Tunglferðirnar

Nú er farið að fyrnast yfir ferðir manna til tunglsins í Apolló geimáætlun Bandaríkjamanna á árunum 1968 til 1972. Fæstir muna lengur hve margar ferðirnar voru eða hverjir tóku þátt í þeim. Í töflunni hér fyrir neðan er yfirlit yfir þessar ferðir sem voru níu talsins.

Satúrnus eldflaugin sem notuð var við tunglferðirnar var 111 m löng (um 60 mannhæðir) þegar geimfarið á oddinum er meðreiknað. Hún gat borið  130 tonn á braut um jörðu og 50 tonn til tunglsins. Upphafshraði í tunglferðunum var 40 þúsund km á klukkustund. Flugtíminn til tunglsins var 66 stundir (2,7 dagar).

Í töflunni er merkt er með stjörnu við nöfn þeirra manna sem stigu fæti á tunglið. Þessir menn voru alltaf tveir saman í tunglferju sem bar þá til lendingar, en þriðji maðurinn beið á meðan í stjórnfari sem hringsólaði um tunglið, venjulega í 110 km hæð. Umferðartíminn í þeirri hæð var réttar tvær klukkustundir. Í þremur síðustu ferðunum höfðu geimfararnir sérhannaðan tunglbíl meðferðis.

Í júlíhefti breska tímaritins Spaceflight (2004) var fjallað um þá spurningu, hverjir Apolló geimfara hefðu komist lengst allra manna frá jörðu. Fjarlægð tunglsins er talsvert breytileg svo að svarið liggur ekki í augum uppi. En samkvæmt útreikningum sem birtir voru í tímaritinu eiga geimfararnir í  Apolló 13 metið. Þegar þeir voru handan tungls hinn 14. apríl 1970 náðu þeir 400 020 km fjarlægð frá yfirborði jarðar (406 400 km frá jarðarmiðju). Eins og kunnugt er lentu þeir félagar í hinum mestu hremmingum þegar sprenging varð í geimfarinu og máttu kallast heppnir að komast lifandi úr þessari för.

Hér er mynd úr einni ferðinni (Apolló 16). Geimfarinn á myndinni er Charles Duke. Á bak við hann sést tunglbíllinn. Myndin er úr safni Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA).

Meðfylgjandi tafla er að mestu leyti byggð á upplýsingum sem fram koma í bókinni "Man on the Moon" eftir Andrew Chaikin (1994).  Um Apolló 1-7, Apolló 9 og Apolló 18-20, sjá viðauka neðan við töfluna.. Kort sem sýnir lendingarstaðina á tunglinu er að finna á vefsíðu Stofnunar til rannsókna á tungli og reikistjörnum (Lunar and Planetary Institute) í Houston í Texas (http://www.lpi.usra.edu/expmoon/apollo_landings.html).
 

