ALMANAK  HÁSKÓLA  ÍSLANDS

29. apríl, 1994
Til Efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis
Þórshamri við Templarasund
Reykjavík.
 
 

Umsögn um þingsályktunartillögu
um sumartíma, skipan frídaga og orlofs.



    Hér er um að ræða þrjú mál, sem í rauninni eru óskyld. Tvö þeirra (sumartími og skipan frídaga) snerta sérsvið undirritaðs, og verður fjallað um þau hér að neðan. Ekki verður tekin afstaða til þriðja málsins (fyrirkomulags orlofs).
 

1. Um sumartíma. Sögulegt yfirlit.

    Sérhver regla um stillingu klukkunnar er málamiðlun, þar sem taka þarf tillit til margra sjónarmiða. Aldagömul hefð er fyrir því að stilla klukkur eftir sólinni. Allt frá því á 16. öld hafa menn skipt sólarhringnum í 24 stundir og stillt klukkur á 12 sem næst hádegi og miðnætti. Í fyrstu var miðað við sannan sóltíma á hverjum stað, en eftir því sem klukkur urðu nákvæmari, varð erfiðara að fylgja ójöfnum gangi sólar, og þegar kom fram á 19. öld var alfarið miðað við meðalsól en ekki sanna sól. Lengi vel fylgdi þó hver staður sínum tíma eftir sólinni, og þannig var það hér á landi allt fram yfir síðustu aldamót. Klukkur á Akureyri sýndu því annan tíma en klukkur í Reykjavík, svo að munaði 15 mínútum. Árið 1907 voru loks sett lög um sameiginlegan íslenskan miðtíma, sem skyldi svara til meðalsóltíma á 15› vestlægrar lengdar frá Greenwich. Var það í samræmi við alþjóðlegt samkomulag frá 1885, þar sem jörðinni var skipt upp í tímabelti sem hvert náði yfir 15 lengdargráður og munaði því réttri klukkustund í tíma frá einu belti til þess næsta. Af hagkvæmnisástæðum var þó sjaldnast farið nákvæmlega eftir lengdarbaugunum. Þannig var Ísland allt látið fylgja sama tímabelti, þótt vestasti hluti landsins hefði strangt tekið átt að fylgja öðru belti en meginhluti landsins.

    Tillögur um sérstaka stillingu klukkunnar á sumrin, svokallaðan sumartíma, komu fram þegar á 18. öld, en það var ekki fyrr en í heimstyrjöldinni fyrri, 1914-1918, að þessi hugmynd kom til framkvæmda í mörgum löndum. Með sumartímanum fékkst betra samræmi milli birtutíma og vökutíma og sparaðist þannig dýrmætt eldsneyti. Sumartími var aftur tekinn upp víða um heim í heimstyrjöldinni síðari, 1939-1945, en flest lönd felldu hann niður aftur þegar frá leið. Í olíukreppunni á áttunda áratugnum var enn gripið til sumartímans í sparnaðarskyni, og sem stendur hafa margar þjóðir þennan háttinn á. Oftast hefur klukkunni verið flýtt um eina stund að sumrinu, en stundum hefur færslan numið tveimur stundum. Á Íslandi var sumartími í gildi árin 1917-1918 og aftur 1939-1968. Með lögum nr. 6 árið 1968 var ákveðið að fljóta klukkan ("sumartíminn") skyldi framvegis gilda allt árið. Klukkunni var því flýtt vorið 1968 en ekki seinkað aftur um haustið. Núna eru því klukkur á Íslandi stilltar þannig að þær sýna einni stund meira en vera ætti samkvæmt beltatíma, sem miðast við meðalsól. Vestast á landinu munar reyndar tveimur stundum, sbr. það sem fyrr er sagt. Um ástæðurnar fyrir lagasetningunni 1968 vísast til greinargerðar með frumvarpinu, en undirritaður var annar af höfundum hennar.
 

2. Rök flutningsmanna fyrir því að taka upp sumartíma.

    Þingsályktunartillagan sem fyrir liggur, gerir ráð fyrir því að klukkunni verði flýtt að sumrinu um eina klukkustund frá því sem nú er. Þótt það sé hvergi sagt berum orðum, má lesa það út úr þeirri greinargerð sem fylgir, að hugmyndin sé að miða við sömu tímamörk að vori og hausti og Evrópusambandið stefnir að með þeirri samræmingu sumartíma sem taka mun gildi frá og með 1996 (ekki 1997, eins og segir í greinargerðinni).

