Tunglmyrkvinn 21. desember  2010

Sennilega hafa aldrei jafn margir Íslendingar fylgst með nokkum tunglmyrkva eins og þeim sem varð að morgni 21. desember 2010. Má vafalaust þakka það ötulu kynningarstarfi stjórnar Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness sem hafði samband við fjölmiðla og stóð að kynningu með sjónaukum við útvarpshúsið í Reykjavík. Fjöldi manns nýtti sér þá aðstöðu þótt kalt væri í veðri, en stjörnubjart var í Reykjavík og víðar um land. Eins og greint var frá í Almanaki Háskólans hófst myrkvinn kl. 06:32, þegar tunglið snerti jarðskuggann (alskuggann), og lauk kl. 10:02. Tungl var almyrkvað frá kl. 07:40 til 08:54. Margir tóku myndir af myrkvanum og voru sumar þeirra mjög fallegar. Myndina hér að neðan tók Snævarr Guðmundsson. Myndina gerði Snævarr með því að skeyta saman sjö stökum myndum. Hún sýnir vel bogadregna útlínu jarðskuggans, en af lögun skuggans gátu menn þegar fyrir þúsundum ára dregið þá ályktun að jörðin væri hnattlaga.
 


Eins og sagt var í frétt um tunglmyrkvann í mars 2007 eru almyrkvar á tungli misjafnlega langir. Fer það aðallega eftir því hvaða leið tunglið fer gegnum skugga jarðarinnar, en breytileg fjarlægð tungls og sólar skiptir einnig máli. Ef tunglið fer nærri miðju skuggakeilunnar verður myrkvinn tiltölulega langur, en ef það heldur sig nærri rönd skuggans varir myrkvinn skemur. Í þetta sinn stóð myrkvinn í 1,2 klst. (74 mínútur, rétt eins og myrkvinn 2007) en lengst getur almyrkvi staðið í 1,8 stundir (107 mínútur).  Leið tunglsins gegnum skuggann hefur áhrif á það hve dimmt tunglið verður; það verður þeim mun dekkra sem það fer nær miðju skuggans. Skýjafar við rönd jarðar frá tunglinu séð hefur einnig áhrif á það hve mikið sólarljós dreifist inn í skuggann. Loks geta eldgos haft veruleg áhrif ef mikið af fíngerðri ösku kemst upp í háloftin og deyfir sólarljósið á leið þess inn í skuggann. Eftir eldgosið mikla í fjallinu Pinatubo á Filippseyjum árið 1991 hélst svifmökkur í háloftunum í marga mánuði. Fyrsti almyrkvi á tungli eftir það eldgos var í desember 1992. Sá myrkvi var svo dimmur að tunglið sást varla, og var eldgosinu kennt um.

Um tíðni tunglmyrkva vísast til annarrar greinar á þessu vefsetri.  
 

Þ.S. 15.1. 2011

Almanak Háskólans