Þorsteinn Sæmundsson:

Sitt af hverju um sólargang

Erindi fyrir framhaldskólakennara, flutt í Odda 18. ágúst 1987

1. Um sólargang á norðurpól

Nú er kominn ágúst og senn líður að höfuðdegi, en hann er 29. ágúst svo sem kunnugt er. Undanfarin ár hefur það verið nokkurn veginn föst regla í ríkisútvarpinu að fræða hlustendur um þennan dag, og er þá að sjálfsögðu minnst á þá gömlu þjóðtrú, að breyting verði á veðurfari um höfuðdaginn. Til skýringar á þessu fyrirbæri hefur gjarna verið vitnað í bók eftir kunnan íslenskan fræðimann, en þar segir, að um höfuðdag sé sólin um það bil að setjast á norðurpólnum, og sé ekki ólíklegt að það hafi áhrif á veðurfarið. Hér skal ekki tekin afstaða til þess hvort þjóðtrúin um höfuðdaginn hefur við rök að styðjast, né hins, hvort líklegt sé að sólargangur á norðurpólnum komi þar við sögu. En örlitla athugasemd vildi ég gera við þá staðhæfingu að sól setjist á norðurpólnum um höfuðdag. Þar gætir nokkurrar ónákvæmni svo að ekki sé meira sagt.

Eins og flestum mun kunnugt er sólargangur við norðurpól (og reyndar suðurpól líka) með öðrum hætti en annars staðar á jörðinni, því að annan helming ársins er sólin stöðugt á lofti og sest ekki, en hinn helming ársins er sólin undir sjóndeildarhring og kemur ekki upp. Sólarupprás er því aðeins einu sinni á ári, nálægt jafndægrum á vori, og sólsetur einu sinni á ári, nálægt jafndægrum á hausti, meira en þremur vikum eftir höfuðdag. En þar með er ekki öll sagan sögð.

Ef ekki gætti ljósbrots í andrúmsloftinu myndi miðja sólar hverfa niður fyrir láréttan sjóndeildarhring á norðurpólnum nákvæmlega á haustjafndægrum, þ.e. hinn 23. september kl. 13 45 ef miðað er við þetta ár (1987). Hér þarf þó strax að gera smávægilega leiðréttingu, því að jafndægur ákvarðast af stöðu sólar á himinhvolfinu eins og hún myndi sjást frá miðju jarðar. Séð frá norðurpólnum gætir hliðrunar sem veldur því að sólin sýnist tæpum 9 bogasekúndum neðar á himninum, og fyrir vikið hverfur hún 9 mínútum fyrr.

Í reyndinni er ólíklegt að sólin hyrfi sjónum manns sem staddur væri á norðurpólnum einmitt á þessari stundu. Til þess liggja þrjár ástæður. Sú mikilvægasta er ljósbrotið, sem veldur því að himinhnettir sýnast hærra á lofti en ella. Ljósbrotið er háð hitastigi og loftþrýstingi, en ekki mun fjarri lagi að áætla, að það nemi að jafnaði um 39 bogamínútum við jafndægur á norðurskautinu. Um þetta leyti árs lækkar sól á himni á norðurskautinu um sem næst eina bogamínútu á klukkustund. Vegna ljósbrotsins seinkar því sólarlaginu um 1,7 sólarhringa.

Í öðru lagi er þess að gæta að sólin er ekki punktur, heldur sjáum við hana sem kringlu sem er alllengi að hverfa niður fyrir sjóndeildarhring. Þvermál sólkringlunnar við jafndægur er 32 bogamínútur, og af því leiðir að sólin er 1,4 sólarhringa að setjast. Frá því að miðja sólar sýnist nema við sjóndeildarhring þar til sólin hverfur að fullu líður helmingur þess tíma eða 0,7 sólarhringar.

Í þriðja lagi skiptir það máli hvort athugandinn er við sjávarmál eða hærra uppi. Eftir því sem hærra er klifrað sýnist sjóndeildarhringurinn neðar og sólin hærra á lofti miðað við hann. Þessi lækkun sjóndeildarhrings nemur 1,8 bogamínútum við eins metra hæð frá sjávarmáli og 18 bogamínútum við 100 metra hæð (áhrifin eru í réttu hlutfalli við kvaðratrót hæðarinnar). Þar eð ekki er um fjöll að ræða á norðurpólnum er þessi þáttur veigaminnstur, en getur þó seinkað sólsetri um nokkrar klukkustundir.