    Flutningsmenn nefna þrjá kosti sem fylgi því að taka upp sérstakan sumartíma. Er þá fyrst nefnd lenging sameiginlegs skrifstofutíma á Íslandi og í Vestur-Evrópu, og er mest áhersla lögð á það mál. Röksemdin er rétt, svo langt sem hún nær, og var reyndar ein af mörgum ástæðum sem lágu til grundvallar því að "fljóta klukkan" (gamli sumartíminn) varð fyrir valinu árið 1968 þegar ákveðið var að hætta klukku- færslum hér á landi. Frá sjónarmiði þeirra sem stunda viðskipti hlýtur hins vegar að vera spurning hve langt sé hægt að ganga í þessa átt. Það sem vinnst í sameigin- legum skrifstofutíma austur á bóginn til Evrópu, tapast þegar horft er vestur á bóginn til Ameríku, og þar er þessi sameiginlegi tími orðinn æði stuttur. Þá má líka spyrja þeirrar spurningar, hvort sameiginlegur skrifstofutími skipti eins miklu máli nú, þegar bréfasími (telefax) og tölvupóstur eru að verða ríkjandi þáttur í samskiptum milli landa. Benda má á, að Japanar hafa ekki tekið upp sumartíma. Ekki verður annað séð en að þeim hafi tekist bærilega að halda uppi viðskiptum við Evrópu og Bandaríkin þrátt fyrir mikinn tímamun í báðar áttir.

    Önnur röksemd flutningsmanna er sú, að ef sumartími yrði tekinn upp á Íslandi, þyrfti ekki lengur að breyta áætlunum flugfélaga þegar klukkunni er flýtt eða seinkað erlendis. Þetta er ekki alls kostar rétt hvað varðar flug til Bandaríkjanna. Sumartími þar mun ekki fylgja sumartíma í Evrópu að því leyti, að klukkunni verður ekki flýtt alveg á sama tíma báðum megin hafsins í fyrirsjáanlegri framtíð, og munar þar einni viku. Með tilkomu sérstaks sumartíma hérlendis, hlytu tímaáætlanir í Bandaríkjaflugi að breytast, ekki aðeins þegar klukkunni er flýtt þar, heldur líka þegar henni yrði flýtt hér (sem yrði væntanlega viku síðar). Hvort breytingarnar eru látnar koma fram í brottfarar- og komutímum hérlendis, eins og nú virðist gert í Evrópuflugi, eða erlendis, eins og nú virðist gert í Bandaríkjaflugi, hlýtur að vera ákvörðunaratriði flugrekstraraðila. En ekki skal dregið í efa, að það myndi vera hagkvæmara fyrir þessa aðila í heildina séð, ef klukkunni yrði flýtt hér á sumrin til samræmis við Evrópulönd.

    Þriðja röksemdin er sú, að sólar muni njóta lengur eftir vinnutíma, ef klukkunni verði flýtt að sumrinu. Þetta er vissulega rétt og var reyndar aðalástæðan til þess að gamli sumartíminn var lögfestur allt árið. En þótt skammtur af meðali hafi góð áhrif, er ekki þar með sagt að tvöfaldur skammtur hafi tvöfalt betri áhrif. Ef klukkunni væri flýtt meira en nú er gert, gengi það í berhögg við þá aldagömlu hefð, að hádegi og miðnætti skuli vera sem næst klukkan 12. Hádegi yrði þá á tímabilinu frá kl. 13:38 til kl. 14:53, allt eftir landshlutum og árstímum, og miðnætti á tímabilinu frá kl. 01:38 til kl. 02:53. Orð eins og "hádegi" og "miðnætti", "árdegis" og "síðdegis" hefðu þá ekki lengur skýra merkingu í íslensku máli. Þótt við búum nú þegar við fljóta klukku, fylgist fólk ekki svo grannt með sólargangi að öllum jafnaði, að það taki eftir misræminu sem af því leiðir. En ef klukkunni væri flýtt um eina stund til viðbótar, yrði hverjum manni augljóst að hádegið væri orðið fjarri klukkan 12 og miðnættið sömuleiðis. Þegar hádegið fer að nálgast það sem áður hét nón, og miðnættið óttu, mun ýmsum finnast nóg um.

    Þá má benda á, að ekki er víst að allir yrðu ánægðir með að klukkunni yrði flýtt umfram það sem þegar hefur verið lögfest. Bóndinn sem bíður eftir að heyið þorni í morgunsólinni, er varla hrifinn af því að þurfa að bíða klukkutímanum lengur. Hið sama má sjálfsagt segja um ferðamanninn sem hefur hugsað sér að horfa á sólarlagið eða miðnætursólina. Og þeir sem hafa áhuga á að fylgjast með stjörnum eða norðurljósum vor og haust, yrðu að bíða ennþá lengur eftir því að það dimmi að kvöldi. Þetta er aðeins nefnt til þess að undirstrika, hve sjónarmiðin geta verið margvísleg, og að það sem er einum í hag getur verið öðrum í óhag.

