Fritz Zwicky (1898-1974) var stærðfræðingur og
eðlisfræðingur. Faðir hans var svissneskur en móðirin tékknesk.
Zwicky flutti frá Sviss til Bandaríkjanna árið 1925 og starfaði eftir það hjá
Tæknistofnun Kalíforníu (Caltech). Hann gerði margar merkar
uppgötvanir, en þar sem hann var hrokafullur og erfiður í umgengni
var ekki hlustað á hann sem skyldi. Hann varð fyrstur til að setja
fram kenninguna um hulduefni til að skýra hreyfingar vetrarbrauta.
Einnig varð hann fyrstur til að uppgötva að vetrarbrautir mynda
þyrpingar. Hann bjó til heitið "súpernóva" um sprengistjörnur og gat
þess til, að þær mörkuðu þróun venjulegra stjarna yfir í
nifteindastjörnur. Zwicky spáði því að vetrarbrautir gætu myndað
þyngdarlinsur og þannig sveigt ljósið sem berst frá
fjarlægum vetrarbrautum til jarðar. Þetta var staðfest árið 1979, en þá var
Zwicky látinn.
Zwicky átti heiðurinn af ýmsum tæknilegum uppgötvunum, þar á meðal
þotuhreyflum sem voru svo veigamikið framlag fyrir flugher
Bandaríkjanna að honum hlotnaðist fyrir það heiðursmerki (Medal of
Freedom). Alls var hann skráður fyrir 50 einkaleyfum. Eitt af smástirnunum ber hans nafn
(1803 Zwicky), og
sömuleiðis gígur á tunglinu.
Fáir vita að Zwicky varð fyrstur til að senda hlut frá jörðu út í
geim, á braut um sólina. Þetta var árið 1957, hálfum mánuði eftir að
Sovétríkin skutu gervitunglinu Sputnik 1 á braut um jörðu. Zwicky
hafði umsjón með skoti eldflaugar af Aerobee gerð. Í oddi
eldflaugarinnar hafði hann látið koma fyrir litlum skutli og
sprengihleðslu. Þegar eldflaugin hafði náð 150 km hæð flaug
skutullinn út í geiminn með lausnarhraða frá jörðu. Zwicky kallað
þetta gerviloftstein.
Þ.S. 2.1. 2022. Síðasta viðbót 15. 4. 2022 |