Fylgst með þvergöngu Venusar

Ljósmynd: Pálmi Ingólfsson

Veður var hagstætt hér á landi hinn 8. júní þegar Venus gekk fyrir sól og margir gátu fylgst með þessum sjaldgæfa atburði. Fjöldi manna víðs vegar um heim tók þátt í skipulagðri tilraun til að mæla fjarlægð sólar með þeirri gömlu en merkilegu aðferð að taka tímann þegar Venus færi  inn fyrir sólröndina og út fyrir hana aftur, séð frá mismunandi stöðum (sjá fyrri frétt um þvergönguna). Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Stjörnustöðvar Evrópulanda (ESO) bárust 4400 tímamælingar frá 1500 athugunarmönnum. Allar þessar mælingar voru síðan notaðar til að reikna fjarlægðina milli jarðar og sólar. Þótt ótrúlegt megi virðast var útkoman svo nærri lagi að ekki skakkaði meira en 30 þúsund kílómetrum, eða 0,02%. Óhætt er að segja að enginn hafi búist við svo réttri niðurstöðu, og hallast sumir að því að þetta hljóti að vera tilviljun! 

Myndina hér að neðan tók Snævarr Guðmundsson með Meade ETX-90 (mm) sjónauka.


Þ.S. 10. júlí 2004. Viðbót 1.1. 2005.
 

Almanak Háskólans