    Sá kostur fljótrar klukku, að færa mönnum aukna birtu að loknum vinnutíma, er ekki eins ótvíræður hérlendis og sunnar í löndum, þar sem raunverulegt myrkur verður á öllum árstímum, jafnvel um hásumarið. Á þeim breiddargráðum getur færsla klukkunnar skipt verulegu máli, t.d. við útiskemmtanir. Á Íslandi er hins vegar svo bjart að sumrinu, að myrkur er sjaldnast til trafala.

    Þá eru upp taldar þær röksemdir sem flutningsmenn þingsályktunartillögunnar færa fyrir máli sínu. Mótrök nefna þeir engin, þótt þau sé að finna í greinargerð með lögunum frá 1968, sem þeir vitna til.
 

3. Rökin gegn nýjum sumartíma.

    Alvarlegasti gallinn við að flýta klukkunni að vori og seinka henni að hausti, er sú röskun sem það hefur í för með sér í nútímaþjóðfélagi. Þetta þekkja allir sem reynt hafa. Þær þjóðir sem tekið hafa upp sérstakan sumartíma, gera það þrátt fyrir augljós óþægindi, af ástæðum sem eru ekki fyrir hendi hér á landi (eldsneytis- sparnaður) eða vega ekki eins þungt hér (lengri birtutími eftir vinnu). Í reglum um samræmingu sumartíma í löndum Evrópusambandsins er sérstaklega tekið fram, að reglurnar skuli ekki gilda lengur en þrjú ár fram í tímann. Bendir það til þess að ekki sé litið á þetta sem varanlegt fyrirkomulag.

    Að breyta öllum klukkum í landinu tvisvar á ári er ekkert áhlaupaverk. Fyrir utan venjuleg úr og heimilisklukkur má nefna allan þann fjölda af stimpilklukkum sem stilla þarf, svo og klukkur á byggingum á almannafæri. Þá eru komnar óteljandi klukkur í alls konar heimilistæki, rafeindatæki og tölvur. Stilling á klukku í einkatölvu virðist einfalt mál, en getur þó verið varasöm aðgerð í sambandi við geymslu á tímasettum skrám, þar sem tímaröð skránna getur brenglast. Stilling á klukku í stóru tölvukerfi, þar sem alls konar aðgerðir fara fram sjálfvirkt eftir klukkunni allan sólarhringinn, er erfiðara viðfangsefni. Þegar klukkunni var seinkað sl. haust í Danmörku, tilkynnti fyrirtækið IBM með tíu daga fyrirvara að danska tölvunetið yrði óstarfhæft í margar klukkustundir. Forstjóri Skýrsluvéla ríkisins taldi aðspurður að það myndi taka um það bil tvær klukkustundir að breyta klukkum í tölvum þess fyrirtækis og að verkið yrði að framkvæmast með mikilli gát. Forstjóri öryggisþjónustufyrirtækis í Reykjavík vakti athygli undirritaðs á því, að það myndi kosta mikla fyrirhöfn að stilla allar klukkur í þeim rafeindabúnaði sem fyrirtækið hefði komið upp. Þessi dæmi eru aðeins nefnd til umhugsunar, en áþekk dæmi eru sjálfsagt fleiri en nokkurn grunar.

    Fyrirhöfnin við að stilla klukkur, þótt ærin sé, er ekki þyngsta röksemdin í þessu máli. Önnur áhrif breytingarinnar myndu snerta almenning enn meira. Meðan reglur giltu um sérstakan sumartíma hér á landi, var mjög mikið kvartað yfir því, að hringlið með klukkuna truflaði svefnvenjur manna, og þá sérstaklega ungbarna. Þetta var árviss uppspretta lesendabréfa í dagblöðum og sífellt umkvörtunarefni. Þá voru alltaf margir sem gleymdu að stilla klukkur sínar og lentu í meiri og minni vandræðum af þeim sökum. Í sveitum þurfti að breyta mjaltatíma í áföngum, og var það til óþæginda fyrir bændur. Færsla klukkunnar olli því líka, að breyta varð veðurfregnatímum í útvarpi, og var það síður en svo vinsælt. Vegna alþjóðlegs samstarfs verður Veðurstofan að framkvæma veðurathuganir á föstum tímum eftir miðtíma Greenwich (kl. 3, 6, 9, 12 o.s.frv.). Ef klukkunni á Íslandi væri flýtt að sumrinu, yrðu veðurathugunarmenn að breyta til og gera athuganir sínar kl. 4, 7, 10, 13 o.s.frv. eftir hinum nýja sumartíma. Þetta hefði aftur áhrif á það, hvenær hægt væri að lesa veðurfregnir í útvarpi.

