Óvenjulegur vígahnöttur yfir Íslandi

   Að kvöldi 27. október 2008, kl. 22:33, birtist óvenju bjartur loftsteinn á himni yfir Íslandi. Hann sást víða um land og vakti mikla athygli, enda veðurskilyrði hagstæð í flestum landshlutum. Bjartir loftsteinar eru stundum kallaðir vígahnettir (á ensku fireball), en nokkur ágreiningur er um skilgreiningu á því hugtaki. Líklega er óhætt að segja að vígahnöttur sé loftsteinn sem er nægilega bjartur til þess að fólk tilkynni um fyrirbærið til fjölmiðla eða veðurstofu. Þessi tiltekni loftsteinn var langt yfir þeim mörkum, þótt hann sé ekki sá bjartasti sem sést hefur hér á landi.

    Það auðveldaði gagnasöfnun að þorri landsmanna hefur nú yfir tölvu að ráða, og skeyti bárust frá fjölda manns. Nánari upplýsingar fengust með því að ræða við sjónarvotta í síma og fá svör við spurningum í tölvupósti. Alls bárust undirrituðum lýsingar frá 19 stöðum á landinu, og  frá sumum staðanna barst skýrsla frá fleiri en einum athuganda. Staðirnir voru þessir: Junkaragerði á Reykjanesi, Innri-Njarðvík, Krýsuvík, Hafnarfjörður, Reykjavík, Mosfellsbær, Sandskeið, Hellisheiði nærri Skíðaskála, Hveragerði, Þykkvibær, Vestmannaeyjar, Jökulsá á Sólheimasandi, Hlíð undir Eyjafjöllum, Hali í Suðursveit, Eyjafjörður sunnan Akureyrar, Blönduós, Þverárfjall í A-Húnavatnssýslu, Bifröst í Borgarfirði, Brekkuhvammur í Reykholtsdal.

    Sjónarvottum ber ekki saman um birtu loftsteinsins. Félagar í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, sem voru við stjörnuskoðun í Krýsuvík, mátu hann á við fjórðung tungls, (sjá http://www.stjornuskodun.is/component/content/article/42-frettir/367-glaesilegt-loftsteinahrap-sast-viea-ae)
en flest bendir til að við hámark hafi blossinn verið miklu bjartari en þetta. Steinninn virðist hafa komið skáhallt með litlum halla inn í lofthjúp jarðar í stefnu frá norðri til suðurs yfir landinu miðju. Það sem gerir þennan loftstein sérstaklega áhugaverðan var lýsandi slóð sem hann skildi eftir sig og sást í langan tíma (meira en 20 mínútur). Langvarandi, sjálflýsandi slóðir eftir loftsteina eru mjög sjaldgæfar, og menn hafa ekki fundið fullnægjandi skýringar á því hvernig þær geta varað svo lengi. Þær eru annars eðlis en rykslóðir sem algengt er að loftsteinar skilji eftir sig og geta verið áberandi ef þær eru lýstar upp af sól. Sjálflýsandi slóðir myndast úr efni sem skilist hefur í fareindir (jóna). Þar er  bæði um að ræða efni úr loftsteininum sjálfum og efni úr lofthvolfi jarðar (ildi og nitur) sem loftsteinninn hefur örvað. Fyrirbærið er að sumu leyti hliðstætt norðurljósum, enda hefur a.m.k. ein litrófslína norðurljósa greinst í lýsandi loftsteinaslóð.

    Stjörnuskoðarar í Krýsuvík (Grétar Örn Ómarsson og Vilhjálmur Hallgrímsson) náðu ljósmyndum af slóð loftsteinsins þar sem afstaða hennar til fastastjarna sést greinilega. Ein myndin, sem Vilhjálmur tók, sýnir líklega síðustu ljósgeislana frá loftsteininum sjálfum. Snævarr Guðmundsson  var við stjörnuljósmyndun með sjónauka í Hafnarfirði, og þótt hann næði ekki mynd af loftsteininum, gat hann ákvarðað afstöðu slóðarinnar til stjarna á himni með allgóðri nákvæmni. Þegar við bættust stefnulýsingar úr öðrum landshlutum var unnt að staðsetja slóðina með nokkurri vissu. Miðja hennar reyndist vera um 40 km sunnan við (miðjan) Hofsjökul, í tæplega 100 km hæð. Slóðin reyndist nærri lárétt í stefnu frá norðri til suðurs, nyrsti hlutinn nálægt 100 km hæð en sá syðsti við 94 km hæð.  Lengd slóðarinnar var um 30 km. Sýnilegur ferill lofsteinsins var miklu lengri en þetta, enda kemur slóð loftsteina aðeins fram í afmarkaðri hæð þar sem skilyrði til slóðarmyndunar eru hagstæð. Athuganir hafa sýnt að sjálflýsandi slóðir myndast helst í 90-100 km hæð svo að slóðin 27. október er dæmigerð hvað það snertir. Rykslóðir, sem ekki eru sjálflýsandi, sjást venjulega talsvert neðar, í rösklega 80 km hæð.

