Þorsteinn Sæmundsson:
Sól og jörð í fortíð og framtíð
Erindi flutt á vegum Stjarnvísindafélags Íslands 22. febrúar 1992
(Myndefni
breytt)
1. Inngangur
Góðir áheyrendur. Í þeim heimi sem við lifum og hrærumst í frá degi til
dags er flest í óvissu og breytingum háð. Við vitum sjaldnast þegar við
leggjumst til svefns að kvöldi hvaða fréttir við munum fá að morgni, um slys,
náttúruhamfarir, stjórnarbyltingar eða nýjar tilskipanir í heilbrigðis- og
menntamálum. En einu getum við þó treyst, og það er að sólin muni koma upp á
réttum tíma og ganga sinn gang yfir himininn. Hér á Íslandi kann hún að vera
hulin bak við ský, en birtan segir okkur engu að síður að hún muni vera á
sínum stað.
En þótt allir kunni að meta birtu sólar og yl, eru þeir líklega ekki margir
sem leiða hugann að því hversdagslega hvers konar fyrirbæri sólin er, hvað
það er sem skín þarna uppi á himinhvolfinu. Síðan á 17. öld hafa menn vitað að
sólin er ein af stjörnunum, sama eðlis og fastastjörnurnar á himinhvolfinu,
aðeins miklu nær okkur og þess vegna svo miklu bjartari. Hvað sem allri
stjörnuspeki líður er staðreyndin sú, að sólin er eina stjarnan sem hefur
merkjanleg áhrif á líf okkar hér á jörðinni. Að segja að hún hafi áhrif er
vægt að orði komist, því að sólin er forsenda alls lífs sem við þekkjum.
Minnstu breytingar á sólinni gætu haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir
mannkynið, og af þeirri ástæðu einni hljóta sólrannsóknir að vera ofarlega á
dagskrá hjá vísindamönnum. En sólin er líka áhugaverð af því að hún er eina
stjarnan sem er svo nálæg að unnt er að rannsaka hana í smáatriðum.
Lítum nánar á sólina. Sól á heiðum himni er venjulega svo björt að maður
getur ekki horft á hana nema augnablik. Þess vegna sjá menn hana yfirleitt
ekki fyrir sér sem hnött, heldur bjarta skífu, og breytir engu þar um þótt
menn viti betur. En ef maður horfir á sólina gegnum dökkt gler eða filmu sem
deyfir ljósið, fær maður strax á tilfinninguna að sólin er ekki skífa heldur
hnöttur. Og ef sjónauki er tiltækur, þótt ekki sé nema lítill handsjónauki, má
oft greina bletti á yfirborði sólarinnar og fylgjast með því frá degi til dags
hvernig hún snýst um möndul sinn. Og þegar maður gerir sér grein fyrir því að
þessir litlu blettir á sólinni eru margir hverjir mun stærri en jörðin öll, þá
fyrst verður manni ljóst hve risavaxinn hnöttur sólin er í raun og veru.
Þessi teikning sýnir sólina með sólblettum og sólstrókum. Jörðin er sýnd neðan við til samanburðar. |
2. Umbrot á sólu og áhrif þeirra á jörðina Alla tíð síðan sjónaukar voru fundnir upp hafa menn fylgst náið með
yfirborði sólar. Það er löngu vitað að margs konar fyrirbæri sjást á sólinni,
sum skammvinn, önnur langlífari. Eðlilegt er að spurt sé hvort þessi umbrot á
sólinni hafi áhrif á jörðinni til skemmri eða lengri tíma. Varanleg breyting á
ljósstyrk sólar, jafnvel smávægileg breyting, myndi hafa afdrifaríkar
afleiðingar hér á jörð svo að dæmi sé tekið. Skyldu slíkar breytingar hafa
átt sér stað einhvern tíma í fortíðinni? Er líklegt að þær verði í náinni
framtíð? Er jafnvel hugsanlegt að sólin gæti tekið upp á því að springa eins
og sumar stjörnur gera, og eyða þar með jörðinni í einu vetfangi? Þótt slíkar
vangaveltur haldi kannski ekki vöku fyrir mönnum, hefur almenningur þó þegar
áhyggjur af vissum hluta þeirrar geislunar sem frá sólinni berst - útfjólubláu
ljósi sem mikið hefur verið til umræðu að undanförnu vegna hugsanlegrar
eyðingar ósónlagsins. Fyrstu ákveðnu vísbendinguna um það að atburður á sólu gæti haft áhrif á
jörðina fengu menn fyrir meira en 130 árum. Það var 1. september árið 1859
að enski stjörnufræðingurinn Carrington var að skoða og skrá sólbletti, en
það gerði hann á hverjum degi. Einn af blettunum var óvanalega stór og
Carrington veitti honum sérstaka athygli. Allt í einu sá hann tvær
geysibjartar hvítar rákir myndast þvert yfir blettinn. Carrington hljóp til að
kalla í annan mann og sýna honum fyrirbærið, en þegar hann kom aftur að
mínútu liðinni var ljósið í rénun og eftir 5 mínútur var það horfið.
Meiri háttar truflun á segulsviði jarðar, svonefndur segulstormur, hófst næstu
nótt, 17 klukkustundum síðar. Norðurljós sáust víða um Evrópu og á Hawaii. Um
allan heim var ritsímasamband truflað vegna spanstrauma. Í tvær stundir var
hægt að senda ritsímaboð yfir þver Bandaríkin án þess að nota rafhlöður; það
var meira en nóg rafspenna í leiðslunum. Carrington greindi frá þessu á fundi
í Konunglega stjarnfræðingafélaginu, en var varkár við að draga nokkrar
ályktanir um samband milli þessara atburða.