 
  Ár Ferðadagar Heildartími 

Tími á braut um tunglið

Lent á tungli Tími á tungli Útivist á tungli Geimfarar
Apolló 8 1968 21.- 27. des. 6,1 dagur 0,8 dagar
10 umferðir
(Ekki lent)     Frank Borman, James Lovell, William Anders
Apolló 10 1969 18.- 26. maí  8,0 dagar 2,6 dagar
31 umferð
(Ekki lent)     Thomas Stafford, John Young, Eugene Cernan
Apolló 11 1969  16.- 24. júlí  8,1 dagur 2,5 dagar
30 umferðir
20. júlí  0,9 dagar 2,5 klst. Neil Armstrong,* Michael Collins, Edwin Aldrin*
Apolló 12 1969 14. - 24. nóv.  10,2 dagar 3,7 dagar
45 umferðir
19. nóv. 1,3 dagar 7,8 klst. Charles Conrad,* Richard Gordon, Alan Bean*
Apolló 13 1970 11. -17. apríl 6,0 dagar Hætt við lendingu vegna bilunar       James Lovell, John Swigert, Frederick Haise
Apolló 14 1971 31. jan.- 9. febr. 9,0 dagar 2,8 dagar
34 umferðir
5. febr. 1,4 dagar 9,4 klst. Alan Shepard.* Stuart Roosa, Edgar Mitchell*
Apolló 15 1971 26. júlí - 7. ág. 12,3 dagar 6,1 dagur
74 umferðir
30. júlí 2,8 dagar 19,1 klst. David Scott,* Alfred Worden, James Irwin*
Apolló 16 1972 16. - 27. apríl 11,1 dagur 5,2 dagar
64 umferðir
20. apríl 3,0 dagar 20,2 klst. John Young,*   Thomas  Mattingly, Charles Duke*
Apolló 17 1972 7. - 19. des. 12,6 dagar 6,2 dagar
75 umferðir
11. des. 3,1 dagur 22,0 klst. Eugene Cernan*. Ronald Evans, Harrison Schmitt*

* Lenti á tunglinu

 

Apolló tilraunir sem ekki er getið um í töflunni

Apolló 1 er opinbera nafnið á geimfari sem aldrei fór á loft. Eldur kviknaði í því við æfingu á jörðu niðri hinn 27. janúar 1967 með þeim afleiðingum að þrír geimfarar fórust (þeir Virgil Grissom, Edward White og Roger Chaffee).

Apolló 2 og Apolló 3 eru nöfn sem Geimferðastofnun Bandaríkjanna hætti við að nota.

Apolló 4 var skotið á loft 9. nóvember 1967 og var tæpar 9 klukkustundir á braut um jörðu. Þetta var fyrsta flug Satúrnus-5 flaugar (Saturn V), þeirrar sem síðar bar menn áleiðis til tunglsins. Flaugin bar Apolló stjórnfar og birgðafar.

Apolló 5 var skotið upp 22. janúar 1968 og var 11 stundir á braut um jörðu. Eldflaugin, sem bar tunglferju í tilraunaskyni, var af gerðinni Satúrnus-1B, minni en Satúrnus 5.

Apolló 6 var skotið upp 4. apríl 1968 og var rúmar 10 stundir á braut um jörðu. Þetta var önnur  ómannaða tilraunin með eldflaug af gerðinni Satúrnus-5. Tilraunin heppnaðist ekki að öllu leyti.

Apolló 7 var fyrsta mannaða geimfarið af Apolló gerð. Það fór á loft 11. október 1968 og var tæpa 11 daga á braut um jörðu. Geimfarar voru þeir Walter Schirra, Donn Eisele og Walter Cunningham. Þetta var reynsluferð með stjórnfar og birgðafar til undirbúnings tunglferðar. Eldflaugin var af gerðinni Satúrnus-1B.

Apolló 9 með þrjá menn innanborðs var á braut um jörðu í tíu daga, frá 3. til 13. mars 1969. Í þessarri ferð var tunglferjan reynd. Geimfarar voru þeir James McDivitt, David Scott og Russell Schweickart. Eldflaugin var af gerðinni Satúrnus-5, þeirri sem notuð var í öllum ferðum til tunglsins.

Apolló 18-20 vísa til tunglferða sem aldrei voru farnar. Þær ferðir sem felldar voru niður voru reyndar númer 15, 19 og 20 í upphaflegri áætlun, en röðinni var síðar breytt.

Í þessari samantekt hefur m.a. verið stuðst við Geimannál Hjálmars Sveinssonar verkfræðings sem birtist í Almanaki Þjóðvinafélagsins á árunum 1968 til 1974. Þessu efni hafa síðar verið gerð skil með ýmsum hætti á mörgum erlendum vefsíðum, þar á meðal þeirri sem vitnað er í hér að ofan.    


Þ.S. nóv. 2004. Síðast breytt 1. maí 2008.

Almanak Háskólans