Af því sem hér hefur verið sagt má draga þá ályktun að sól byrji að setjast á norðurpólnum um það bil sólarhring eftir haustjafndægur og hverfi að fullu um það bil 2½ sólarhring eftir jafndægrin. Árið 1987 ætti sólin því að hverfa aðfaranótt hins 26. september, réttum 4 vikum eftir höfuðdag. Hér er reiknað með meðalskilyrðum, en af frásögnum heimskautafara er vitað að ljósbrotið í andrúmsloftinu getur verið allbreytilegt á þessum norðlægu slóðum, þannig að sólin á það til að gægjast upp aftur um stund, öllum að óvörum, eftir að hún hefur verið kvödd að hausti.

Oft er svo til orða tekið að á norðurpólum skiptist árið til helminga milli dags og nætur. Þetta er þó ekki nákvæmlega rétt, eins og ljóst ætti að vera af því sem þegar hefur verið sagt. Í fyrsta lagi veldur ljósbrotið í andrúmsloftinu því, að dagurinn lengist um 2 x 1,7 = 3,4 sólarhringa á kostnað næturinnar. Stærð sólkringlunnar lengir síðan daginn um 1,4 sólarhringa til viðbótar. Öllu þyngra vegur þó sú staðreynd, að jörðin fer hægast á braut sinni um sólu þegar sumar er á norðurhveli jarðar, þ.e. þegar dagur er á norðurpólnum, og lengir það daginn þar enn sem nemur um 7,6 sólar- hringum. Samtals verða þetta 12½ sólarhringur eða þar um bil sem dagurinn er lengri en nóttin á norðurpólnum.

Nú er það engan veginn svo, að myrkur sé skollið á um leið og sól hverfur undir sjóndeildarhring. Venjulega er talið að rökkri ("almannarökkri") ljúki og myrkur hefjist þegar sólmiðjan er komin 6 gráður undir láréttan sjóndeildarhring. Miðað við þessa skilgreiningu má segja að bjart sé við norðurskaut nær 60% af árinu. Árið 1987 varir birtan þar frá 5. mars til 9. október, en vegna hlaupáranna geta þessar dagsetningar hnikast til lítið eitt frá ári til árs.

2. Hlutfall birtu og myrkurs á norðurhveli

Munurinn á fjölda birtustunda og myrkurstunda í árinu er ekki bundinn við norðurpólinn, heldur gætir hans alls staðar á jörðinni. Þetta kemur glöggt fram á 1. mynd, sem sýnir heildarfjölda birtustunda á ári og meðalfjölda birtustunda á sólarhring á mismunandi breiddargráðum norðlægrar breiddar (samfellda línan) og suðlægrar breiddar (brotna línan).


1. mynd

Athygli vekur að birtustundir á suðurhveli eru nokkru færri miðað við sömu breiddargráður. Þetta stafar af misjöfnum brautarhraða jarðar um sólu sem fyrr er getið, en sá mismunur veldur því að sól dvelur lengur yfir norðurhveli jarðar en yfir suðurhvelinu. Munurinn er mestur við heimskautin og nemur þar tæplega 4%.

Á myndinni kemur fram að heildarbirtutíminn nær hámarki nálægt þeirri breidd sem Ísland er á, nánar tiltekið við 69 breiddargráðu. Meðallengd birtutímans er þar 15,1 stund á sólarhring. Við 65. breiddarbaug (sem liggur þvert yfir Ísland) er birtutíminn að meðaltali 14,9 stundir. Við miðbaug er hann skemmstur, aðeins 12,8 stundir. Þetta eru ársmeðaltöl. Ef við lítum á það hvernig birtutíminn breytist yfir árið hér á Íslandi, sýna útreikningar að á jafndægrum er birtutíminn aðeins 13,8 stundir á sólarhring, sem er langt undir ársmeðaltalinu. Það er því ekki rétt, sem sumir virðast halda, að við töpum birtu í skammdeginu til jafns við það sem sem unnist hefur á björtum sumarnóttum; vinningurinn er mun meiri en tapið.

