RAUNVÍSINDASTOFNUN HÁSKÓLANS


 

Umsögn um frumvarp til laga um tímareikning á Íslandi

    Undirritaður hefur fengið til umsagnar frumvarp til laga um tímareikning á Íslandi, sem nýlega hefur verið lagt fram á Alþingi. Frumvarp þetta er í höfuðatriðum svipað þingsályktunartillögu sem lögð var fram fyrir tveimur árum. Þá var einnig óskað eftir umsögn minni og sendi ég hana til Efnahags- og viðskiptanefndar með bréfi dagsettu 29. apríl 1994. Tæplega er ástæða til að endurtaka allt sem fram kom í því bréfi, því að það mun nefndinni tiltækt. Hér skulu aðeins dregnir saman helstu punktar og bætt við atriðum sem ekki var minnst á í fyrri umsögn.

    Rök flutningsmanna frumvarpsins fyrir því að taka upp nýjan sumartíma eru í stuttu máli þessi:

    1. Tímamunurinn milli Íslands og annarra landa í V-Evrópu myndi styttast um eina stund yfir sumarið, og yrði það til hagræðis fyrir þá sem stunda viðskipti við þessi lönd.

    2. Ekki þyrfti lengur að breyta áætlunum Flugleiða þegar klukkunni er breytt í Evrópulöndum.

    3. Flugfarþegar á leið til Evrópu þyrftu ekki að vakna eins snemma fyrir flug.

    4. Almenningur myndi njóta sólar lengur að sumri til eftir vinnutíma á daginn.
 

    Rökin gegn nýjum sumartíma eru þessi:

    1. Tímabreytingin myndi raska svefnvenjum fólks, einkanlega ungbarna. Á þeim árum sem sérstakur sumartími var í gildi hérlendis, var þetta algengasta umkvörtunarefnið.

    2. Stilla þyrfti allar klukkur á landinu tvisvar á ári, og í sumum tilvikum yrði það mikil fyrirhöfn. Gleymska og mistök sem óhjákvæmileg eru, geta haft óþægilegar afleiðingar. Meðan reglur um sumartíma voru í gildi, var algengt að menn kæmu of seint eða of snemma til vinnu, á fundi eða samkomur, daginn eftir tímabreytinguna.

    3. Þeir sem eiga viðskipti vestur um haf myndu missa eina stund af sameiginlegum skrifstofutíma, og er hann þó skammur fyrir.

    4. Ef klukkunni yrði flýtt um klukkustund fram undir lok október, myndi það hafa þau áhrif, að menn fyndu fyrir skammdeginu tæpum þrem vikum fyrr en ella. Venjulega meta menn skammdegið eftir því, hvenær birtir á morgnana.

    5. Breyta þyrfti veðurfregnatímum útvarps tvisvar á ári, því að veðurathuganir eru gerðar á föstum tímum eftir miðtíma Greenwich (GMT).

    6. Breyta þyrfti mjaltatímum í sveitum, og heyvinnutíma myndi seinka.

    7. Þeir sem nota flóðtöflur, töflur um sólargang og hliðstæðar töflur í almanökum yrðu að muna eftir að leiðrétta tölur á réttan veg meðan sumartíminn er í gildi, því að töflurnar fylgja sama tíma allt árið. Að víkja frá þeirri hefð myndi aðeins auka hættu á misskilningi. Mistök í túlkun umræddra taflna geta haft alvarlegar afleiðingar.

    8. Aðilar sem sinna rannsóknum, samgöngum og fjarskiptum þar sem tímaviðmið er GMT myndu ekki lengur njóta þess hagræðis að búa við þann tíma í daglegu lífi allt árið. Um leið ykist hættan á mistökum við tímaskráningar.

    9. Tímareikningur að sumri til yrði víðs fjarri því upprunalega markmiði, að hádegi skuli vera klukkan 12 og miðnætti klukkan 24. Orðin "hádegi" og "miðnætti" yrðu nánast óræð, ef ekki fylgdu nánari skýringar. Sól yrði í hádegisstað einhvern tíma á bilinu frá kl. 13:38 til kl. 14:53, allt eftir landshluta og árstíma. Rétt miðnætti (lágnætti) yrði á sama hátt á tímabilinu frá kl. 01:38 til kl. 02:53.

    10. Þeir sem áhuga hafa á norðurljósum eða stjörnuskoðun, þar með taldir erlendir ferðamenn, yrðu að bíða klukkustundu lengur (þ.e. tveimur stundum lengur en eðlilegt getur talist miðað við legu landsins) eftir myrkri að vori eða hausti, en haustið er besti athugunartíminn með tilliti til veðurfars og tíðni norðurljósa. Um hásumarið yrðu ferðamenn að bíða lengur fram eftir nóttu til að sjá miðnætursól.
 

