Útsýnisskífur og sólúrSvarið við þessari spurningu er margþætt. Í fyrsta lagi er skekkjan háð breiddarstigi athugunarstaðarins, en meira máli skiptir þó hvers konar tími það er sem við sækjumst eftir, sannur sóltími eða miðtími (meðalsóltími). Sé það miðtími, fer svarið eftir því hvort átt er við staðarmiðtíma eða staðartíma (lögtíma). (Þessum hugtökum er oft ruglað saman og hvort tveggja kallað staðartími.) Staðarmiðtíminn fer eingöngu eftir lengdargráðu viðkomandi staðar og er sá sami fyrir alla staði á sama lengdarbaug. Staðartíminn er sá tími sem venjulegar klukkur eru stilltar eftir, lögum samkvæmt, og er sá sami á tilteknu svæði, sem getur verið býsna stórt. Staðartími á Íslandi jafngildir staðarmiðtíma Greenwich sem er 1 klst. 27,7 mínútur á undan staðarmiðtíma Reykjavíkur. Hér skal fyrst miðað við Reykjavík sem athugunarstað. Tafla 1 sýnir frávik sólúrs í Reykjavík frá sönnum sóltíma hinn 21. hvers mánaðar. Tölurnar merkja mínútur. Við sjáum að frávikið getur mest orðið 53 mínútur á hvorn veg. Það gerist á sólstöðum þegar skugginn vísar á 7 (+53 mínútur) eða 17 (-53 mínútur). Í fyrra tilvikinu er réttur sóltími 7 stundir og 53 mínútur, en í seinna tilvikinu 6 stundir og 7 mínútur. Tafla 2 sýnir frávik sólúrsins frá staðarmiðtíma. Mestu frávikin eru svipuð og í töflu 1, en fram kemur árstíðasveifla sem ekki sést í töflu 1. Tafla 3 sýnir frávik sólúrsins frá staðaltíma, þ.e. venjulegri klukku í Reykjavík. Þarna breytast frávikin um 88 mínútur frá því sem var í töflu 2. Loks sýnir Tafla 4 frávikin frá sönnum sóltíma í Grímsey. Þessa töflu getum við borið saman við töflu 1 sem gildir fyrir Reykjavík. Munurinn, sem stafar af breiddarmun staðanna, er ekki ýkja mikill. Mesta frávikið í Grímsey er 47 mínútur, aðeins minna en í Reykjavík, en á sama tíma árs og dags. Þ.S. 13. 2. 2017 |