Sólarhlið húsa
Víða gætir þess misskilnings að sólin
sé alltaf jafn lengi að ganga milli tveggja höfuðátta. Leiðbeiningar um
notkun úrs sem áttavita styðjast oft við þessa
hugmynd. Þá standa víða um land útsýnisskífur sem eiga jafnframt að vera
sólúr. Upp úr skífunni miðri stendur lóðréttur stafur sem varpar skugga
út að rönd. Á röndinni eru klukkustundirnar merktar með jöfnu millibili
þannig að talan 6 er vestast á skífunni, 12 nyrst en 18 austast. Þarna
er gengið út frá því að sólin sé alltaf sex stundir að ganga frá austri
til suðurs og aðrar sex að ganga frá suðri til vesturs. Hversu fjarri
þetta er réttu lagi sést á eftirfarandi töflu sem sýnir tímalengdina á
mismunandi árstímum. Taflan er reiknuð fyrir 65° norðlægrar breiddar og
gildir því um mitt Ísland.
1. jan. |
6t 46m* |
16. jan. |
6t 41m* |
1. febr. |
6t 33m* |
16. febr. |
6t 23m* |
1. mars |
6t 14m* |
16. mars |
6t 03m* |
1. apríl |
5t 51m |
16. apríl |
5t 41m |
1. maí |
5t 31m |
16. maí |
5t 23m |
1. júní |
5t 16m |
16. júní |
5t 14m |
21. júní |
5t 13m |
1. júlí |
5t 14m |
16. júlí |
5t 18m |
1. ágúst |
5t 25m |
16. ágúst |
5t 34m |
1. sept. |
5t 45m |
16. sept. |
5t 55m |
1. okt. |
6t 06m* |
16. okt. |
6t 17m* |
1. nóv. |
6t 28m* |
16. nóv. |
6t 36m* |
1. des. |
6t 43m* |
16. des. |
6t 46m* |
21. des. |
6t 47m* |
(Þegar tímalengd er merkt með stjörnu
táknar það að sólin sé undir sjónbaug þegar hún er í austri eða vestri.)
Þarna
sést að tíminn sem líður frá því að sól er í suðri þar
til hún er í vestri er breytilegur, allt frá 5 stundum og 13
mínútum upp í 6 stundir 47 mínútur ef miðað er við mitt
Ísland.
Hið sama gildir um tímann sem líður frá því að sól er í austri þar til
hún er í suðri svo að óþarft er að ræða það sérstaklega.
Á sumarsólstöðum, þegar sól er hæst á himni, tekur það
hana skemmstan tíma að komast úr suðri í vestur. Eftir að
sólin er komin í vestur líður svo umtalsverður tími þar til
hún gengur til viðar. Á þeim tíma getur hún skinið á
norðurhlið húsa, og gefur það tilefni til þeirra hugleiðinga
sem hér fara á eftir.
Flestir vita að á norðurhveli jarðar skín sól að jafnaði meira á suðurhlið húsa
en norðurhliðina.
Fæstir munu þó hafa gert sér grein fyrir því að þessi
vísdómur gildir ekki á öllum árstímum, og að þetta fer mjög
eftir landfræðilegri breidd staðarins.
Meðfylgjandi línurit sýnir
skiptingu sólskins milli suðurhliðar og norðurhliðar húss
á mismunandi breiddargráðum á sumarsólstöðum.
Dagurinn allur, frá
sólaruppkomu til sólarlags, telst alls staðar 100 einingar á myndinni.
Hið fyrsta sem athygli vekur er að
allt frá miðbaug jarðar norður að hvarfbaug
(23½° N) skín
sól alls ekki á suðurhlið húsa á sumarsólstöðum. Þetta verður skiljanlegt þegar
menn hugleiða að á þessum árstíma er sólin beint yfir
hvarfbaug nyrðri. Séð frá stöðum sunnan við þann baug kemur
sólin upp norðan við austur, er í norðri á hádegi og sest
norðan við vestur. Suðurhlið húsa á þessum slóðum er
því stöðugt í skugga.
Ef við færum okkur lítið eitt norður fyrir hvarfbaug nær sólin að
skína á suðurhlið húsanna, en þó aðeins um hádegisbilið.
Eftir því sem við förum lengra til norðurs lengist tíminn
sem sólin nær að skína á suðurhliðina uns að því kemur að
sólin er jafn lengi sunnan við húsið eins og norðan við það.
Útreikningur sýnir að þetta gerist við 37° norðlægrar
breiddar. Þegar haldið er lengra til norðurs vex sólartíminn
enn á suðurhliðinni þar til hámarki er náð, við 51° N. Við
það breiddarstig skín sól um það bil 27% lengur á
suðurhliðina en norðurhliðina.
Norðan við 51° N fer norðurhliðin að vinna á uns hún
hefur náð jafnlöngum sólskinstíma og suðurhliðin. Það gerist
nálægt 63,5° N sem er svipað breiddarstig og syðsti hluti
Íslands er á. Þar fyrir norðan og allt norður á heimskaut
hefur norðurhliðin vinninginn. Hæsta hlutfallstalan
norðurhliðinni í vil fæst í grennd við heimskautsbauginn, en
þar
skín sól um 27% lengur á norðurhlið húsa en
suðurhliðina. Þegar dregur að heimskautinu jafnast lýsingin
svo til alveg á báðar hliðar. Heimskautið sjálft er óræður
punktur í þessu samhengi því að þar myndu allar hliðar húss
snúa í suður.
Það leiðir af því sem hér hefur verið sagt, að um
sumarsólstöður geta Íslendingar notið sólar ívið lengur við
norðurhlið húsa sinna en við suðurhliðina. Á breiddarstigi Reykjavíkur er þessi tími
þrjár vikur, en á breiddarstigi Akureyrar er tíminn nær tvöfalt lengri.
Rétt er að undirstrika að þetta gildir aðeins í takmarkaðan tíma um
hásumarið. Á öðrum árstímum hefur suðurhliðin vinninginn svo að
samanlagður sólskinstími yfir árið er meiri sunnanmegin húsa en
norðanmegin, hérlendis sem annars staðar á norðurhveli jarðar.
Í Reykjavík skiptist sólskinið milli
suðurhliðar og norðurhliðar í hlutföllunum 75% og 25% yfir
árið. Við heimskautsbaug eru hlutföllin 71% og 29%.
(Úr Almanaki Háskólans 1998 með lítilsháttar
breytingum)
Þ.S. júní 2009. Smávægileg viðbót í júlí
2022. |