Þótt birtutíminn í heild sé skemmstur við miðbaug eins og myndin sýnir, er ekki þar með sagt að myrkur vari þar lengst á öllum árstímum. Öðru nær. Aðeins tvo daga á ári, um jafndægur að vori og hausti, varir myrkrið lengst við miðbaug. Á öllum öðrum tímum varir myrkur lengur annars staðar á jörðinni. Þetta er auðskilið ef við hugsum til þess að um háveturinn hlýtur lengsti myrkurtíminn að vera við norðurskaut og þar um kring, því að þá er dimmt þar allan sólahringinn. Hið sama gildir við suðurskautið þegar vetur er þar. En um nokkurt skeið að vori og hausti er stöðug birta á báðum heimskautum í senn, og þá sýna útreikningar að lengsti myrkurtími er á öðrum breiddarstigum. Hvert breiddarstigið er má finna eftir einfaldri formúlu:

sin b = sin d/cos 96°

þar sem b er breidd staðarins og d stjörnubreidd sólar.

Á aðeins einum mánuði, frá 5. mars til 5. apríl eða þar um bil, færist lengsti myrkurtíminn frá norðurskauti yfir miðbaug til suðurskauts. Á tímabilinu frá 7. september til 8. október færist hann svo aftur frá suðurskauti til norðurskauts. Af þessu leiðir að hámarkið fer tvisvar á ári yfir hvern breiddarbaug, og er miðbaugur þar meðtalinn. Þar er hámarkið um jafndægur, en á Íslandi er það sem næst 7. mars og 7. október. Þá daga er lengur myrkur á breiddarstigi Íslands en annars staðar á jörðinni. Hér er þó ekki um skarpt hámark að ræða eins og sjá má á mynd nr. 2.

2. mynd

Hér hefur verið rætt um hámarkið í myrkurtíma. Einhver kynni að spyrja um tilsvarandi hámark í birtutíma, þ.e. hvort finna megi á hverjum árstíma breiddarstig þar sem birtan varir lengur en annars staðar á jörðinni. Svarið er neitandi, því að í kringum það heimskautið, sem hallar að sólu, er að jafnaði stórt svæði, þar birtan helst allan sólarhringinn. Um jafndægrin, þegar birtan er að flytjast af öðru heimskautinu yfir á hitt, er samfelld birta í mánaðartíma á báðum skautum, sbr. það sem fyrr er sagt. Hámarkið er því aldrei bundið við eitt breiddarstig, heldur stærri svæði.

3. Um sólarhlið húsa

Meðal almennings verður stöku sinnum vart við þann misskilning að sól sé í suðri og hæst á lofti klukkan 12 á öllum stöðum og árstímum. Ég hygg þó, að slíkur misskilningur sé sjaldgæfari á síðari árum, eftir að miðtími Greenwich var gerður að staðaltíma hér á landi. Nú munu flestir Reykvíkingar vita að sól er í suðri í Reykjavík um klukkan hálf tvö, þótt færri viti kannski hvernig þetta breytist yfir árið.

Hitt er enn útbreiddur misskilningur að auðvelt sé að nota sólina sem áttavita því að hún sé alltaf sex stundir að ganga frá suðri til vesturs, svo að dæmi sé tekið. Ég hef orðið var við þennan misskilning hjá mörgu menntuðu fólki, sem ætti að vita betur, s.s. veðurfræðingum, verkfræðingum og arkitektum. Víða um land standa útsýnisskífur, sem opinberir aðilar hafa látið setja upp og eiga jafnframt að vera sólúr. Upp úr skífunni miðri stendur lóðréttur stafur sem varpar skugga út að rönd, en þar eru klukkustundirnar merktar með jöfnu millibili þannig að talan 12 er nyrst á skífunni, 6 vestast en 18 austast. Hversu fjarri lagi þetta er sést á töflu, sem birt er í Almanaki háskólans á þessu ári. Þar kemur fram að tíminn sem líður frá því að sól er í suðri og þar til hún er í vestri, svo að dæmi sé tekið, er breytilegur, allt frá 5 stundum og 13 mínútum upp í 6 stundir 47 mínútur ef miðað er við mitt Ísland.

Á sumarsólstöðum, þegar sól er hæst á himni, tekur það hana skemmstan tíma að komast úr suðri í vestur. Eftir að sól er komin í vestur líður svo umtalsverður tími þar til hún gengur til viðar. Á þeim tíma getur sólin skinið á norðurhlið húsa, og það gefur tilefni til þeirra hugleiðinga, sem hér fara á eftir.

Alkunna er að sól skín að jafnaði meira á suðurhlið húsa en norðurhliðina, þ.e.a.s. á norðurhveli jarðar. Fæstir munu þó hafa gert sér grein fyrir því, að þessi vísdómur gildir ekki á öllum árstímum, og að þetta fer mjög eftir breidd staðarins. Lítum aðeins á formúlur í þessu sambandi. Þegar sól er að setjast er tímahorn hennar, h0, gefið með formúlunni

cos h0 = (cos 90,86° - sin b  · sin d)/(cos b · cosd)

Þarna er miðað við efri brún sólar og tekið tillit til ljósbrots í andrúmsloftinu. Ef h er í gráðum, er sól á lofti 2 x h0/15 klukkustundir.

