Hve mikið hallast tunglið?  

Kunnur myndlistamaður varpaði fram þeirri spurningu hve mikið skuggaskil tungls víki frá lóðréttu, séð frá Reykjavík. Lét hann mynd fylgja:

 

Spurningunni er ekki fljótsvarað. Bjarta hliðin á tunglinu snýr í átt til sólar, en hallinn á skuggaskilunum fer eftir því í hvaða átt og hæð sól og tungl eru stödd á himinhvelfingunni. Ef við einskorðum okkur við þá daga þegar tungl er hálft, þ.e. á fyrsta eða síðasta kvartili, kemur í ljós að hallinn getur orðið 49° á hvorn veg, en að meðaltali er hann um 21°. Að sjálfsögðu kemur það fyrir að hallinn er enginn (0°), en það gerist ekki á dimmum himni. Þessi niðurstaða fékkst með því að reikna hornið á mínútu fresti þá daga sem tungl var á fyrsta eða síðasta kvartili árið 2015. Reiknað var til samanburðar fyrir árið 2006, en það ár náði tungl lengst til suðurs og norðurs á himninum í 18,6 ára sveiflu. Munurinn milli áranna reyndist óverulegur (1° í meðaltalinu). Myndirnar hér að neðan sýna nokkurn veginn hvernig tunglið lítur út þegar hallinn er 0°, 21° og 49°. Meðalhallinn er lítið eitt hærri að sumri en vetri (um 1°).
 

Ef við einskorðum okkur ekki við þá daga sem tungl er hálft heldur lítum á tunglmánuðinn allan, verða mörkin rýmri. Í rauninni getur hallinn haft hvaða gildi sem vera skal þegar tungl er mjög nærri sól, en þá er það ósýnilegt vegna sólarbirtunnar. Sé gerð sú krafa að tunglið sé vel sýnilegt, verður niðurstaðan að hallinn geti náð allt að 75° frá Reykjavík séð. Þá tölu má ráða af grein í bókinni Astronomy Morsels IV eftir belgíska reiknimeistarann Jean Meeus. Í greininni  er Meeus að lýsa könnun sinni á því hvar í heiminum tunglið geti litið út eins og bátur, þ.e. legið á hliðinni ef svo má segja, þegar minna en helmingur af þeirri hlið sem að jörðu snýr er í sól. (Meeus miðar við 40% sem hámark.)



Þeir sem ferðast hafa til suðlægra landa kannast líklega við að hafa séð tunglið liggja á hliðinni eins og myndin sýnir. Samkvæmt útreikningum Meeusar getur tunglið sést í þessari stöðu allt norður að 50° breiddargráðu. Sá breiddarbaugur liggur rétt sunnan við Bretlandseyjar en norðan við París. Það er þó sjaldan að tunglið sjáist á hliðinni svo norðarlega. Á tvö hundruð ára tímabili (frá 1901 til 2100) fann Meeus aðeins þrjú tilvik þar sem tunglið gæti litið þannig út frá Parísarborg.

Fánar í löndum Múhameðstrúarmanna sýna venjulega mynd af tungli og stjörnu. Á einum fána (fána Máritaníu) er tunglið á hliðinni:



Þótt tunglið snúi alltaf sömu hlið að jörðu, er afstaða þess til athuganda á jörðu niðri dálítið breytileg svo að athugandinn sér stundum meira og stundum minna út fyrir kennileiti við röndina. Munurinn nefnist tunglvik og getur numið um sjö gráðum til og frá, bæði í breidd og lengd.  Myndirnar hér að ofan eru ágætt dæmi um þennan sjónarmun. Á efstu myndinni sést mun meira út fyrir rönd tungls til hægri heldur en á myndunum þremur sem neðar eru, en þær eru reyndar ein og sama myndin. Vegna tunglviks stækkar svæðið sem frá jörðu sést um 18%.

 
Þ.S. 22. 2. 2015. Viðbót 25.2. 2015

Almanak Háskólans