Það sem Carrington sá er fyrirbæri sem nú er kallað sólblossi eða sólgos, en
sólblossi er réttara nafn. Venjulega þarf sérstakar ljóssíur eða ljósnema til
að sjá sólblossa, því að það ljós sem þeir senda frá sér er að miklu leyti ósýnilegir
geislar, útfjólublátt ljós, röntgengeislar og rafagnir. Aðeins örsjaldan ber
það við að þeir sendi frá sér svo mikið af venjulegu, sýnilegu ljósi að menn
sjái þá án sérstakra tækja. Sólblossar hafa verið rannsakaðir meira en flest
önnur fyrirbæri í stjörnufræði. Orkan sem leysist úr læðingi í stórum
sólblossa myndi fullnægja orkuþörf mannkynsins í þúsundir ára. Hún jafngildir
meira en hundrað milljón vetnissprengjum af stærðinni 1 megatonn.
Sólblossi sem sást 28. september 2015 og olli víðtækum truflunum á útvarpssambandi á jörðinni. Myndin var tekin úr gervitungli bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA gegnum rauða ljóssíu. |
Í tæknisamfélagi nútímans geta áhrif sólblossa verið bæði víðtækari og
alvarlegri en á dögum Carringtons. Fjarskipti með útvarpsbylgjum
truflast stundum þannig að ekkert samband næst í langan tíma; straumar
sem spanast upp í raflínum geta eyðilagt straumbreyta og rafeindatæki í
dreifikerfum raforku og valdið tjóni á símakerfum og olíuleiðslum
(tæring) svo að eitthvað sé nefnt. Síðustu árin hefur verið óvenju mikið
um stóra sólblossa. Í kjölfar sólblossa í mars árið 1989 fór rafmagn af
öllu Quebec fylki í Kanada í níu klukkustundir og miklar truflanir urðu
einnig á Norðurlöndunum. Í Bandaríkjunum varð mikið tjón á tækjum.
Staðsetningarkerfi skipa og flugvéla urðu óvirk, og sömuleiðis trufluðust
fjarskipti langtímum saman.
Myndin sýnir línurit úr segulmælingastöðinni í Leirvogi
við upphaf segulstormsins í mars 1989. Fyrsti kippurinn
kemur um kl. 18 þegar höggbylgja frá sólblossanum skall
á háloftunum. Segulstormurinn fylgdi í kjölfarið eins og
sést á næstu mynd. Þetta var einhver mesti stormur sem mælst
hefur í Leirvogi.
Áttavitastefnan sveiflaðist um 9°. Mun meiri sveifla (16°)
mældist í Leirvogi hinn 29. október 2003, þótt sá stormur
væri ekki eins öflugur á heildina séð.
|
Z = lóðrétt segulsvið, H = lárétt svið, F = heildarsvið, D
= áttavitastefnan. |
Norðurljós fylgja oft í kjölfar sólblossa.
(Mynd: Snævarr Guðmundsson) |
Sólblossar
hafa líka valdið skemmdum á sólsellum sem eru orkugjafar fyrir flest
gervitungl. Í einni hrinu árið 1989 urðu 240 bilanir í gervitunglum. Brautir
sumra tungla hafa breyst þannig að líftími þeirra hefur stytst verulega og
snúningur þeirra truflast. Tölvur um borð í gervitunglunum hafa truflast og
upplýsingar þurrkast úr minni þeirra. Lofthjúpur jarðar, þótt þunnur sé,
verndar menn fyrir heilsutjóni af völdum sólblossa, en í flugvélum sem fljúga
mjög hátt, og í geimförum, gildir öðru máli. Í kjölfar sólblossa hafa
geislamælar í Concorde þotum margsinnis gefið aðvörun um hættuástand vegna
geislunar, og hið sama hefur gerst í geimskutlum. En hvaða geislun er þarna um
að ræða? Við skulum hverfa aftur til sólarinnar og líta á það hvernig þessi
geislun verður til.
Þegar grannt er skoðað í sjónauka sést að allt yfirborð sólar er yrjótt eða
dílótt. Þessar ýrur, þótt smáar sýnist, eru miklu stærri um sig en Ísland; þær
eru toppar á ofboðslegum hitabólstrum sem hníga og stíga og endast kannski 10
mínútur eða svo. Mest áberandi á yfirborði sólar eru sólblettirnir, sem geta
orðið svo stórir að þeir sjáist með berum augum við rétt skilyrði. Slíkir
blettir eru oft miklu stærri um sig en jörðin.
Mynd sem sýnir stóran sólblett, bjartari (heitari) svæði í
kring og skammlífar sólýrur sem þekja
yfirborð sólarinnar.
Myndina tók Ástralíumaðurinn Dennis Simmons 7. apríl 2016. |
Það sem einkennir sólbletti er sterkt segulsvið, og í rauninni er talið
að segulsviðið sé orsök blettanna og valdi kælingu í þeim. Blettirnir eru um
2000 stigum kaldari en yfirborðið í kring. Segulsvið getur varðveitt orku - við finnum t.d. að
töluverða orku þarf til að slíta sundur sterka segla sem liggja saman. Þessi
orka getur leyst úr læðingi sem hreyfiorka eða komið fram í rafstraumum.
Segulsvið jarðarinnar er veikt miðað við sviðið nálægt venjulegum
stangarsegli, en segulsvið stórra sólbletta getur verið miklu sterkara,
mörg þúsund sinnum sterkara en segulsvið jarðar.
Um allt yfirborð sólar eru segulkraftar að verki þótt þeir séu veikari en
í blettunum. Talið er að með segulsviðinu og sífelldum breytingum þess
flytjist orka frá yfirborði sólar út í örþunnan lofthjúpinn sem umlykur sól og
nefnist sólkóróna. Kórónan gefur svo lítið frá sér af sýnilegu ljósi að hún
sést ekki nema sérstakri tækni sé beitt. Aðeins í sólmyrkvum, þegar tunglið
hylur bjarta sólskífuna, er auðvelt að sjá kórónuna með berum augum. Hún getur
verið margbreytileg útlits, en oft má sjá arma eða vængi sem geta teygst
firnalangt út í geiminn.