Sólin flytur sig frá suðurhlið húss yfir á norðurhlið þegar hún er nákvæmlega í vestri. Þetta gerist þegar tímahornið er hv sem fæst úr formúlunni

cos hv = tan d/tanb

Tíminn sem sólin skín á suðurhliðina, settur fram sem hlutfall af heildartímanum á báðar hliðar, er því einfaldlega hv/h0

Þetta hlutfall er að sjálfsögðu háð hvoru tveggja, breidd staðarins (b) og stjörnubreidd sólar (d). Ef við tökum sumarsólstöður, þegar d hefur hæsta gildi, og athugum hvernig hlutfallið breytist með breiddarstigi athugunarstaðar, fáum við meðfylgjandi línurit (mynd nr. 3).

3. mynd

Hið fyrsta sem athygli vekur við þetta línurit er það að frá miðbaug norður að 23½° N er hlutfallið 0%, þ.e. sólin skín allan daginn á norðurhliðina. Þetta verður skiljanlegt þegar menn hugleiða að á þessum árstíma er sólin beint yfir hvarfbaug nyrðri og er því á norðurhimni séð frá öllum stöðum fyrir sunnan þann baug. Suðurhlið húsa á þessum breiddargráðum er því stöðugt í skugga.

Ef við færum okkur norður fyrir hvarfbaug fer sól að ná til að skína á suðurhlið húsa, en þó aðeins um hádegisbilið. Eftir því sem við förum lengra til norðurs, lengist sá tími sem sólin nær að skína á suðurhliðina, uns þar kemur að sólin er jafn lengi sunnan við húsið eins og norðan við það. Útreikningur sýnir að þetta gerist við 37° norðlægrar breiddar. Þegar haldið er lengra til norðurs vex sólartíminn enn á suðurhliðinni þar til hámarki er náð, við 51° N. Við það breiddarstig skín sól u.þ.b. 30% lengur á suðurhliðina en á norðurhliðina á sumarsólstöðum.

Norðan við 51° N fer norðurhliðin að vinna á, uns hún hefur náð jafnlöngum sólskinstíma og suðurhliðin. Það gerist nálægt 63,5° N, þ.e. á svipuðu breiddarstigi og syðsti hluti Íslands. Þar fyrir norðan og allt norður á heimskaut hefur norðurhliðin vinninginn. Hæsta hlutfallstalan norðurhliðinni í vil fæst í grennd við heimskautsbauginn, en þar skín sól um 30% lengur á norðurhliðina en suðurhliðina. Þegar dregur að heimskautinu jafnast lýsingin svo til alveg á báðar hliðar. Heimskautið sjálft er óræður punktur í þessu samhengi, því að þar myndi hús ekki hafa neina norðurhlið, heldur myndu allar hliðarnar snúa í suður.

Það leiðir af því sem hér hefur verið sagt, að um sumarsólstöður á Íslandi geta landsmenn notið sólar ívið lengur við norðurhlið húsa sinna en við suðurhliðina. Rétt er að undirstrika, að þetta gildir aðeins um hásumarið. Á öðrum árstímum hefur suðurhliðin vinninginn. Sömuleiðis gildir það um alla staði á norðurhveli jarðar, að samanlagður sólskinstími yfir árið er meiri sunnanmegin húsa en norðanmegin. Á Íslandi (við 65° N) skiptist sólskinið milli suðurhliðar og norðurhliðar í hlutföllunum 74% og 26%. Ef aðeins eru teknir sumarmánuðirnir (frá vorjafndægrum til haustjafndægra) er skiptingin 64% og 36%, suðurhliðinni í vil.