    Miðtími Greenwich (GMT), öðru nafni heimstími (Universal Time, UT), er nú staðaltími á Íslandi. Þessi tími er hafður til viðmiðunar í alþjóðlegum rannsóknum, samgöngum og fjarskiptum, og það er óneitanlega til mikils hægðarauka fyrir fjölda aðila hérlendis að þetta skuli jafnframt vera íslenskur tími árið um kring. Kemur það í veg fyrir ýmiss konar óþægindi og mistök og auðveldar marga starfsemi. Auk Veðurstofunnar á þetta við um allar aðrar stofnanir þar sem tímasettar athuganir og mælingar fara fram. Þá má benda á aðila eins og Flugmálastjórn og Póst- og símamálastofnunina, sem hafa þarna hagsmuna að gæta. Slíkir aðilar þyrftu að fá þingsályktunartillöguna til umsagnar.

    Að lokum skal minnst sérstaklega á mikilvægt atriði sem snertir alla þá sem nota töflur eins og flóðtöflur og sólargangstöflur í almanökum, s.s. Almanaki Háskólans og Sjómannaalmanakinu, eða töflur frá Sjómælingum Íslands. Slíkar töflur verða að fylgja föstum tíma árið um kring, bæði vegna alþjóðlegrar hefðar og eins af rökfræðilegum ástæðum. Ef klukkunni er flýtt að sumrinu, þurfa menn að muna að bæta klukkutíma við tölurnar í þessum töflum. Meðan reglur um sumartíma giltu hér á landi, var algengt að þetta ylli misskilningi, og þess var jafnvel dæmi að sá misskilningur hefði alvarlegar afleiðingar. Klukkutímaskekkja getur skipt verulegu máli, t.d. fyrir einkaflugmann sem er að gera flugáætlun og misreiknar sig á því, hvenær myrkur verður á áfangastað. Sama gildir um sjófarendur sem þurfa að vita sjávarstöðu eða taka sólarhæð. Skekkjan getur tvöfaldast ef leiðrétting er gerð í öfuga átt, en ávallt er mikil hætta á slíku.

    Að öllu samanlögðu verður ekki séð, að hagræðið við að flýta klukkunni á sumrin geti á nokkurn hátt vegið upp á móti hinum margvíslegu ókostum sem þessu myndu fylgja. Í mörgum tilvikum mætti ná svipaðri hagræðingu og flutningsmenn þingsályktunartillögunnar óska eftir, með því að viðkomandi tækju upp annan vinnutíma á sumrin. Allmörg fyrirtæki og stofnanir hafa þegar breytt opnunartíma að sumrinu, og víðtækari samtök um slíkt ættu að vera möguleg, ef menn sjá sér hag í því.

    Síðan núgildandi lög um íslenskan tíma voru sett, árið 1968, má heita að fullkominn friður hafi ríkt um þetta mál, gagnstætt því ósætti sem alltaf bar á, meðan klukkunni var flýtt á sumrin. Ber þetta vott um að vel hafi tekist til, og sýnist óráðlegt að stofna til deilna á nýjan leik.
 

4. Um skipan frídaga.

    Annar hluti þingsályktunartillögunnar fjallar um breytingu á skipan frídaga. Í greinargerð er bent á, að það sé til óþæginda hve margir frídagar lendi á fimmtudögum, og er lagt til að sumardagurinn fyrsti og hugsanlega uppstigningardagur verði fluttir til. Hér verður þetta skilið á þann veg, að flutningsmenn vilji afnema helgi þessara daga og taka upp nýja frídaga í þeirra stað, því að sumar- dagurinn fyrsti er fastbundinn í hinu forníslenska misseristali, og uppstigningardagur órjúfanlega tengdur páskum, þannig að um raunverulegan flutning þessara daga getur ekki verið að ræða.

    Flutningsmenn líta svo á, að það yrði viðkvæmara að afnema helgi uppstigning- ardags heldur en sumardagsins fyrsta. Þetta er mikið vafamál. Sumardagurinn fyrsti hefur um langan aldur verið sérstakur hátíðisdagur þjóðarinnar og gekk næst jólum og páskum hér áður fyrr. Hann var messudagur fram til 1744. Ef helgi þessa dags yrði afnumin og hann gerður að virkum degi, er mikil hætta á að dagurinn myndi smám saman falla í gleymsku, og hefðu þá glatast mikilvæg tengsl við fortíð og sögu þjóðarinnar. Ljóst er af viðbrögðum manna, að mjög mikil andstaða er við þessa hugmynd. Hins vegar má ætla, að minni andstaða yrði við tillögu um að afnema helgi uppstigningardags. Að sjálfsögðu þyrfti þó að biðja forsvarsmenn þjóðkirkjunnar um álit á því máli.
 

                                                        Virðingarfyllst,

                                                    Þorsteinn Sæmundsson
 

Til baka - (Ný tillaga um sumartíma)