Mælingar á þvergöngu tveggja fjarreikistjarna  

XO-2

Stjörnumerki: Gaupan

Kenniheiti stjörnu: GSC 3413:5. Birtustig 11,18. Tvístirni,  31 bogasek. á milli stjarnanna.

Stöðuhnit (miðbaugshnit 2000): RA: 07h 48m 06s   Dec: + 50° 13' 34"

Athuganir voru gerðar 18.–19. október 2012. Þetta kvöld voru góðar aðstæður, heiðríkja, logn og lítil tíbrá. Línurit segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi bentu til lítillar virkni í háloftunum. Þrátt fyrir það sáust veik norðurljós í norðri um miðnætti.

Undirbúningur að verkinu hófst síðdegis. Frá kl. 18:00 til kl. 19:00 voru teknar myndir til að næmijafna myndflötinn ("flat field" myndir). Eftir það var farið að leita að heppilegri miðunarstjörnu ("guide star") þannig að XO-2 yrði sem  næst miðju. Það tók lengri  tíma en reiknað var með. Heppileg miðunarstjarna fannst þó að lokum og þá var hægt að hefja myndatöku.

Myndataka hófst kl. 21:39 og stóð yfir til kl 02:19. Teknar voru 110 myndir í 45 sek. hver mynd. Myndað var í gegnum rauða ljóssíu. Samkvæmt spá átti þverganga XO-2b að hefjast kl. 22:56, vera hálfnuð kl 00:17 og ljúka kl. 01:38). Í byrjun var stjarnan í 47°hæð yfir sjóndeildarhring, komin  í 55° í miðri þvergöngu og í 64° þegar yfir lauk. Myndatökum var haldið áfram í tæpan klukkutíma eftir það.

Við úrrvinnslu mynda var notað forritið CCDSoft og ljósmælingaforritið Mira. Viðmiðsstjörnur til ljósmælinga voru valdar með hliðsjón af vefsíðu ETD (http://var2.astro.cz/ETD/index.php).

Upplýsingar um XO-2, sjá:
http://exoplanets.org/detail/XO-2_b

WASP-33

Stjörnumerki: Andrómeda

Kenniheiti stjörnu: HD 15082 eða SAO 55561. Birtustig 8,14.

Stöðuhnit (miðbaugshnit 2000): RA: 02h 26m 51s   Dec: + 37° 33' 02"

Athuganir voru gerðar 18.–19. nóvember 2012. Góðar aðstæður voru um kvöldið, heiðríkt og logn. Tunglið var á fyrsta kvartili en settist snemma. Lítil virkni var í háloftunum eftir mælingum í Leirvogsstöð að dæma en þó sáust norðurljós um tíma kl 22:30.

Undirbúningur að verkefninu hófst degi fyrr, að kvöldi 17. nóvember. Þá var WASP-33 stillt inn á myndramma með því að finna heppilega miðunarstjörnu. Prófmyndir voru teknar til þess að ákveða heppilega tímalengd mynda. Gekk sú forvinna mjög vel. Undirbúningi var fram haldið svo til allan næsta dag. Hófst vinna við prófmyndatökur upp úr kl 15:00 og stóð ég við sjónaukann svo til samfellt frá kl 16:00 við töku næmijöfnunarmynda ("flat field" mynda).

Eiginleg gagnasöfnun hófst kl 18:26 og stóð til kl 01:12. Teknar voru 172 myndir, auk fjölda ólýstra mynda ("dark frame") til samanburðar. Lýsingartími hverrar myndar var 45 sek. Myndað var í gegnum rauða ljóssíu. Notuð var 2x2 dílaknipping ("binning"). Þverganga WASP-33b átti að hefjast kl. 20:37, vera hálfnuð kl 21:59 og ljúka kl. 23:20. Í upphafi var stjarnan í 64°hæð yfir sjóndeildarhring, var í 63° í miðjum myrkva og í 57° hæð í lokin. Myndatökum var haldið áfram í tæpa tvo klukkutíma eftir það.

Úrvinnsla mynda var sem fyrr framkvæmd með CCDSoft forritinu og ljósmælingaforritinu Mira. Viðmiðsstjörnur til ljósmælinga voru valdar með hliðsjón af vefsíðu ETD.

Upplýsingar um WASP-33, sjá: http://exoplanets.org/detail/WASP-33_b

Tækjabúnaður (þetta á við um báðar stjörnur):

Sjónauki: 30 cm (12") Schmidt-Cassegrain, f/10 spegil-/linsusjónauki á rafdrifnu sjónaukastæði. Ég var búinn að pólstilla sjónaukann nokkrum kvöldum fyrr með viðunandi nákvæmni.

Sem miðunarbúnað notaði ég "Giant Easy Guider" hjástefnubeini, en þá verður f-hlutfallið 6,75.

Myndavél: SBIG STL11000M CCD myndavél. Kæld um 30°C niður fyrir lofthita.

Rauð ljóssía (ljósmyndaröð LRGB). Þetta er ekki heppilegasta sían, en vegna þess hve stjarnan var lágt á lofti ákvað ég að nota hana.

Sjónaukanum var stýrt handvirkt eftir miðunarstjörnu.

4.12. 2012

Snævarr Guðmundsson