Myndin er tekin í sólmyrkva árið 1991. Vegna þess hve
mikill munur er á birtu kórónunnar innst og yst, er
afar erfitt að ná henni allri skýrt á eina mynd. Hér hefur 21
mynd verið skeytt saman. Myndasmiðir voru Peter Aniol og
Miroslav Druckmüller.
|
Kórónan er gífurlega heit, um 2 milljón stig, þótt
yfirborð sólar sé aðeins 6000 stiga heitt. Þetta virðist hrein þversögn og
menn hafa lengi glímt við að skýra hana, en nú er talið að skýringarinnar sé
að leita í síbreytilegu segulsviði sem flytur orkuna frá yfirborði sólar upp í
kórónuna. Sólblossum má líkja við sprengingu í kórónunni, þar sem orka í
segulflækju leysist skyndilega úr læðingi. Sólin er að mestu leyti úr vetni,
en vegna hins háa hita í kórónunni er vetnið sundrað í frumagnir sínar,
róteindir og rafeindir. Það eru þessar rafhlöðnu agnir sem þeytast út í
geiminn og valda mestum truflunum á jörðinni. Að jafnaði fara þessar agnir með
hraða sem nemur um 700 km/s og ná til jarðar á 2-3 dögum, en þær sem hraðast
fara ná til jarðar á klukkustund eða svo. Vegna hitans sendir kórónan frá sér
mikið af röntgengeislum og útfjólubláum geislum af mjög stuttri bylgjulengd.
Einnig sendir hún frá sér útvarpsbylgjur. Öll þessi geislun eykst verulega við
sólblossa.
Milli kórónu og yfirborðs sólar er tiltölulega þunnt millibilslag sem
nefnist lithvolf vegna þess að það er áberandi sem rauður hringur um sólina í
sólmyrkvum. Frá lithvolfinu teygja sig oft stórkostlegir sólstrókar langt upp
í kórónuna. Þeir fylgja segulsviðslínum og segulsviðið heldur þeim uppi.
Þannig geta þeir haldist í jafnvægi dögum og vikum saman, en stundum breytist
segulsviðið snögglega og þeytir þeim út í geiminn. Á sama hátt og við
sólblossa geta efnisagnirnar náð alla leið til jarðar og valdið truflunum á
borð við þær sem áður var lýst.
Sólstrókur.
Myndin var tekin úr gervitungli bandarísku geimferðastofnunarinnar
NASA gegnum rauða ljóssíu. Stærð jarðar er sýnd til samanburðar |
Rannsóknir hafa leitt í ljós að það er ekki bara við sólblossa eða aðrar
hamfarir á sólinni sem rafhlaðnar agnir streyma út í geiminn. Í sólkórónunni
sér stað útstreymi á öllum tímum, sem kallað er sólvindur. Sólvindurinn er
ekki jafnsterkur frá öllum svæðum kórónunnar. Þegar myndir af kórónunni eru
skoðaðar sjást langir geislar eða vængir teygja sig út í geiminn. Ætla mætti
að þarna væru rafagnirnar að streyma út frá sólinni, en rannsóknir hafa sýnt
að svo er ekki. Í sólvængjunum eru einmitt agnir sem ekki hafa komist út vegna
þess að segulsviðið hefur hindrað það. Efni hefur því safnast þar fyrir og
hitnað. Það er í svæðunum þar sem rof myndast í kórónuna, sem sólvindurinn
streymir frá sólu. Þar stefna segulsviðslínurnar út í geiminn, en sveigja ekki
krappt að sólinni aftur. Á röntgenmyndum sem teknar eru úti í geimnum sjást
þessar glufur greinilega. Þar er efni á útleið. Við sjáum merki þessa sólvinds
í halastjörnum, því að það er hann sem mótar halann og blæs honum í átt frá
sólu.
Halastjarna. Halinn sem þarna sést er rafgas, efni sem
útfjólublátt sólarljós hefur rafað (jónað) og sólvindurinn
þeytir í átt frá sólu. |
Þótt sólvindurinn frá kórónuglufunum sé ekki eins gustmikill og sá sem
berst frá sólblossum og öðrum hamfarasvæðum sólar, veldur hann engu að síður
miklum truflunum þegar hann nær til jarðar, og þær truflanir standa oft lengur.
Í báðum tilvikum hefur segulsvið jarðar áhrif á rafagnirnar. Það myndar eins
konar skjöld og bægir þeim frá jörðu að mestu leyti. Það er helst í námunda
við heimskautin, í norðurljósabeltunum, sem rafagnir komast inn í gufuhvolf
jarðar fyrir flókið samspil sólvindsins og segulsviðs jarðar.
Myndin sýnir hvernig segulsvið jarðar ver það fyrir
sólvindinum. Hvítu örvarnar sýna stefnu segulsviðsins frá
suðurskauti jarðar til norðurskauts.
Sjá nánar
hér. |
3. Er heildargeislun sólar breytileg?
Þær miklu breytingar á útstreymi sólar sem ég hef rætt um, koma fram í
rafögnum, útfjólubláu ljósi, röntgengeislum og útvarpsbylgjum. Öll þessi
geislun nema útvarpsbylgjurnar stöðvast að mestu leyti í háloftunum og veldur
miklum breytingum þar. Hitt er meira vafamál hvort þessi geislun hefur áhrif
neðar í gufuhvolfinu þar sem veður og vindar ráða. Orkan er að vísu talsverð
á mannlegan mælikvarða. Til dæmis myndu rafstraumarnir sem valda norðurljósum
geta fullnægt raforkuþörf mannkynsins þá stundina ef hægt væri að virkja þá.
En í samanburði við þá orku sem felst í venjulegu, stöðugu sólarljósi er
þessi breytilega geislun varla umtalsverð.
En er þetta venjulega sólarljós þá alveg stöðugt? Að sjálfsögðu er mjög
þýðingarmikið að fá svar við þeirri spurningu hve miklar breytingar verði á
heildargeislun sólar. Ef yfirborðshiti sólar, sem er nálægt 6000°, lækkaði, þó
ekki væri nema um 15°, myndi það nægja til að minnka þá geislun sem jörðin fær
frá sólu um 1%. Það myndi aftur valda lækkun á yfirborðshita jarðar um 1-2°
sem að margra dómi væri meira en nóg til að hrinda af stað nýrri ísöld.
