Falleg mynd - en villandi

Á einni af vefsíðum bandarísku geimvísindastofnunarinnar (NASA) birtist á hverjum degi valin mynd undir fyrirsögninni "Astronomy Picture of the Day" eða stjörnufræðimynd dagsins. Myndin sem birtist 14. nóvember sl. hefur vakið verðskuldaða athygli hér á landi, því að hún sýnir Skógafoss með stjörnur og norðurljós í bakgrunni, en regnboga af tungli í forgrunni (sjá hér). Ljósmyndarinn er franskur, Stephane Vetter að nafni, en engar upplýsingar fylgja myndinni aðrar en þær að hún sé tekin í fyrri mánuði (þ.e. október) undir því sem næst fullu tungli. Sé tekið mið af því hvernig Karlsvagninn snýr og stefnu regnbogans (miðja bogans er beint á móti tungli) mætti giska á að myndin sé tekin 8. eða 9. október milli klukkan 21 og 22.

En þótt myndin sé framúrskarandi falleg er eitt víst: hún er ekki raunsönn í þeim skilningi að þetta sé það sem ljósmyndarinn hafi sjálfur séð. Í fyrsta lagi eru regnbogar af tungli svo daufir að mannsaugað greinir vart nokkra liti í þeim þá sjaldan þeir sjást. Fyrir auganu eru þeir gráir eða hvítir. Þetta hefur áður verið staðfest af ljósmyndurum sem hefur tekist að ná litunum fram. Til að ná  litunum eins skýrt og þeir sjást á myndinni hefur ljósmyndarinn orðið að taka myndina á alllöngum tíma, þ.e. ekki augnabliksmynd, eða stilla vélina á mikið ljósnæmi. Sennilega hefur hvort tveggja verið gert. Fossinn sýnir að þetta er ekki augnabliksmynd, en miðað við það hve lítið stjörnurnar hafa hreyfst meðan myndin var tekin, hefur linsan ekki verið lengi opin.. Nú er afar ósennilegt að hæfileg lýsing hafi náðst samtímis af stjörnuhimninum, regnboganum og umhverfinu. Líkur benda til að myndin sé samsett úr myndum teknum með mismunandi stillingum og jafnvel á mismunandi tímum. Skugginn sem fellur á fossinn virðist t.d. ekki í samræmi við stefnuna til tunglsins, sem ráða má af stöðu regnbogans. Niðurstaðan verður því sú að hér sé um nokkurs konar listaverk að ræða fremur en eðlilega náttúrumynd. 

Þ.S. 18.11. 2011. Breytt 20.11. 2011

 

Almanak Háskólans