Sést vaxandi tungl aðeins á kvöldin?Hér er meira fullyrt en efni standa til. Tunglið er vaxandi frá því að það er nýtt þangað til það er fullt, þ.e. í hálfan tunglmánuð. Síðan fer það aftur minnkandi fram að næsta nýju tungli. Samkvæmt ofangreindri reglu ætti tunglið því að sjást á kvöldin (og aðeins á kvöldin) í hálfan mánuð og síðan á morgnana (en ekki á kvöldin) í hálfan mánuð. Skyldi það vera rétt? Til að ganga úr skugga um þetta nægir að líta í almanakið. Fyrsta nýtt tungl á þessu ári (2017) var 28. janúar (ekki 29. janúar eins og stendur á vinsælli vefsíðu). Tunglið fór svo vaxandi þar til það var fullt hinn 11. febrúar. Í tíu daga af þessu tímabili var tunglið ekki aðeins á lofti á kvöldin heldur einnig fyrir hádegi að morgni í Reykjavík. Það fór síðan minnkandi frá 11. febrúar til 26. febrúar. Í sex daga af því tímabili var tunglið á lofti fyrir miðnætti á kvöldin auk þess að sjást á morgnana. Í báðum þessum tilvikum hefði tunglið sést á björtum himni, en þess finnast líka dæmi að vaxandi tunglsigð sé á lofti áður en birtir að morgni. Sömuleiðis getur minnkandi sigð verið á lofti eftir myrkur að kvöldi. Niðurstaðan er því sú að fyrrnefnd minnisregla standist ekki. Í hennar stað mætti nota varfærnara orðalag og segja að vaxandi tungl sjáist best á kvöldin og minnkandi tungl sjáist best á morgnana. Þ.S. 19. 2. 2017 |