Mælingar á heildargeislun sólar hafa verið framkvæmdar ötullega frá síðustu
aldamótum, en það var ekki fyrr en unnt var að koma mælitækjum fyrir í
gervitunglum, ofan við gufuhvolf jarðar, að nægileg nákvæmni fékkst í þessar
mælingar. Niðurstaðan af mælingum undanfarinn áratug bendir til þess að
sveiflur séu ekki meiri en brot úr prósenti, en slíkt ætti lítil áhrif að hafa
á á hitastig á jörðinni. Aðrir þættir (t.d. koldíoxíðaukning í andrúmsloftinu)
hafa mun meira að segja. Þeim mun undarlegra er það að menn hafa þóst sjá
sterk áhrif sólvirkni í margvíslegum sveiflum veðurfars á jörðinni. Lítum
aðeins nánar á það mál.
4. Langtímasveiflur í sólblettum og tengsl þeirra við fyrirbæri á jörðu
Þeir sem fylgjast með sólblettum verða þess fljótlega áskynja að fjöldi
þeirra breytist mjög mikið og á sveiflubundinn hátt. Sveiflan tekur að
meðaltali 11 ár, en tíminn er talsvert breytilegur, allt frá 7 upp í 17 ár.
Síðasta hámark í sólblettum var árið 1989, en næsta hámark þar á undan var
1979. Sumir hafa þóst sjá lengri sveiflur í sólblettum, en slíkt er umdeilt.
Sólblettir eru aðeins eitt af mörgum merkjum um sólvirkni, sem fylgja sömu
sveiflu.
Myndin sýnir fjölda sólbletta í rúmlega
fimm sólsveiflur.
Bláa línan sýnir mánaðarmeðaltöl. |
Truflanir á segulsviði jarðar, norðurljós og skyld fyrirbæri sýna greinileg
merki þessarar sömu 11 ára sólblettasveiflu. Þessu tóku menn snemma eftir, og
þótt ýmsir væru vantrúaðir á sambandið, efast enginn um það nú, enda
fullnægjandi skýring fengin. Hins vegar hafa menn þóst sjá ýmis önnur spor
sólblettasveiflunnar sem erfiðara er að útskýra. Stjörnufræðingurinn William
Herschel mun hafa verið fyrstur til að benda á að verð á hveiti virtist
breytast nokkurn veginn með fjölda sólbletta. Þetta var árið 1801. Hugmyndin
var ekki með öllu fráleit, því að hugsanlegt var að sólblettir hefðu áhrif á
veðurfar, sem aftur hefði áhrif á uppskeru og þar með hveitiverð. Gallinn var
bara sá, að nokkru eftir að Herschel benti á þetta, hættu sveiflurnar að
fylgjast að. En þetta var aðeins upphafið að endalausum tilraunum manna til að
finna samband milli sólbletta og fyrirbæra á jörðu niðri. Að sjálfsögðu hafa
ýmsir þættir veðurfars verið sérstaklega athugaðir, úrkoma, hitastig,
loftþrýstingur o.s.frv., en lærðar vísindagreinar hafa líka verið skrifaðar um
ólíklegri tengsl eins og við jarðskjálfta, sveiflur í rjúpnastofninum á
Íslandi og fjölda hvítabjarna sem veiðist á Grænlandi.
Af þeim greinum sé ég
hef séð um dagana eru mér tvær minnisstæðastar. Önnur fjallaði um samband á
milli fjölda sólbletta og jarðskjálfta í Suður-Ameríku. Fullkomnari samsvörun
tveggja línurita hef ég aldrei séð, en hvers vegna það gilti aðeins fyrir
Suður-Ameríku fékkst aldrei upplýst. Hitt var grein eftir ítalskan prófessor.
Prófessor þessi hafði tekið eftir því að tiltekið efni sem hann var að fást
við í rannsóknarstofu sinni, bismút-oxyklóríð, hafði mismikla tilhneigingu til
að mynda útfellingu í tilraunaglasi, allt eftir því hve mikið var um
sólbletti. Vandamálið við slíkar kenningar er það að finna sennilegt
orsakasamband. Meðan engin skýring finnst, verður að taka kenningunum með
miklum fyrirvara.
Mér dettur í hug gamansaga sem höfð var eftir bandaríska
stjörnufræðingnum Carl Sagan. Hann hafði setið ráðstefnu þar sem einn
fyrirlesarinn hélt því fram í fyllstu alvöru, að öll helstu vísindaafrek
mannkynssögunar hefðu verið unnin þegar sólblettir voru í hámarki. Newton,
Darwin og Einstein voru allir nefndir í þessu sambandi. Rússneski
stjörnufræðingurinn Shkovskii, sem sat við hlið Sagans, hallaði sér að honum
og sagði stundarhátt: "En þessi kenning kemur samt fram þegar sólblettir eru í
lágmarki!".
Þessi skortur á viðunandi skýringum, og það að sumar kenningarnar um fylgni
við sólbletti hafa ekki staðist nánari athugun, hefur leitt til þess, að
margir hafa nánast afskrifað þetta rannsóknarsvið sem eins konar hjávísindi.
Hins vegar er skylt að geta þess að ýmsir virtir vísindamenn hafa lagt skerf
til þessara rannsókna, og sumar af niðurstöðum síðustu ára eru athyglisverðar
og ekki rétt að fleygja þeim strax í ruslið.
