|
Eins og sagt var í frétt um tunglmyrkvann í mars 2007 eru almyrkvar á tungli misjafnlega langir. Fer það aðallega eftir því hvaða leið tunglið fer gegnum skugga jarðarinnar, en breytileg fjarlægð tungls og sólar skiptir einnig máli. Ef tunglið fer nærri miðju skuggakeilunnar verður myrkvinn tiltölulega langur, en ef það heldur sig nærri rönd skuggans varir myrkvinn skemur. Í þetta sinn stóð myrkvinn í 1,2 klst. (74 mínútur, rétt eins og myrkvinn 2007) en lengst getur almyrkvi staðið í 1,8 stundir (107 mínútur). Leið tunglsins gegnum skuggann hefur áhrif á það hve dimmt tunglið verður; það verður þeim mun dekkra sem það fer nær miðju skuggans. Skýjafar við rönd jarðar frá tunglinu séð hefur einnig áhrif á það hve mikið sólarljós dreifist inn í skuggann. Loks geta eldgos haft veruleg áhrif ef mikið af fíngerðri ösku kemst upp í háloftin og deyfir sólarljósið á leið þess inn í skuggann. Eftir eldgosið mikla í fjallinu Pinatubo á Filippseyjum árið 1991 hélst svifmökkur í háloftunum í marga mánuði. Fyrsti almyrkvi á tungli eftir það eldgos var í desember 1992. Sá myrkvi var svo dimmur að tunglið sást varla, og var eldgosinu kennt um. Um tíðni tunglmyrkva vísast til annarrar greinar á þessu vefsetri. |
Þ.S. 15.1. 2011 |