Stjörnuhröpin 18. nóvember
 
    Svo sem kunnugt er af fréttum, sást Leoníta-loftsteinadrífan víða um lönd aðfaranótt 18. nóvember, þar á meðal frá Íslandi norðan- og austanverðu þar sem veður leyfði.
Drífan sást vel frá Kanaríeyjum, Spáni, Tékkóslóvakíu, Ísrael og Jórdaníu. Í Japan var bjart af degi, en þar sáust loftsteinarnir í ratsjám. Alls staðar var mjög skarpt hámark í stjörnuhröpum rétt eftir kl. 2 að nóttu að íslenskum tíma. Þegar mest var sást stjörnuhrap um það bil einu sinni á sekúndu. Þótt það teljist góð drífa og hrífandi sjón, er það ekki nema brot af því sem stundum hefur sést. Í frægustu loftsteinadrífum sem sögur fara af er talið að fjöldinn hafi farið yfir 30 á sekúndu. Þess má geta að elstu frásagnir af Leonítum ná meira en þúsund ár aftur í tímann.

    Leonítarnir tengjast halastjörnunni Tempel-Tuttle og ganga eftir sömu braut og hún. Hins vegar er það misskilningur að stjörnuhröpin sjáist þegar jörðin gangi gegnum hala þessarar halastjörnu. Halastjarnan með hala sínum var víðs fjarri í þetta sinn. En talið er líklegt að steinarnir sem nú sáust hafi losnað frá halastjörnunni endur fyrir löngu og hafi þá um skeið myndað hluta af hala hennar.

    Leonítarnir eru mjög hraðfara (um 70 km/sek) og brenna upp hátt í andrúmsloftinu. Fæstir þeirra verða mjög bjartir. Tveir sjónarvottar á Íslandi, annar í Skagafirði en hinn í Ljósavatnsskarði, sáu þó mjög bjartan vígahnött aðfaranótt 18. nóvember. Fór hann frá austri til vesturs og skildi eftir sig slóð.Var það um kl. 24, tveimur stundum fyrir hámarkið.

    Hugsanlegt er að Leonítarnir verði aftur áberandi næsta ár. Hins vegar er ekki víst að sýningin verði endurtekin eftir 33 ár, því að Júpíter mun að líkindum trufla braut loftsteinanna þegar þeir ganga nærri honum árið 2029.

 
Ů.S. 19. nˇv. 1999