    Athugasemdir við greinargerð frumvarpsins:

    1. Í greinargerðinni segir: "Rökin sem færð hafa verið gegn sumartímanum hafa fyrst og fremst falist í að draga fram kostnaðinn og fyrirhöfnina við að breyta klukkunni tvisvar á ári". Þetta er ekki rétt. Í grein sem ég ritaði í Morgunblaðið 9. mars 1994 var annað atriði talið fyrst, á sama hátt og nú. Í greinargerð minni til Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, dags. 29. apríl 1994, stendur beinlínis: "Fyrirhöfnin við að stilla klukkur, þótt ærin sé, er ekki þyngsta röksemdin í þessu máli".

    2. Höfuðröksemd flutningsmanna er sú, að með nýjum sumartíma fáist ein klukkustund í viðbót til samskipta við Evrópulönd á sameiginlegum skrifstofutíma. Þessi klukkustund myndi skipta sköpum í viðskiptalífinu, að mati flutningsmanna. Hins vegar virðast þeir ekki hafa áhyggjur af þeim skrifstofumönnum sem stunda viðskipti við Bandaríkin og eiga á hættu að missa klukkustund af þeim stutta tíma sem þeir hafa til umráða. Í þessu felst veruleg mótsögn. Á hinn bóginn er ástæða er til að efast um, að sameiginlegur skrifstofutími skipti jafnmiklu máli í viðskiptum og flutningsmenn vilja vera láta. Ekki virðist tímamunurinn hafa staðið Japönum fyrir þrifum, þegar þeir voru að hasla sér völl á mörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum.

    3. Að mati flutningsmanna, eiga hin nýju lög að færa Íslendingum sumarstemningu eins og gerist í nágrannalöndum í Evrópu, heilbrigðari lifnaðarhætti og hafa hvetjandi áhrif á viðskiptalíf, götulíf og allt mannlíf á Íslandi, svo að vitnað sé í greinargerðina með frumvarpinu. Þarna gætir nokkurrar bjartsýni, svo að ekki sé meira sagt. Að flýta klukkunni jafngildir ekki því að flytja Ísland á suðlægari breiddarstig.

    4. Bent hefur verið á, að í stað þess að færa klukkuna mætti breyta vinnutíma á sumrin. Þetta telja flutningsmenn illfæra leið; það kosti í flestum tilvikum of mikla röskun að breyta vinnutíma einstaklinga, svo að ekki sé talað um starfstíma heilla fyrirtækja. Sú staðhæfing er illskiljanleg í ljósi þess að margar stofnanir hafa nú þegar þennan háttinn á. Ef þetta yrði gert að almennri reglu, mætti jafnvel fá betra samræmi en nú er milli skrifstofutímans, skólatíma og opnunartíma dagheimila.

    5. Flutningsmenn segja það einkennilegt, að Íslendingar skuli vera sér á báti hvað varðar afstöðuna til "sumartímans". Margsinnis hefur þó verið bent á, hvaða rök liggi að baki sérstökum sumartíma í þeim löndum þar sem hann tíðkast. Sumartíminn var upphaflega innleiddur til þess að spara orku, og það sjónarmið vegur enn þungt þegar kostir sumartíma eru metnir. Hér á landi skiptir þetta atriði litlu máli. Því veldur bæði hnattstaða landsins og orkubúskapur. Á sumrin er bjart mestan hluta vökutímans og á veturna dimmt, hvort sem klukkunni er hagrætt eða ekki. Íslendingar spara ekki heldur eldsneyti (olíu eða kol) svo að neinu nemi með því að breyta klukkunni. Íslendingar eru ekki einir á báti í afstöðu sinni, því að tveir þriðju hlutar allra sjálfstæðra ríkja hafa klukkuna óbreytta allt árið, þar á meðal Japan og Taívan. Það er því ekki alls kostar rétt sem segir í greinargerðinni með frumvarpinu, að sumartími tíðkist í öllum helstu viðskiptalöndum okkar í austri og vestri.
 

                                                                   Reykjavík, 5. mars 1996,

                                                                    Þorsteinn Sæmundsson

 

------------------------------------------------------------------------------------------------

Athugasemd:  Í 9. liđ hér ađ ofan er villa.  Tímarnir 14:53 og 02:53 myndu gilda ef klukkunni vćri flýtt allt áriđ. Réttari tímatölur eru 14:45 og 02:45.
Ţ.S. 10.4. 2006 

Til baka - (Ný tillaga um sumartíma)