeinar fjarreikistjörnur hafa greinst
beinlínis í sjónauka. Einarðir áhugamenn um stjörnuskoðun geta nú orðið sér úti um búnað sem gerir þeim kleift að mæla þær örlitlu breytingar sem verða á birtu sólstjörnu þegar reikistjarna fer fyrir hana frá jörðu séð - er í þvergöngu sem kallað er. Búnaðurinn sem til þarf er dýr og mælingarnar og úrvinnsla þeirra kalla á mikla vinnu og þolinmæði. Aðeins er vitað um einn áhugamann hérlendis sem hefur glímt við þetta verkefni. Það er Snævarr Guðmundsson, fyrrverandi formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Nýlega lauk hann við úrvinnslu athugana á þvergöngu tveggja fjarreikistjarna og sendi niðurstöðurnar til gagnamiðstöðvar erlendis. Þessar reikistjörnur ganga um sólstjörnurnar XO-2B og WASP-33. Nafngiftir á stjörnum eru flókið mál og sama stjarnan getur gengið undir mismunandi nöfnum í ólíkum stjörnuskrám. XO merkir að stjarnan er kennd við XO-sjónaukann á Hawaii, sjónauka sem væntanlega dregur nafn sitt af enska heitinu á fjarreikistjörnu (exoplanet). B merkir að stjarnan er daufari stjarnan í tvístirni. Stjarnan er í stjörnumerkinu Gaupunni (Lynx) í tæplega 500 ljósára fjarlægð. Birtustig hennar er 11 svo að hún gæti hugsanlega sést í góðum handsjónauka. Reikistjarnan sem er á braut um hana gengur undir nafninu XO-2Bb eða XO-2b. Hún er á stærð við Júpíter og umferðartíminn er 2,6 dagar. Skammstöfunin WASP vísar til fjölþjóðlegs rannsóknarverkefnis sem nefnist "Víðhornsleit að reikistjörnum" (Wide Angle Search for Planets) og nýtir tvo sjónauka, annan á Kanaríeyjum en hinn í Suður-Afríku. Stjarnan WASP-33 er í stjörnumerkinu Andrómedu í tæplega 400 ljósára fjarlægð. Hún er á 8. birtustigi og sést því í litlum handsjónauka ef menn vita hvar hana er að finna. Reikistjarnan (WASP-33b) gengur um hana á 1,2 dögum og athuganir benda til að efnismagn (massi) hennar sé fjórum sinnum meira en Júpíters. Á meðfylgjandi stjörnukorti er sýnt hvar stjörnurnar
tvær eru á himninum. Kortið sýnir aðeins stjörnur sem eru bjartari en
birtustig 7 svo að XO-2 og WASP-33 eru of daufar til að þær sjáist.
|