Sem dæmi um niðurstöður sem ekki hafa verið vefengdar má nefna, að
greinileg fylgni hefur komið í ljós milli sólvirkni og lægðamyndunar við
Aleúteyjar. Lægðirnar hafa tilhneigingu til að verða krappari í kjölfar
segulstorma. Þá virðast athuganir á úrkomu á mismunandi breiddargráðum síðustu
öldina sýna samband við sólbletti á þann hátt að úrkomubelti færist til,
norður eða suður. Nokkur fylgni virðist vera milli sólblossa og tíðni eldinga
á sumum svæðum. Fjöldi sólbletta er ekki eini mælikvarðinn á það hvernig sólin
hagar sér, og nýlega hafa danskir vísindamenn þóst finna samband milli lengdar
sólblettaskeiðanna og veðurfars á norðurhveli jarðar. Meðal gagna um veðurfar
notuðu þeir frásagnir um hafís við Ísland síðan 1740. Þeir komust að þeirri
niðurstöðu að veðurfar væri hlýrra þegar sólblettaskeiðin væru stutt.
Sérkennilegt er, að í mörgum gögnum kemur fram 22 ára sveifla í stað 11 ára
sveiflu. Nú er það svo, ef tekið er tillit til segulstefnu sólbletta, að
sólblettaskeiðið allt er í rauninni 22 ár fremur en 11, í þeim skilningi að
það er ekki fyrr en eftir 22 ár að segulstefnan er orðin sú sama og hún var í
upphafi, en hvernig þetta gæti skipt máli hér á jörðinni er öllum
óskiljanlegt. Þessi 22 ára sveifla kemur m.a. fram þegar athuguð eru
þurrkatímabil í miðríkjum Bandaríkjanna, og hana virðist einnig að finna í
magni tvívetnis í trjám ein þúsund ár aftur í tímann, en talið er að hitastig
ráði tvívetnismagninu. Öll þessi fyrirbæri og fleiri eru bundin við tiltekin
svæði. Það merkilega við 22 ára sveifluna í trjánum er að hún er miklu
reglulegri en sólblettasveiflan. Þetta er í sjálfu sér grunsamlegt: ef
orsakanna er að leita á sólinni, hví skyldu afleiðingarnar koma skýrar fram og
reglulegar á jörðinni? Sumir vísindamenn hafa túlkað þetta svo, að jörðin sé
undir beinum áhrifum af einhverju sem gerist langt undir yfirborði sólar, en
það virðist hæpin skýring.
Sem dæmi um það hve hættulegt það getur verið að draga skjótar ályktanir í
þessum efnum eru rannsóknir jarðfræðingsins George Williams sem birtust á
árunum 1981-1985. Williams rannsakaði forn setlög í Ástralíu, frá for-Kambrium
tíma fyrir 670 milljónum ára. Setlögin sýndu, að því er virtist, greinilega
11 ára sveiflu. Ekki nóg með það. Nánari athugun leiddi í ljós 22 ára sveiflu
líka. Þetta taldi Williams og margir aðrir sönnun þess að sólin hefði hegðað
sér svipað fyrir 670 milljón árum og hún geri nú. Að vísu þótti dálítið
dularfullt að þetta skyldi sjást svona greinilega í setlögum; slíkt gerist
tæplega á vorum dögum. En það var útskýrt með þeim hætti, að gufuhvolf jarðar
hefði verið allt öðru vísi á þessum tíma, engar plöntur, ekkert súrefni,
ekkert ósonlag til að stöðva útfjólubláa geisla. Einnig kynni segulsvið jarðar
að hafa verið mun veikara og veitt minni vörn gegn rafögnum. Sem sagt, það var ekkert
mál að skýra þetta.
Þverskurður af áströlsku setlögunum
En svo kom heldur betur bakslag í seglin. Árið 1988 skrifaði Williams nýja
grein og dró til baka allar fyrri niðurstöður. Hann hafði þá áttað sig á því,
að setlögin endurspegluðu sveiflur í sjávarföllum þegar umferðartími tungls um
jörðu og lengd dagsins höfðu verið önnur en nú. Gögnin voru enn hin
merkilegustu, en í stað þess að veita upplýsingar um sólina voru þau orðin
vitnisburður um möndulsnúning jarðar og brautargöngu tungls.
En þótt rannsóknir Williams segi okkur ekkert um sólvirkni fyrir milljónum
ára, er eðlilegt að spurt sé hvort langtímabreytingar eigi sér
stað. Kenningar um slíkt eru nú mjög til umræðu, en þær eru ekki nýjar af
nálinni. Skömmu fyrir síðustu aldamót benti þýski stjörnufræðingurinn Spörer
á það, að eftir bestu heimildum að dæma virtist sólin hafa verið nánast laus
við sólbletti í 70 ár frá 1645 til 1715. Þetta þótti mönnum ótrúlegt, en ensku
stjörnufræðingarnir, hjónin Walter Maunder og kona hans Annie Maunder, staðfestu þetta með eigin rannsóknum á mörgum
heimildum. Þau komust líka að því að norðurljós höfðu verið mjög sjaldséð á
þessu tímabili. Þetta blettasnauða tímabil er nefnt Maunder skeiðið. Síðar
kom í ljós, að þetta tímabil hafði verið óvenju kalt víða á norðurhveli og
hefur verið kallað litla ísöldin. Sumir töldu þetta greinilega vísbendingu um
áhrif sólvirkni, en aðrir voru fullir efasemda og bentu á að eldgos á þessum
tíma væru líklegri skýring. Litla ísöldin virðist ekki hafa náð til Íslands ef
marka má rannsóknir á ískjörnum úr Grænlandsjökli, en þar hefur reynst
mögulegt að rekja hitastig þúsundir ára aftur í tímann með rannsóknum á
súrefnissamsætum í ískjörnum. Mælingar á samsætum í botnlögum hafanna hafa
veitt hliðstæða mynd. Annað en skemmra tímabil lægðar í sólblettum stóð frá 1790
til 1830 eða þar um bil. Það er kennt við enska veðurfræðinginn John
Dalton sem fyrstur vakti athygli á því. Á því tímabili var hitastig á
jörðinni líka óvenju lágt, en mikil eldgos eru talin sennileg skýring á
því.
