Loftsteinninn 2. júlí 2021  

Þessi loftsteinn sást víða á landinu, en drunur frá honum voru þó meira áberandi. Titringurinn sem þær ollu kom fram á fjölmörgum jarðskjálftamælum. Út frá tímasetningum mælanna og þekktum hljóðhraða reiknaði Hjalti Sigurjónsson jarðeðlisfræðingur það út að steinninn hefði sprungið 15 km norðaustur af Þingvöllum í 37 km hæð. Frásagnir sjónar- og heyrnarvotta gefa ekki ástæðu til að rengja þá niðurstöðu. Samkvæmt þeim virðist steinninn hafa komið inn yfir land nálægt Meðallandsfjöru og farið skáhallt niður til vest-norðvesturs í átt til Þingvalla. Hann skildi eftir sig slóð.  Drunur heyrðust á Ólafsfirði í 230 km fjarlægð. Innhljóðsmælir á Kirkjubæjarklaustri nam hljóð kl. 22:50. Tímaseinkunin vegna hljóðhraða (8 mínútur) er í góðu samræmi við fjarlægðina frá Þingvöllum (150 km). Athugandi á Þingvöllum taldi sig hafa orðið varan við fíngert ryk af völdum loftsteinsins, en það er óstaðfest. Um stærð loftsteinsins verður ekkert fullyrt en að líkindum hefur þvermál hans reiknast í metrum frekar en sentimetrum.

Myndin hér að neðan er tekin sunnan við Hvamm í Skaftártungu kl. 22:41 og sýnir slóð steinsins (og reyndar aðrar slóðir, að því er virðist).



(Mynd: Karítas Heiðbrá Harðardóttir)

Til baka 

Almanak Háskólans