Tunglmyrkvinn 3. - 4. mars 2007
Þegar þessi myrkvi hófst var skýjað í Reykjavík, en þegar
á leið dreifðust skýin og tunglið kom í ljós. Engir tveir tunglmyrkvar
eru eins, því að það daufa ljós sem lýsir tunglið upp þegar það á að
heita almyrkvað er misjafnlega bjart (sjá skýringu neðar) og litur þess dálítið breytilegur
þótt venjulega gefi það tunglinu rauðleitan blæ. Daufa ljósið er
sólarljós sem farið hefur gegnum lofthjúp jarðar og dreifst inn í
jarðskuggann. Séð frá tunglinu myndi lofthjúpurinn sjást eins og upplýst
rönd kringum dimma jörðina. Röndin er venjulega rauðlituð af sömu
ástæðu og sólin er oft rauðleit við sólarupprás og sólsetur þegar
geislar hennar hafa farið langa leið gegnum lofthjúpinn. Í þetta sinn
var almyrkvinn með dimmara móti, en tunglið greinilega rauðleitt,
einkanlega þegar á leið. Fyrri myndina hér að neðan tók Snævarr Guðmundsson í
Hafnarfirði kl. 23:57, stundarfjórðungi áður en almyrkvanum lauk. Myndin
er tekin með 110 mm sjónauka af gerðinni Williams Optic. Stjarnan sem
sést á myndinni er 59 Leonis, þ.e. ein af stjörnunum í stjörnumerki
ljónsins. Tunglið gekk fyrir þessa stjörnu og skyggði á hana nokkru
eftir að almyrkvanum lauk, en tungl var þá enn myrkvað að hluta. Rönd
tunglsins þar sem stjarnan hvarf var þá upplýst af sól og mjög erfitt að
sjá stjörnumyrkvann. Af þeirri ástæðu er þessa myrkva ekki getið í
almanakinu í skránni á bls. 63.
|