    Eftir því sem næst verður  komist eftir lýsingum sjónarvotta sást loftsteinninn 27. október  fara um 150 km vegalengd  á 2-3 sekúndum eða svo, en það svarar til mun meiri hraða en algengast er um vígahnetti. Kemur það heim við þá reynslu að lýsandi slóðir myndast helst þegar hraði loftsteins er mjög mikill. Loftsteinar ná mestum hraða ef þeir mæta jörðinni á ferð hennar um sólu, þ.e. koma úr gagnstæðri átt, en það gæti átt við í þessu tilviki. Steinninn sást fara lítið eitt lengra en slóðin sem hann skildi eftir sig og splundraðist í lokin. Hann hefur þá að líkindum komið í ljós við 120 km hæð og horfið nálægt 90 km hæð. Venjulega komast vígahnettir nær jörðu en þetta áður en þeir hverfa.

    Sjónarvottum ber saman um að glampinn frá loftsteininum hafi verið bláleitur og að hin lýsandi slóð hafi í fyrstu verið hvít og minnt á flúrljós í tíu sekúndur eða svo. Síðan sáust í henni fleiri litir, einkanlega norðan til (aftast) og á jöðrunum: blár, gulur, grænn og rauður að sögn, en lýsingum manna á litunum ber ekki saman. Einn sjónarvottur lýsir steininum sjálfum svo að hann hafi verið rauðgulur, en dökkur í miðju. Slóðin, sem sýndist breiðari en venjuleg slóð eftir flugvél, hélst björt í á að giska eina mínútu . Eftir þrjár mínútur var hún orðin áberandi rauðleit og farin að tvístrast, en hún sást greinilega í meira en 20 mínútur. Slóðin virðist í upphafi hafa verið björtust nyrst en daufari syðst. Tveimur athugendum sýndist ljós færast eftir slóðinni í aðra átt eða báðar rétt eftir að hún myndaðist.  Sumir sáu tvær samsíða rákir. Það er þekkt fyrirbæri og er venjulega skýrt með því að efni úr loftsteininum myndi holan sívalning sem sýnist bjartastur í röndunum, en sú skýring þykir hæpin.

    Tveir sjónarvottar telja sig hafa heyrt hljóð líkt og smell um leið og loftsteinninn birtist. Ekki getur þar verið um venjulegar hljóðbylgjur að ræða, því að hljóð berst ekki úr lofti ofan við 60 km hæð, auk þess sem hljóðbylgjur fara svo hægt að margar mínútur hefðu liðið milli blossans og hljóðsins. Hinu er ekki að neita að frásagnir um hljóð samtímis loftsteinum eru svo algengar að menn hafa látið sér detta í hug  að sterkar rafsegulbylgjur, sem fara með hraða ljóssins, geti með einhverjum hætti borist frá loftsteinum og magnað upp hljóð hjá athugandanum.

    Hvað birtuna snertir er rétt að vitna í frásagnir nokkurra sjónarvotta. Sævar Helgi Bragason, staddur í Krýsuvík, horfði í gagnstæða átt, en segir: "Ég var að horfa í vesturátt þegar allt birti upp. Þá kom mjög bjartur blár bjarmi sem lýsti upp umhverfið." Rögnvaldur Símonarson, sem var á ferð í bíl í Eyjafirði, taldi að ljósið hefði lýst upp jörð þar. Sigurgeir Ingólfsson að Hlíð undir Eyjafjöllum varð var við glampa að baki sér og sneri sér við. Brynhildur Ingólfsdóttir var í bíl við Skíðaskálann á austurleið. Hún sagði að það hefði birt svo mjög í kringum bílinn að fólk í honum hefði orðið óttaslegið. Þráinn Sigurðsson var í bíl við Jökulsá á Sólheimasandi þegar allt umhverfið lýstist upp af björtu, hvítu ljósi. Steindór Torfason á Hala í Suðursveit segir að land hafi lýst upp, mun bjartar en af tungli. Guðrún Benediktsdóttir var ásamt fleirum að aka yfir Þverárfjall í Austur-Húnavatnssýslu þegar öllum í bílnum brá við mikinn hvítleitan blossa, svo bjartan að bílljósin sáust ekki. Guðrún West Karlsdóttir var ásamt fleirum ofan við Bifröst í Borgarfirði þegar hópnum fannst að lýst væri upp með kastara að baki þeim, og varð þeim þá litið við.

