Sólmyrkvar á Íslandi 700 - 2100 e. Kr.

I. Almyrkvar

    Eftirfarandi skrá sýnir alla almyrkva sólar sem orðið hafa (eða verða) á Íslandi á tímabilinu 700-2100 e.Kr. Um hvern myrkva er þess getið til hvaða staða hann hafi náð af þeim 41 sem taldir eru í skránni sem fylgir sólargangstöflunum í Almanaki Háskólans. Myrkvinn sem fór yfir landið árið 1339 snerti engan þessara staða, enda var breidd myrkvabeltisins aðeins 1-2 km.  Á þessum 1400 árum fannst enginn myrkvi á Hvammstanga, Blönduósi, Sauðárkróki, Hólum í Hjaltadal eða á Þingvöllum. Flestir voru myrkvarnir í Vestmannaeyjum, eða 7 talsins. Myrkvinn árið 1469 náði til flestra staða (21 af 41), en í það sinn var breidd skuggans 370 km. Nöfn staða eru að sjálfsögðu núverandi staðarheiti.

849
  25. maí.
Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur.

878  29. október.
Ólafsvík, Grindavík, Keflavík.

1077  25. febrúar. 
Patreksfjörður, Bolungarvík.

1131  30. mars. 
Stykkishólmur, Ólafsvík, Patreksfjörður, Ísafjörður, Bolungarvík Hólmavík.

1312  5. júlí. 
Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar.

1330  16. júlí.
Vestmannaeyjar, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

1339  7. júlí.
Hvalfjarðarmynni - Hestfjall - Mýrdalsjökull - Meðallandssandur.

1424  26. júní.
Vestmannaeyjar.

1433  17. júní.
Reykjavík, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

1469  9. júlí.
Hveravellir, Akureyri, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Selfoss, Þorlákshöfn.

1733  13. maí.
Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður.

1833  17. júlí.
Hveravellir, Reykjahlíð, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Selfoss, Þorlákshöfn.

1851  28. júlí.
Grímsey, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður.

1954  30. júní.
Vík, Vestmannaeyjar.

2026  12. ágúst.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Stykkishólmur, Ólafsvík, Patreksfjörður Ísafjörður, Bolungarvík, Grindavík, Keflavík.
 
   Við útreikning myrkvanna var aðallega stuðst við tvö forrit sem belgíski stjörnufræðingurinn Jean Meeus lét góðfúslega í té og byggja á nýjustu gögnum um gang tunglsins. Það sem helst gæti valdið skekkju í útkomunum eru breytingar í snúningi jarðar. Þær breytingar eru vel þekktar aftur til 1600, en óvissan eykst þegar farið er lengra aftur í tímann. Verður þá að styðjast við frásagnir af því hvar á jörðinni sólmyrkvar hafi sést. Myrkvar eru reiknaðir í almanakstíma, sem er óháður snúningi jarðar, en til þess að vita hvar á jörðinni ferillinn liggur þurfa menn að vita hvernig jörðin snýr við sólu þegar myrkvinn fer yfir. Það jafngildir því að þekkja svonefndan heimstíma sem klukkur eru stilltar eftir. Gangur heimstímans er breytilegur vegna flóðhrifa tungls og sólar sem hægja smám saman á jarðsnúningnum. Sem stendur (2010) er mismunur almanakstíma og heimstíma 67 sekúndur. Ef við tökum myrkvann 1339 sem dæmi, er reiknað með því að mismunurinn á þeim tíma hafi verið 413 sekúndur. Staðalóvissa í þeirri tölu, svonefnd staðalskekkja, er áætluð 20 sekúndur. Slík skekkja myndi valda því að ferillinn lægi 2 km norðar eða sunnar en útreikningarnir gáfu til kynna. Um það bil þriðjungs líkur eru á því að skekkjan sé jöfn eða meiri en staðalskekkjan.

