Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna

Meðfylgjandi ritdómur birtist í Morgunblaðinu 25. mars 2017

(Sjá hér)

Í ritdómnum er vísað í athugasemdir sem hér fara á eftir.

Bls. 12: Við upptalningu á hnöttum í sólkerfinu hefur höfundur gleymt að geta útstirnanna, sem mörg hver eru stærri en smástirnin. Plútó er þar á meðal.

Bls. 13: Þarna segir að kúluþyrpingarnar séu utan Vetrarbrautarinnar, en það er villandi. Hið rétta er að þyrpingarnar mynda hnattlaga sveim um miðju Vetrarbrautarinnar og sveimurinn er þéttastur næst miðjunni. Þótt þyrpingarnar fylgi ekki fleti og örmum Vetrarbrautarinnar er ekki þar með sagt að þær forðist Vetrarbrautina eða séu alfarið utan hennar.

Bls. 21. Þarna segir að gervitunglin ferðist um það bil 26000 km/klst. og fari einn hring á um það bil 90 mínútum. Þetta á aðeins við tungl sem eru nærri jörðu. Mörg eru fjær jörðu. Um þriðjungur allra gervitungla er nú á staðbraut eða sístöðubraut, þ.e. fara um jörðina á 24 klst. með hraðanum 11000 km/klst.

Bls. 34. Þar stendur að ef leitarsjónauki sé rangt stilltur verði jafnvel erfitt að finna tunglið. Þetta verða að teljast ýkjur.

Bls. 35, neðst. Þarna eru gefnar stefnur eftir úrvísum: "Hoppaðu frá Alpheratz í austurátt í stefnu kl. 9 á stjörnuna delta í Andrómedu". Það fer mjög eftir árstíma og tíma nætur hvort þetta stenst. Ef við tökum t.d. 20. febrúar í Reykjavík myndi stefnan vera nær kl. 11 seint að kvöldi.  Að morgni er Alpheratz í austri og stefnan nær kl. 9, en þá ekki í austurátt heldur norðurs.

Bls. 38. "Nýtt tungl er…oftast fyrir ofan eða neðan sólina frá jörðu séð". Þetta á aðeins við ef sól er í suðri.

Bls. 39. "Sólmyrkvinn 20. mars 2015 var deildarmyrkvi. Þá myrkvaði tunglið aðeins hluta sólarinnar. Þegar tunglið myrkvar sólina alla verða almyrkvar, eitt stórkostlegasta sjónarspil náttúrunnar." Höfundur hlýtur að vita að þessi myrkvi var almyrkvi, þótt hann sæist sem deildarmyrkvi í Reykjavík.

Bls. 40. Höfundur lýsir kórónu sólar í almyrkva þannig að hún sé "ægibjartur ljóshjúpur". Hið sanna er, að kórónan er svo dauf að hún sést aðeins í almyrkva. Þá segir að í almyrkva sjáist sérkennileg gulleit birta við sjóndeildarhring. Ekki er það alltaf svo. Árið 1954, þegar sól var almyrkvuð syðst á Íslandi, sáust öll litbrigði regnbogans við sjóndeildarhring.

Bls. 44. "Hálft vaxandi tungl rís um hádegi.. og sest ekki fyrr en um miðnætti" stendur þar. Þetta er engan veginn algild regla. Svo að dæmi sé tekið, hinn 29. október 2006 var tungl á fyrsta kvartili, þ.e. hálft og vaxandi. Þá kom það upp kl. 17 35 í Reykjavík og settist kl. 21 40.

Bls. 50. Yfirskriftin er: Fullt tungl. Síðan segir: "Nú rís tunglið á sama tíma og sólin sest". Þetta er oftast nokkurn veginn rétt, en þó getur munað klukkutíma eða svo í Reykjavík.

Bls. 51. Reglan um páska sem þarna er gefin er ekki rétt. Þessi einfalda regla getur brugðist og gerði það átta sinnum á síðustu öld. Eins og útskýrt er á vef Almanaks Háskólans er páskadagur fyrsti sunnudagur eftir reiknaða tunglfyllingu frá og með 21. mars.

Bls. 54. "Þegar tunglið er minnkandi gleitt rís það milli sólseturs og miðnættis í austri og er á lofti fram yfir sólarupprás." Þetta er oftast rétt, en talsverð frávik koma fyrir. Í Reykjavík getur það gerst að tungl á þriðja fjórðungi ("minnkandi gleitt") sé á lofti allan sólarhringinn

Bls. 55. "Hálft minnkandi tungl rís í kringum miðnætti.. og sest ekki fyrr en um hádegi". Þetta er oftast nærri lagi en getur þó skakkað mörgum klukkustundum.