Línuritið sýnir fjölda sólbletta svo langt
aftur sem athuganir ná. |
Rannsóknir á trjám hafa reyndar gert það kleift að kanna sólvirkni langt aftur í tímann. Helsta aðferðin er sú að mæla magn af geislavirku
kolefni, kolefni 14, í árhringjunum (beryllium 10 hefur líka verið notað)
Þetta geislavirka kolefni myndast í andrúmsloftinu fyrir áhrif geimgeisla.
Þegar mikið er um sólvirkni dregur úr geimgeislum, því að sólvindurinn og það
segulsvið sem hann ber með sér skýlir jörðinni að nokkru leyti fyrir þessum
orkumiklu ögnum sem koma utan úr himingeimnum. Geislavirka kolefnið sem trén
hafa fengið úr andrúmsloftinu er því mælikvarði á sólvirknina á hverjum tíma,
að talið er. Með mælingum af þessu tagi hefur tekist að kanna sólvirkni meira
en 9000 ár aftur í tímann. Lágmarkið á Maundertímanum kemur glöggt fram í
trjánum, og einnig fjölmörg eldri skeið, hliðstæð. Eins þykjast menn sjá
lengri sveiflu, 420 ár, í sólblettunum yfir þetta langa tímabil.
Nú hafa menn sem sagt í höndunum upplýsingar um sólvirkni og hitafar á
jörðu mörg þúsund ár aftur í tímann. En nákvæmur samanburður á þessum gögnum
hefur ekki leitt í ljós neitt langtímasamband á milli þessara þátta. Litla
ísöldin á Maundertímabilinu virðist hafa verið fremur staðbundið
fyrirbæri.
En ef svo skyldi fara að eitthvert samband sólbletta og veðurfars yrði
endanlega staðfest, t.d. lægðamyndun eða úrkomubreytingar, með hvaða hætti
gæti sólvirknin haft þessi áhrif? Ef sólvirknin hefur áhrif á veðurfar er
það sennilega eitthvað annað en bein varmaáhrif sem máli skipta. Til þess eru
þau allt of lítil. Ein tilgáta, sem á nokkru fylgi að fagna, er sú að
sólblossar og sólvindur hafi áhrif á rafsvið í gufuhvolfinu og þar með á
þrumuský og þrumuveður sem eru snar þáttur í veðurfari víða um heim. Sumir
vísindamenn telja sig hafa fundið samband milli sólblossa og tíðni eldinga
eins og fyrr er sagt, svo að hugmyndin er ekki með öllu fráleit. En sönnuð er
hún ekki.
5. Ísaldir
Hingað til hef ég aðeins rætt um veðurfarssveiflur síðustu árþúsundin. En
hvað um stærri sveiflur, lengra aftur í tímanum, ísaldirnar frægu. Hefðu þær
ekki getað orsakast af breytingum á útgeislun sólar? Langt er síðan slík
tilgáta var sett fram, en vandinn er að sanna hana. Geislunin sem jörðin
fær frá sólinni getur breyst þótt sólin sjálf breytist ekki. Munurinn á sumri
og vetri á hverjum stað stafar ekki af því að sólin sé að hitna og kólna á
víxl, heldur af því að jörðin hallar ýmist norðurskauti eða suðurskauti að sól
á árgöngu sinni um sólina. Heildargeislunin sem á jörðina fellur er ekki heldur
jöfn yfir árið, því að braut jarðar um sólu er ekki alveg hringlaga. Þótt
munurinn sé ekki mikill, fær jörðin þó um 7% meiri geislun frá sól þegar hún
er í sólnánd heldur en þegar hún er í sólfirð. Og fyrir veðurfarið á hverjum
stað skiptir máli hvenær ársins þetta gerist. Jörðin er næst sólu í byrjun
janúar, þegar vetur er á norðurhvelinu, en fjærst sólu í júlí, og ætti þetta
að draga úr árstíðasveiflum veðurfarsins. En þetta hefur ekki alltaf verið
svo, því að braut jarðar breytist með tímanum og einnig möndulhallinn sem
veldur árstíðaskiptunum. Þannig geta komið fram langtímasveiflur sem hafa
áhrif á veðurfar.
Sá sem fyrstur varð til að reikna út áhrif þessara breytinga í smáatriðum
var Júgóslavinn Milutin Milankovic, og birti hann niðurstöður sínar á árunum
1920 og 1930. Útreikningar hans hafa síðan verið endurteknir og staðfestir í
meginatriðum. Samkvæmt þeim ættu að koma fram veðurfarsbreytingar með
sveiflutíma 100 þúsund ár vegna breytinga á miðskekkju jarðbrautarinnar
(0,5% til 6%, nú 1,7%). Önnur sveifla, 40 þúsund ár, ætti að koma fram vegna
sveiflu í halla jarðmöndulsins (22,0 -24,5), og loks sveifla með tvo toppa við 19
og 23 þúsund ár vegna pólveltu jarðar sem hefur áhrif á það hvenær ársins
sól er næst jörð.
Það var ekki fyrr en á 8. áratug þessarar aldar að hægt var að sannprófa
kenningu Milankovic. Þá lágu fyrir upplýsingar um hitastig á fyrri öldum
samkvæmt mælingum á súrefnissamsætum eins og fyrr var greint. Þannig fékkst
endanlega staðfest að allar þær sveiflur sem Milankovic hafði spáð komu
greinilega fram í hitasveiflum á ísaldarskeiðunum síðustu 500 þúsund árin.
Stærsta sveiflan er 100 þúsund ára sveiflan, enda hafa ísaldirnar komið nokkurn
veginn með því millibili síðustu milljón árin eða svo. Eins og fyrr segir stafar
þessi sveifla af
hægfara breytingu á miðskekkju brautar jarðar um sólu. Sem stendur erum við í
hlýindaskeiði milli ísalda.
