Forsíða
 

Sumardagurinn fyrsti

   Eins og segir í Almanaksskýringum sem birtast á þessu vefsetri, ber sumardaginn fyrsta ávallt upp á fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl. Í fróðlegri grein sem Trausti Jónsson veðurfræðingur ritaði fyrir nokkrum árum um veðurfar þann dag, er þetta orðað með öðrum hætti:

   "Sumardagurinn fyrsti er í almanakinu talinn annar fimmtudagur eftir Leonisdag sem er 11. apríl hvert ár, eða með öðrum orðum fyrsti fimmtudagur eftir þann 18."

   Þessi framsetning kallar á nánari skýringu, því að hætt er við að einhverjir skilji það svo, að þannig beri að tímasetja sumardaginn fyrsta, og að þetta sé hin upprunalega skilgreining. Svo er þó ekki. Tenginguna við Leonisdag er að finna í rímbók (almanaksbók) sem Jón biskup Árnason gaf út á Hólum árið 1707, skömmu eftir tímatalsskiptin þegar Íslendingar tóku upp gregoríanska tímatalið í stað þess júlíanska. Jón biskup var frumkvöðull í að útskýra tímatalsbreytinguna fyrir almenningi og gaf síðar út bók um nýtt fingrarím í því skyni. Í fyrrnefndri rímbók Jóns biskups, "Calendarium Gregorianum eður sá nýi stíll", segir: "Hver sá fimmtudagur sem inn fellur á milli þess 18. og 26. aprilis er sumardagurinn fyrsti". En vegna þess að margir miðuðu enn við messur og dýrlingadaga  úr kaþólskum sið lét Jón eftirfarandi stöku fylgja:
 
Sumarkomu sýni ég lag
svo þér bregðist eigi
Finndu annan fimmtudag
frá Leonis degi.

   Staka þessi var tekin upp í íslenska almanakið 1869 og hennar getið aftur í almanaki Þjóðvinafélagsins 1914. Fram til ársins 1700, meðan júlíanska tímatalið gilti hér á landi, var dagsetning sumarkomunnar önnur. Þá hófst sumarið fyrsta fimmtudag eftir 8. apríl. Í elstu rituðum heimildum (Rímbeglu) er miðað við Maríumessu á föstu. Þar segir að sumar skuli koma þriðja fimmtudag eftir Maríumessu, og kemur það í sama stað niður. Allar líkur eru á að kirkjunnar menn hafi tengt þetta við messudag af sömu ástæðu og Jón biskup Árnason gerði síðar í "nýja stíl". Í elstu prentuðu almanaksbók íslenskri, "Calendarium - íslenskt rím", sem gefið var út á Hólum 1597, er þessi vísa:

Sumarkomu sýni ég lag
svo þér  bregðist eigi
Finndu þriðja fimmtudag
frá getnaðardegi.


   Er þar komin fyrirmyndin að stöku Jóns Árnasonar.

   Skal þá vikið að öðru. Í grein á Vísindavefnum stendur þessi setning:

   "Það er hvergi sagt berum orðum í lögum, en menn virðast hafa litið á fyrsta dag sumars sem upphaf ársins."

   Hér er fullyrt öllu meira en efni standa til. Í hinu forna tímatali Íslendinga var áherslan á misserin tvö, sumar og vetur, fremur en árið sem heild. Þá sjaldan ársins er getið er veturinn talinn koma á undan sumrinu. Í Rímbeglu segir (með nútíma stafsetningu) "Það er misseris tal, að tvö misseri heitir ár, það er vetur og sumar" [1]. Í öðru handriti segir: "Tvö misseri heita ár, það er vetur og sumar" [2]. Þessi dæmi benda fremur til þess að upphaf árs hafi reiknast frá fyrsta vetrardegi en sumardeginum fyrsta. Sumir fræðimenn hafa reyndar verið þeirrar skoðunar að byrjun árs hafi talist vera á miðsumri, og hníga nokkur rök til þess [3].
------
Tilvísanir:
[1] Natanael Beckman og Kristian Kålund (ritstj.) : Alfræði íslenzk II, 1914-1916, bls. 22.
[2] Sama rit, bls 181.
[3] "The Icelandic Calendar" - umsögn og athugasemdir.


Þ. S. 4. 5. 2013. Tillvísun breytt 15.2. 2023