    Eftir þessum lýsingum að dæma er óhætt að draga þá ályktun að glampinn af loftsteininum í 150 km fjarlægð hafi verið meiri en af fullu tungli. Birtustig loftsteina miðast við 100 km fjarlægð, og er því ekki ólíklegt að hámarksbirtustig þessa loftsteins hafi verið a.m.k. -14 (birtustig fulls tungls er nálægt -13). Samkvæmt hefðbundinni formúlu ætti loftsteinninn þá að hafa vegið um 400 kg.  Þetta eru þó engan veginn örugg tala, því að birtan  ein og sér veitir ekki nægilegar upplýsingar um stærðina. Flest bendir til að steinninn hafi verið mjög laus í sér, hvorki járnsteinn eða þéttur bergsteinn, og að miðað við heildarrúmtak hafi hann að líkindum verið léttari í sér en vatn. Þá ályktun má draga af því að steinninn sundraðist og hvarf í mikilli hæð, mun hærra en gengur og gerist um stóra loftsteina. Þar að auki er það skoðun þeirra vísindamanna sem hvað mest hafa rannsakað vígahnetti, að brot úr þeim nái sjaldnast til jarðar og að þeir séu sennilega eðlisléttari en þeir loftsteinar sem  fundist hafa á jörðu niðri og menn hafa getað rannsakað. Sé þetta rétt ályktað, hefur þvermál loftsteinsins sem sást 27. október verið á að giska einn metri.    

    Hér fara á eftir nokkrar myndir sem þeir Vilhjálmur Hallgrímsson og Grétar Örn Ómarsson tóku í Krýsuvík. Vilhjálmur sendi sínar myndir í tölvupósti en myndir Grétars eru af vefsíðu hans:
http://myndir.astro.is/v/gretarorn/Beautifulhill+Observatory/?g2_page=3
 

  

Mynd nr. 1, tekin kl. 22:33:07. (Vilhjálmur Hallgrímsson) 

    Vilhjálmur var að taka fyrstu myndina á tíma (8 sek.) þegar loftsteinninn birtist, honum að óvörum. Hann telur að myndin sýni síðasta glampann frá loftsteininum. Myndavélin var ekki rétt stillt svo að myndin er ekki skýr. Litljósin eru loftsteininum óviðkomandi. Birtan á jörð mun vera frá bílljósum til hægri við myndavélina. Daufu hringlaga blettirnir á himninum eru hugsanlega tvær björtustu stjörnurnar í stjörnumerkinu Nautinu, Aldebaran (fyrir miðju) og El Nath (til vinstri).  Næstu myndir sýna hvernig slóð loftsteinsins breytti um lögun fyrir áhrif háloftavinda á fáeinum mínútum. Í þessari miklu hæð er loftið svo þunnt að það nálgast lofttæmi í rannsóknarstofu, um milljón sinnum þynnra en loftið við yfirborð jarðar. Þarna blása þó vindar með hraða sem oft mælist 100-150 metrar á sekúndu. Ef marka má ummyndun loftsteinaslóða eru þessir vindar harla óreglulegir. Á mynd nr. 2 sést hvernig slóðin er byrjuð að hlykkjast eftir aðeins eina mínútu. Á mynd nr. 3 sem er tekin þremur mínútum síðar, er slóðin orðin sveiglaga. Á næstu  mínútum er eins og sveigurinn þenjist út (berið saman myndir nr. 3, 4 og 5). Síðustu myndirnar (nr. 6 og 7) eru teknar 17 og 20 mínútum eftir að loftsteinninn hvarf og sýna hvernig slóðin leit út í lokin.

                                                                          Þorsteinn Sæmundsson
 

Mynd nr. 2, tekin kl. 22:34:01. (Vilhjálmur Hallgrímsson) 

Mynd nr. 3, tekin kl. 22:36:55. (Vilhjálmur Hallgrímsson) 

Mynd nr. 4, tekin kl. 22:37:59. (Vilhjálmur Hallgrímsson) 


  Mynd nr. 5, tekin kl. 22:40:09. (Vilhjálmur Hallgrímsson) 

Mynd nr. 6, tekin kl. 22:50:00. (Grétar Örn Ómarsson) 



Mynd nr. 7, tekin kl. 22:53:49. (Grétar Örn Ómarsson) 


Sett á vefsíðu 25. nóvember 2008. Viðbót 27. 11. 2008.           

Almanak Háskólans