En kenning Milankovic svarar því ekki hvers vegna ísaldirnar hófust fyrir
um það bil milljón árum eða. Fyrir þann tíma ríkti yfirleitt hlýviðri á
jörðinni, þótt merki séu um ísöld fyrir 300 milljón árum (Kol-Perm), aðra
fyrir 450 milljón árum (Ordovicium) og e.t.v. þá þriðju fyrir 700 milljón árum
(for-Kambríum). Ísaldirnar eru sjaldgæf fyrirbæri í sögu jarðar, og þær hafa
ekki verið skýrðar. Breytingar á andrúmslofti jarðar geta haft mikil áhrif á
loftslag, eins og umræðan um gróðurhúsaáhrifin hefur undirstrikað. Við vitum
t.d. að koldíoxíð í andrúmlofti hefur aukist um 15% á síðustu öld og kann að
tvöfaldast á þeirri næstu. Hitahækkun af þessum sökum kann að verða 2-3°, sem
myndi hafa gríðarleg áhrif að flestra mati. En hvað um koldíoxíð í
andrúmslofti fyrir milljónum ára? Reynt hefur verið að kanna þetta með
mælingum á kolefnissamsætum í fornu bergi. Niðurstöður sem birtar hafa verið
sýna áberandi lágmark fyrir um 300 milljón árum, en þá var einmitt mesta ísöld
á því tímabili sem þessar mælingar ná til. Athyglisvert er, að samkvæmt
mælingunum hefur koldíoxíð í andrúmsloftinu verið langtum meira en það er nú
yfir mestallt tímatal jarðsögunnar frá því fyrir 500 milljón árum. Það er því
engu líkara en koldíoxíð sé í sérstöku lágmarki nú, og má segja að það
samræmist þeirri skoðun, að því tímabili ísalda sem hófst fyrir milljón árum
sé enn ekki lokið þótt nú sem stendur sé hlýviðraskeið. Með öðrum orðum, það
er ekki víst að við þurfum að leita til sólarinnar um skýringu á ísöldunum.
En hefur þá sólin ekkert breyst, og mun hún ekkert breytast í framtíðinni?
Til þess að svara þessu verðum við að huga að orkubúskap sólar og innri gerð
hennar.
6. Orkubúskapur sólar
Stjörnufræðingar telja sig hafa allgóða vissu fyrir því, að orkuframleiðsla
sólar fari fram í kjarna hennar sem nær á að giska 1/4 af leiðinni frá miðju
að yfirborði. Hitinn er nálægt 15 milljón stigum og þrýstingurinn gífurlegur.
Þótt sólin sé öll loftkennd er efnið í miðjunni 15 sinnum þéttara í sér en
blý. Við þessar aðstæður ummyndast vetni í helín og við samrunann verður efni
að orku. Á hverri sekúndu verða 5 milljón tonn af efni að orku.
Iður sólar. Frá kjarnanum berst orkan með geislun um
geislahvolfið og síðan með iðustraumum um iðuhvolfið.
Ljóshvolfið er það yfirborð sem við sjáum, um 5500 stiga
heitt. |
Ef við gætum
horft beint inn í kjarna sólar myndi hann sýnast 20 milljón sinnum bjartari en
yfirborðið. Orkan sem myndast í kjarnanum verður til í mynd gammageisla sem
breytast síðan í röntgengeisla. Þótt reynsla okkar af röntgengeislum sé sú að
þeir eigi auðvelt með að komast gegnum efni, er efnisþéttan í sólarmiðju slík
að þeir komast varla nema 1 millimetra án þess að stöðvast. Efnið sem stöðvar þá,
geislar þeim síðan í einhverja aðra átt. Smám saman þokast geislunin utar í
sólina, en það tekur að meðaltali 20 milljón ár fyrir geislunina að ná
yfirborði. Á leið sinni gegnum kaldari lög breytist geislunin úr
röntgengeislun í útfjólubláa geislun og loks í venjulegt sýnilegt ljós.
Útreikningar benda til þess að jafnvægi ríki í kjarna sólar. Samruninn í
kjarnanum er að vísu mjög háður hita; aðeins 10% hækkun hitans myndi tvöfalda
orkuframleiðsluna. Það sem viðheldur jafnvæginu er að hiti orsakar útþenslu
sólar sem aftur veldur kólnun. Samkvæmt útreikningum ætti þetta jafnvægi að
vera mjög stöðugt.
En hversu áreiðanlegir eru þessir útreikningar? Er víst að orkuframleiðslan
fari fram með þeim hætti sem stjörnufræðingar segja? Það væri óneitanlega
mikill kostur að geta skyggnst beint inn í kjarna sólar til að ganga úr skugga
um þetta. Þótt ótrúlegt sé, er þetta mögulegt í vissum skilningi. Kenningarnar segja
okkur að við samruna frumeinda í kjarna sólar fari brot af orkunni í að mynda
mjög sérkennilegar eindir, svonefndar fiseindir, sem eru nánast ósýnilegar og
ósnertanlegar - eins konar draugeindir sem geta smogið gegnum hvað sem er. Til
að stöðva fiseind þyrfti að jafnaði mörg ljósár af blýi. Eftir að þær myndast
í kjarna sólar fara þær með ljóshraða til yfirborðsins á 2 sekúndum, og eftir
8 mínútur eru þær komnar til jarðar. Fiseindirnar eru gífurlega margar;
reiknað hefur verið út að nærri 70 milljarðar fari gegnum hvern fersentimetra
jarðar á hverri sekúndu án þess að nokkur verði var við það. En af mikilli
hugvitsemi hefur vísindamönnum tekist að finna upp tæki til að snara eina og
eina fiseind. Til þess þarf stóra geyma sem fylltir eru af vökva og komið er
fyrir í djúpum námum neðanjarðar til að forðast truflun frá annars konar
geislun. Með öðrum orðum, til að kanna kjarna sólar fara menn með tæki sín
langt undir yfirborð jarðar.
Fyrstu niðurstöður gáfu til kynna, að sólin framleiddi mun færri fiseindir
en kenningarnar sögðu til um, varla meira en þriðjung. Þetta gat táknað að
hitinn í kjarnanum væri minni en talið hafði verið, og sumir gengu svo langt
að stinga upp á að orkuframleiðslan í kjarnanum væri í tímabundnu lágmarki.