II. Hringmyrkvar     

   Hér verða taldir allir hringmyrkvar sem farið hafa yfir landið á sama tímabili. Þeir myrkvar eru 18 talsins, nokkru fleiri en almyrkvarnir, sem voru 15, en meiri munur kemur fram í því að hringmyrkvarnir sjást frá stærri svæðum, jafnvel frá landinu öllu.

807  11. febrúar.
Allt landið.

818  7. júlí.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Stykkishólmur, Ólafsvík, Hólmavík, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

979  28. maí.
Ísafjörður, Bolungarvík, Hólmavík, Blönduós, Sauðárkrókur, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Reykjahlíð, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafjörður.

1093  23. september.
Stykkishólmur, Patreksfjörður, Ísafjörður, Bolungarvík, Hólmavík, Hvammstangi, Blönduós, Hveravellir, Höfn, Kirkjubæjarklaustur.

1147  26. október.
Borgarnes, Stykkishólmur, Hólmavík, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Skálholt, Þingvellir.

1234  1. mars.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Hvammstangi, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Dalvík, Akureyri, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

1245  25. júlí.
Stykkishólmur, Ólafsvík, Patreksfjörður, Ísafjörður, Bolungarvík, Hólmavík, Grímsey.

1355  14. mars.
Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

1364  4. mars.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Stykkishólmur, Ólafsvík, Hólmavík, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík,

1411  19. ágúst.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Stykkishólmur, Ólafsvík, Patreksfjörður, Ísafjörður, Bolungarvík, Hólmavík, Hvammstangi, Þingvellir, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

1453  30. nóvember.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

1547  12. nóvember.
Allt landið.

1656  26. janúar.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Hólmavík, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík.

1710  28. febrúar.
Hveravellir, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur.

1791  3. apríl.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Stykkishólmur, Ólafsvík, Patreksfjörður, Ísafjörður, Bolungarvík, Hólmavík, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Siglufjörður, Ólafsfjörður, Dalvík, Akureyri, Grímsey, Reykjahlíð, Húsavík, Raufarhöfn, Þórshöfn, Vopnafjörður, Egilsstaðir, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

1793  5. september.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Stykkishólmur, Ólafsvík, Patreksfjörður, Ísafjörður, Bolungarvík, Hólmavík, Hvammstangi, Blönduós, Sauðárkrókur, Hveravellir, Hólar, Dalvík, Akureyri, Reykjahlíð, Egilsstaðir, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

2003  31. maí.
Allt landið. Lýsingu á myrkvanum er að finna á eftirfarandi vefsíðum:
http://www.almanak.hi.is/myrkv03.html
http://www.almanak.hi.is/myrkmynd.html

 2048  11. júní.
Reykjavík, Akranes, Borgarnes, Ólafsvík, Hveravellir, Djúpivogur, Höfn, Kirkjubæjarklaustur, Vík, Vestmannaeyjar, Hvolsvöllur, Skálholt, Þingvellir, Selfoss, Þorlákshöfn, Grindavík, Keflavík.

    Myrkvarnir árin 807 og 1547 eru þeir víðfeðmustu sem um getur á jörðinni frá árinu 1 f. Kr. til ársins 3000 e.Kr. Lágmarksbreidd þess svæðis sem myrkvinn náði til  var 1389 km í fyrri myrkvanum en 1546 km í hinum síðari.  Þetta eru niðurstöður útreikninga sem Jean Meeus birti í bók sinni Mathematical Astronomy Morsels IV (2007). Myrkvann 1547 vantar í lista yfir helstu sólmyrkva á Íslandi sem birtist í Almanaki Háskólans árið 1953, en sá listi náði yfir tímabilið 700-1800 e. Kr. Í þeim lista var þess ekki getið hvar á landinu myrkvarnir hefðu sést, enda afar seinlegt að reikna slíkt áður en tölvuöldin gekk í garð og óvissan í reiknigögnum meiri þá en nú. 

 

Þ.S.  8. 2. 2010. Viðbót 14. 9. 2012

Almanak Háskólans