Eins og flestir vita þekja höf og vötn meirihluta yfirborðs jarðar. En hversu mikið er vatnsmagnið? Áætlað er að yfir 96% af öllu vatni á yfirborði jarðar sé í höfunum. Við það bætist það vatn sem bundið er í ís og jöklum, grunnvatn, vatnsgufa í andrúmsloftinu og ferskvatn í vötnum og ám. Sú viðbót nemur samanlagt tæplega 4% af vatnsbirgðum jarðar. Heildarmagnið nemur 1,4 milljörðum rúmkílómetra.1) Það svarar til 2,7 km dýpis ef vatninu væri dreift jafnt yfir allt yfirborð jarðarinnar. Úr öllu þessu vatni mætti gera hnött sem væri 1400 km í þvermál og hefði þá nálægt 40% af þvermáli tunglsins og um 6 % af rúmmáli þess. Um tíma var talið hugsanlegt að verulegur hluti af vatni jarðar hefði borist til hennar með halastjörnum. Í samanburði við jörðina eru halastjörnur afar efnislitlar. Lauslega reiknað þyrfti 40 milljón halastjörnur til að mynda höfin á jörðinni ef meðalmassi halastjörnu er 1014 kg (100 gígatonn) og þriðjungurinn af efninu er vatnsís eins og líklegt er talið, en hvorugt er vitað með vissu. Þessi kenning um uppruna vatnsins á jörðinni er nú fallin í skuggann. Nýjustu rannsóknir benda til þess að vatnið sé upprunalegt frá myndun jarðar. 1) Encyclopedia of Climate and Weather, Oxford University Press, 1996 Þ.S. 4. september 2007. Breytt 24.11. 2015 |