Bent var á, að vegna þess hve geislunin er lengi á leiðinni frá kjarna sólar
út að yfirborði, gæti liðið langur tími þar til við sæjum þess merki á
yfirborðinu að eitthvað hefði dregið úr kyndingunni. En þetta gekk þvert á
viðteknar kenningar um jafnvægið í kjarna sólar, og menn sáu enga fræðilega
lausn á þeim vanda. Þess vegna lögðu menn kapp á að endurtaka
fiseindamælingarnar með ýmsum tilbrigðum. Síðustu niðurstöður þessara mælinga
benda til þess að fiseindaskorturinn stafi af hegðun fiseindanna eftir að þær
myndast í kjarna sólarinnar. Til eru mismundandi afbrigði fiseinda sem ekki
verða mæld með sömu tækjum. Svo virðist sem fiseindirnar geti brugðið sér hver
í annarrar líki og villt þannig um fyrir vísindamönnum. Þetta er að minnsta
kosti ríkjandi skoðun þessa stundina. Mælingar á fiseindum frá sólinni gefa
því ekki ástæðu til að ætla að marktækar sveiflur verði í orkuframleiðslu
sólar.
Á síðustu árum hefur komið fram ný aðferð til að kanna innri gerð sólar.
Nákvæmar mælingar hafa leitt til þeirrar óvæntu niðurstöðu, að sólin skelfur,
yfirborð hennar rís og hnígur á kerfisbundinn hátt, og eftir yfirborðinu
fara bylgjur með margvíslegri tíðni. Rannsóknir á sólskjálftum -
sólskjálftafræði - eru nú þegar orðnar sérstök fræðigrein. Með henni hafa menn
orðið margs vísari um innri gerð sólar, t.d. um snúningshraða þar og hve djúpt
iðustraumar nái. Enn hefur þó ekkert komið fram sem bendi til þess að
vísindamenn þurfi að endurskoða hugmyndir sínar um orkubúskap eða stöðugleika
sólarinnar.
7. Þróun sólar
Við höfum sem sagt komist að þeirri niðurstöðu, að þrátt fyrir alla
sólbletti og aðra sólvirkni sé sólin í býsna góðu jafnvægi þessa stundina,
svo að til fyrirmyndar megi teljast. Þar með er ekki sagt að þetta jafnvægi
haldist til eilífðar. Þvert á móti leiða helstu kenningar um þróun sólstjarna
til þeirrar eindregnu niðurstöðu að þróun eigi sér stað þótt hægt fari.
Aldur sólar er talinn 5 milljarðar ára, en það er sá tími sem liðinn er
síðan sólin þéttist og fór að skína sem stjarna. Allar líkur eru til að sólin
hafi í öndverðu snúist hraðar og sýnt miklu meiri virkni á yfirborði. Vegna
sólvindsins hefur hún smám saman hægt á snúningi sínum. Jafnframt hefur hún
þanist lítillega út, og birta hennar aukist um ein 40%. Mest af þessum
breytingum hefur gerst fyrir daga lífs á jörðinni. En af þessu leiðir samt að
í árdaga lífs hafi sólin fengið mun minni yl frá jörðu en nú er. Reiknað hefur
verið út, að hitastig við yfirborð jarðar hafi þá hvergi verið mikið yfir
frostmarki vatns. Þó ber að hafa hugfast að margir þættir aðrir en
sólgeislunin geta haft áhrif á hitastig á jörðu, s.s. samsetning andrúmsloftsins, afstaða
landsvæða til hafsvæða, o.s.frv.
Sem stendur eru breytingar á sólinni mjög hægar, en hún mun þó halda áfram
á sömu braut. Eftir því sem hægir á snúningnum, dregur væntanlega úr
yfirborðsvirkni sem tengist segulsviðinu, og áhrif slíkra umbrota á jörðina
minnka. Meira máli skiptir að sólin mun halda áfram að auka birtu sína jafnt
og þétt eftir því sem gengur á vetnisforðann í kjarnanum og hærri hita þarf
til að halda uppi þrýstingi þar. Eftir 1 milljarð ára mun sólin verða um 10%
bjartari en nú, með stórfelldum afleiðingum fyrir loftslag á jörðinni. Eftir 5
milljarða ára verður sólin orðin tvöfalt bjartari en nú og 40% stærri að
þvermáli. Þá verður vetnið nær uppurið í kjarnanum og orkuframleiðslan færist
utar. Sólin fer þenjast út og þróast yfir í rauða risastjörnu. Á endanum mun
hún gleypa innstu reikistjörnuna, Merkúríus og spanna yfir drjúgan hluta af
himninum frá jörðinni séð. Sólarhitinn mun þá bræða bergið á yfirborði jarðar.
Hitinn í iðrum sólar mun halda áfram að hækka uns að því kemur að helín tekur
við af vetni sem orkugjafi og myndar kolefni og súrefni við samruna. Við það
leysist mikil orka snögglega úr læðingi og sólin þeytir talsverðum hluta af
efni sínu út út í geiminn. Meira efni missir hún síðar í afar sterkum
sólvindi þar til á endanum er ekkert eftir nema samanrekinn kjarni, óskaplega
þéttur í sér. Sólin er þá orðin hvít dvergstjarna, áþekk jörðinni að stærð
þótt efnismagnið verði um helmingur þess sem nú er í sólinni. Hve langt verður
þangað til er erfitt að segja með fullri vissu, en 10 milljarðar ára eru
sennilega ekki fjarri lagi. Á brunninni jörð verður þá enginn til að sjá þessa
furðulegu dvergsól sem verður skínandi hvít, en ljósmagnið verður aðeins
þúsundasti hluti af því sem nú er. Þessari stærð mun sólin halda meðan hún
kulnar smátt og smátt og skilur loks jörðina og aðrar reikistjörnur eftir í
myrkrinu.
Myndin gefur hugmynd um stærðarhlutföll í þróunarsögu
sólar |
Nokkra fróðleiksmola til viðbótar er að finna
hér.
Þ.S. 17.4. 2016
|