Bls. 56. Þarna stendur að Kóperníkus hafi verið munkur, en það er ekki rétt. Hann hafði stöðu kanúka í kaþólsku kirkjunni, en því fylgdi bæði yfirvald og dómsvald í héraði.

Bls. 60. Þar stendur að sjónauka þurfi til að sjá reikistjörnuna Úranus. Það er ekki rétt; Úranus sést með berum augum við góð skilyrði. Það kemur reyndar fram á bls. 72 í bókinni!

Bls. 62. Þar stendur að sólblettir séu oftast miklu stærri en jörðin. Það eru nokkrar ýkjur. Til dæmis eru sólblettirnir á myndinni á bls. 63 allir minni en jörðin. En dæmigerður sólblettur er ámóta stór og jörðin.

Bls. 64. Þar segir að Merkúríus geti orðið bjartari en björtustu stjörnur. Þarna hefði átt að segja fastastjörnur. Þá segir að best sé að nota stjörnukort til að finna hann. Það er ekki rétt, því að Merkúríus sést aldrei á dimmum himni svo að aðrar stjörnur sjást sjaldan á sömu slóðum. Þarna hefði mátt vísa á Almanak Háskólans sem veitir leiðbeiningar um það hvar Merkúríus sé að finna hverju sinni.

Bls. 65-73. Getið er um stærð Merkúríusar og Neptúnusar miðað við jörð, en sams konar samanburð vantar fyrir aðrar reikistjörnur: Venus, Mars, Júpíter og Satúrnus.

Bls. 67. "Við gagnstöðu rís Mars við sólsetur... og sest við sólarupprás". Þetta er oftast nokkurn veginn rétt, en fyrir kemur að það skakkar meiru en klukkustund, og dæmi er um að Mars hafi verið á lofti allan sólarhringinn í Reykjavík þegar hann var í gagnstöðu (í desember 2007).

Bls. 72. Þarna er sagt að Neptúnus hafi fundist með útreikningum tveggja vísindamanna, Englendingsins Adams og Frakkans Le Verriers. Þetta hefur lengi verið almenn skoðun, en nýjar upplýsingar benda til þess að hlutverk Adams hafi verið stórlega ýkt og að Le Verrier eigi heiðurinn einn.

Bls. 79. Kaflaheiti: "Stjörnurnar". Þarna ætti að standa "Fastastjörnurnar" því að á íslensku teljast reikistjörnurnar líka með stjörnum. Setningarnar "Stjörnurnar virðast fastar á himninum" og "Stjörnurnar eru svo langt í burtu að fjarlægðin til þeirra mælist í ljósárum" eru því rangt mál. Þessu er öðru vísi farið á ensku. Þar merkir "star" fastastjörnu.

Bls. 79. "Með berum augum má sjá um það bil 2500 stjörnur á næturhimninum". Af orðalaginu mætti ætla að átt væri við himininn allan, en það fær ekki staðist því að á næturhimninum öllum er venjulega talið að um 6000 stjörnur séu sýnilegar berum augum.Þarna mun því átt við þann fjölda sem sést frá athugunarstað á hverri stundu. Á Íslandi er þessi tala að líkindum nokkru lægri (1500-2000 við sjávarmál, samkvæmt mælingum Snævars Guðmundssonar). Mun þar um að kenna viðvarandi norðurljósabjarma.

Bls. 80. "Nifteindastjörnur snúast ógnarhratt vegna smæðar sinnar, álíka hratt og þvottavél á fullu spani, jafnvel enn hraðar." Þarna er vægt til orða tekið. Þótt höfundur hefði sagt "jafnvel meira en tuttugu sinnum hraðar en þvottavél á fullu spani" hefði hann ekki verið að ýkja. Að snúningshraðinn sé afleiðing af smæð stjarnanna er almennum lesanda illskiljanlegt og þyrfti skýringar við.

Bls. 81. "Í stjörnumerkinu Nautinu er stjarnan Aldebaran. Hún er rauður risi sem fjarar hægt og rólega út sem hvítur dvergur". Þetta er villandi því að þróun rauðrar risastjörnu yfir í hvítan dverg gengur ekki rólega fyrir sig, langt frá því. Orðalagið á aðeins við eftir að stjarnan er orðin að hvítum dverg.

Bls. 82. "Á vorin hverfur Vetrarbrautin nánast sjónum okkar við sjóndeildarhringinn". Þessi staðhæfing er endurtekin á bls 147. Þetta er ekki rétt hvað Ísland varðar þótt það sé nær lagi sunnar í löndum. Á vorjafndægrum nær miðbaugur vetrarbrautarinnar 40° hæð yfir sjóndeildarhring í Reykjavík að kvöldi.

