Var Venus hæst á lofti 14. janúar?

Á vefsíðu Morgunblaðsins hinn 14. janúar 2009 birtist frétt undir fyrirsögninni "Venus skært á himni skín". Þar segir m.a.:  "Í dag, 14. janúar, kemst Venus lengst frá sólinni frá jörðu séð, sem þýðir að hún nær hæstu stöðu á himninum. Eftir það fer hún smám saman lækkandi." Vísað er í vefinn "stjornuskodun.is" sem heimild. Hér er um misskilning að ræða. Venus er lengst í austur frá sólu 14. janúar, en af því leiðir ekki að hún sé hæst á lofti frá Íslandi séð. Þvert á móti heldur Venus áfram að hækka á lofti allan janúarmánuð og langt fram í febrúar. Þetta má glöggt sjá ef flett er upp í Almanaki Háskólans, bls. 7, 11 og 66. Um miðjan febrúar (nánar tiltekið frá 7. til 21. febrúar) verður Venus í 26° hæð yfir sjónbaug við myrkur í Reykjavík,  8° hærra en hún var á útstöðudaginn 14. janúar.  


Þ.S. 18. janúar 2009           

Almanak Háskólans