Bls. 87. "Á mörgum erlendum tungumálum er Vetrarbrautin kölluð Milky Way". Þetta er augljós fljótfærni og á einungis við enska tungu. Danir tala um Mælkevejen.

Bls. 83-86. Þarna eru ágætar myndir sem sýna stærðarhlutföll nokkurra sólstjarna. Hins vegar er alls staðar sagt að þessi stjarna eða hin sé svo og svo mörgum sinnum stærri en önnur, án þess að tekið sé fram að þar er átt við þvermálið en ekki rúmmálið.

Bls. 88. Um stjörnumerki: "Yfirleitt tengjast stjörnurnar þó ekkert innbyrðis því fjarlægðin á milli þeirra er mjög mismunandi." Þarna á að standa "fjarlægðin til þeirra er mjög mismunandi."

Bls. 89. "Þau merki sem eru alltaf fyrir ofan sjóndeildarhringinn frá Íslandi séð eru kölluð pólhverf." Þessi skilgreining takmarkast ekki við Ísland.

Bls. 89. Lýst er nafnakerfi Bayers þar sem stjörnurnar eru táknaðar með grískum bókstöfum frá alfa til omega. Þarna er omega sýnt með stórum staf, en á að vera með litlum staf, sem er afar ólíkt tákn í útliti.

Bls. 94. Þar segir að Andrómeda nálgist okkur með hraðanum 100 km/s. Þarna er átt við Andrómeduþokuna, ekki stjörnumerkið Andrómedu.

Bls. 102. Þar segir að stjörnumerkið Hrúturinn sé dæmi um stjörnumerki sem líti alls ekki út eins og það sem það á að tákna. Þetta er umdeilanlegt, því að vel má ímynda sér hrútshorn í stjörnunum. Þá er sagt að engin sérstaklega áhugaverð fyrirbæri sé að finna í merkinu. Þarna gleymist stjarnan Gamma, sem er með allra fallegustu tvístirnum á himninum.

Bls. 106. Um Dymbilþokuna segir: "Þokan er í laginu eins og lóð.." Skýrara hefði verið að segja "lyftingalóð".

Bls. 108. Þar segir um Barnardsstjörnuna, að heiðurinn af því að finna þessa nálægu stjörnu hafi átt bandaríski stjörnufræðingurinn Edward Emerson. Lesendur munu væntanlega spyrja hvers vegna stjarnan sé þá ekki kennd við hann. Svarið er, að stjörnufræðingurinn hét fullu nafni Edward Emerson Barnard. Þetta er greinilega glappaskot, því að fullt nafn Barnards kemur fram síðar í bókinni (á bls. 126).

Bls. 112. Nafnið "Ptólmæos" er ritað þannig þrívegis. Er það mjög óvenjulegur ritháttur. Ekki sjást rök fyrir því að sleppa bókstafnum e á undan m.(Gríska nafnið er Ptolemaios.)

Bls. 112. Þar stendur að stjörnunafnið Antares merki "ekki Mars" vegna þess hve stjarnan líkist reikistjörnunni Mars. Þetta er ekki rétt. Nafnið merkir "keppinautur Mars" eða "jafnoki Mars".

Bls. 114. "Miðja Vetrarbrautarinnar... er kölluð Sagittarius A* (borið fram Sagittarius A-stjarna) vegna þess að þaðan berst mikið af útvarpsgeislun." Þessi skýring er illskiljanleg. Útvarpsgeislunin skýrir ekki nafnið. Það myndi hjálpa lesandanum ef það væri útskýrt að Sagittarius er alþjóðlega nafnið á bogmannsmerkinu. Einnig mætti fræða lesandann um að Sagittarius A* er kjarninn í stærra svæði, Sagittarius A, sem er uppspretta sterkrar geislunar af raföldum og innrauðu ljósi.

Bls. 116. "Á himninum eru margir stjörnuhópar sem eru ekki endilega stjörnuþyrpingar". Þetta er ekki útskýrt nánar, en setningin er torskilin. Með "hópi" virðist þarna átt við þyrpingu sem er dreifð frá okkur séð. Dæmi er tekið af hópi stjarna í grennd við stjörnuna Mirfak. Þar er um að ræða svonefnda hreyfiþyrpingu, stjörnur sem eru samferða í geimnum að því er mælingar sýna.

Bls. 135. Þar stendur að stjarnan Betelgás sé 140.000 sinnum bjartari en sólin. Þarna er einu núlli ofaukið. Álíka villa er í Wikipediu. Betelgás er breytistjarna. Sé miðað við meðalbirtuna er birta stjörnunnar um 20 þúsund sinnum meiri en birta sólar.

Bls. 136. Sagt er frá fjórum stjörnum í Sverðþoku Óríons og greint frá því að sú bjartasta heiti "Þeta1 Orionis C". Þetta nafn kann að koma hinum almenna lesanda undarlega fyrir sjónir. Það hefði verið full ástæða til að útskýra að í þokunni eru fjórar þéttstæðar stjörnur, A, B, C og D sem ganga undir því lýsandi nafni Trapisan. Sameiginlega heita stjörnurnar í trapisunni Þeta-1 til aðgreiningar frá stjörnu skammt frá sem kallast Þeta-2.

Bls. 138. Þar segir að ofurrisastjarnan VY Canis Majoris sé tvö þúsund sinnum breiðari en sólin, fjörutíu sinnum þyngri og fimm hundruð þúsund sinnum bjartari. Þess hefði mátt geta að þessar tölur eru afar umdeildar og ætti ekki að taka þær of bókstaflega.

Bls 140. Þarna munu vera einu dæmin í bókinni þar sem getið er alþjóðlegra nafna stjörnumerkja. Þetta eru merkin Litli hundur (Canis Minor, sem að vísu er fyrir mistök haft í eignarfalli, Canis Minoris), og Einhyrningurinn (Monoceros).

Bls. 140. Þarna segir að stjörnumerkið Einhyrningurinn hafi verið búið til af hollenskum guðfræðingi í byrjun 17. aldar. Þetta er ekki alls kostar rétt, þótt hollenski kortagerðamaðurinn og kirkjunnar þjónn, Petrus Plancius, hafi fært merkið á kort ásamt mörgum öðrum merkjum á suðurhveli himins eftir lýsingum og teikningum hollenskra sæfarenda.

Bls. 143. Á kortinu hefur láðst að merkja Regnstirnið sem lýst er í textanum á bls. 142.

Bls. 144. Þar stendur að Þríhyrningsþokan (þyrilvetrarbrautin Messier 33) beri sama nafn og stjörnumerkið sem hún er í (Þríhyrningurinn). Þetta er misskilningur. Þokan er kennd við merkið en ber ekki nafn þess. Enskumælandi menn kalla hana gjarna "Pinwheel galaxy", af því að hún minnir á vindrellu eða púðurkerlingu, en þar sem það nafn er einnig haft um aðrar vetrarbrautir s.s. Messier 101 er það ekki einrætt.

Bls. 148. Þarna koma fyrir orðmyndirnar Ptómæos og Ptólæmos, sem báðar verða að teljast rangar, sbr. það sem fyrr er sagt.

Bls. 156. Þarna er verið að fjalla um stjörnumerkið Krabbann, en innskotsmynd með skýringum segir frá stjörnunni Eta Carinae. Ófróður lesandi myndi halda að þessi stjarna væri í Krabbamerkinu, en hún er í stjörnumerkinu Kjölurinn (Carina) sem er svo sunnarlega á himinhvelfingunni að það sést ekki frá Íslandi.

Bls. 156. Fjallað er um stjörnuþyrpinguna Messier 44, sem kölluð er "Býflugnabúið". Þarna hefði mátt minnast á annað nafn á þyrpingunni, "Jatan" sem er þýðing á alþjóðlega heitinu Præsepe, en það vísar til goðsagna Grikkja og Rómverja.

Bls. 158. Þar segir að möndulás jarðar stefni á mismunandi stjörnur á mismunandi tímum og því sé breytilegt hvaða stjarna sé pólstjarna. Þetta er skýrt með því að möndulhalli jarðar breytist með tíð og tíma í 26000 ára sveiflu. Þetta er misskilningur. Breytingin er fyrst og fremst vegna pólveltu jarðar sem tekur þennan tíma. Breyting möndulhallans veldur aðeins smávægilegri tilfærslu í 40 þúsund ára sveiflu (sjá Almanak Háskólans, bls. 74).

Bls. 162. Þarna er sagt frá þyrilþokunni Messier 104 og henni gefið nafnið Mexíkóahatturinn. Í sjálfu sér er þetta góð og gild þýðing á erlenda heitinu "Sombrero nebula", en orðanefnd Stjarnvísindafélagsins kaus þjálla heiti: Hattþokan.

Bls. 164. Þar segir að allar stjörnurnar í Karlsvagninum hafi myndast úr sama gas- og rykskýi. Þetta er ekki viðtekin skoðun og á aðeins við um þær fimm stjörnur af sjö sem ferðast saman í geimnum sem hreyfiþyrping. Þá er gefið í skyn að nafnið Karlsvagninn vísi til Karlamagnúsar keisara, en það er gömul alþýðuskýring. Karl merkir þarna húskarl.

Þ.S. 3.4. 2017

Forsíða