4. Hve stórt er hænufetið?

Þegar sól fer að hækka á lofti eftir vetrarsólhvörf og daginn að lengja, er stundum sagt, að munurinn nemi hænufeti á dag. Þessarar sérstöku merkingar orðsins hænufet er m.a. getið í Orðabók Menningarsjóðs. En hversu stórt skyldi nú hænufetið vera? Á liðnum árum hefur það komið fyrir, bæði í útvarpi og sjónvarpi, að menn hafa vitnað í almanakið og talið að hænufetið myndi nema einni mínútu, því að sólargangur í Reykjavík lengdist um mínútu fyrsta daginn eftir vetrarsólhvörf. Hér gætir nokkurs misskilnings í túlkun á sólargangstöflum almanaksins. Tölurnar í töflunum eru gefnar upp á heila mínútu. Ef reiknuð niðurstaða er mjög nálægt því að standa á hálfri mínútu, þarf lítið til að breyta tölunni í töflunni - jafnvel sekúndubrot gæti ráðið úrslitum um, hvort sólsetur teldist kl. 15 30 eða kl. 15 31 svo að dæmi sé tekið. Ef sólseturstíminn breytist úr 15 30 í 15 31 í töflunum en sólarupprás helst á sama tíma, merkir það ekki endilega að sólargangurinn hafi lengst um heila mínútu og sannar jafnvel ekki að lenging hafi átt sér stað, því að færsla á hádegistímanum hefur líka áhrif á sólarupprás og sólarlag.

Til þess að ganga úr skugga um hve mikið sólargangurinn lengist fyrst eftir vetrarsólstöður, verður að reikna með sekúndunákvæmni. Í ljós kemur að niðurstaðan fer mjög eftir breidd staðarins, en einnig er hún breytileg frá ári til árs þótt á sama stað sé. Ástæðan er sú að sólstöðurnar ber ekki alltaf upp á sama tíma sólarhringsins. Ef sólstöður eru t.d. undir lok sólstöðudags verður mjög lítill munur á lengd sólargangs þess dags og hins næsta. Mestur verður munurinn ef sólstöðurnar eru mjög snemma á degi. Þær tölur sem hér fara á eftir miðast við að sólstöður beri upp á miðjan dag (hádegið). Á fyrsta sólarhring frá sólstöðum hækkar sól á himni um 13 bogasekúndur eða þar um bil. Næsta sólarhring á eftir hækkar hún um 40" og þar næsta sólahring um 67". Ef við reiknum áhrif þessa á lengd sólargangs í Reykjavík kemur í ljós að fyrsta daginn eftir sólstöður lengist sólargangurinn um 8 sekúndur. Annan daginn lengist hann um aðrar 25 sekúndur, og þriðja daginn um 42 sekúndur. Þetta eru sem sagt "hænufetin" í Reykjavík. Á Akureyri er fyrsta hænufetið 12 sekúndur, hið næsta 35 sekúndur og hið þriðja 58 sekúndur. Eins og sjá má, fara tölurnar ört hækkandi, en mismunatölur þeirra eru jafnar.

5. Hvenær eru jafndægur og sólstöður?

Það virðist vera útbreidd skoðun að jafndægur og sólstöður beri yfirleitt upp á 21. dag mánaðar, og að það sé nánast undantekning að dagsetningin sé önnur. Ekki þarf að líta í mörg almanök til að sannfærast um, að þessu muni á annan veg farið. En til þess að fá fullkomið yfirlit um það hvernig þessu er háttað, þyrfti fleiri almanök en almenningi eru tiltæk. Því er ekki úr vegi að fara um þetta nokkrum orðum.

Aðalástæðan fyrir því að jafndægur og sólstöður eru ekki á föstum mánaðardögum eru reglurnar um hlaupár sem notaðar eru til að laga almanaksárið að árstíðaárinu. Árstíðaárið er að meðaltali 365,2422 dagar, þ.e. broti úr degi lengra en venjulegt almanaksár. Þetta veldur því að jafndægrum og sólstöðum seinkar sem þessu nemur frá einu ári til þess næsta, allt þar til leiðrétting er gerð með því að skjóta inn degi í hlaupári. Þá færast jafndægur og sólstöður aftur á svipaðan dag og tíma, en þó munar nokkru vegna þeirrar skekkju sem leiðréttist á aldamótum með niðurfellingu hlaupára. Hlaupársöldin í gregoríanska tímatalinu er 400 ár. Að þeim tíma liðnum verða jafndægur og sólstöður sem næst þeim degi og þeirri stundu sem þau féllu á 400 árum fyrr. Þetta endurtekur sig síðan aftur og aftur.

Meðfylgjandi mynd (nr. 4) sýnir hvernig jafndægur og sólstöður flytjast til á 400 ára tímabili. Ég hef valið tímabilið þannig að við séum nú, árið 1987, stödd nokkurn veginn í því miðju.

4. mynd

Í hverri 400 ára hlaupársöld er 200 ára tímabil þar sem engin niðurfelling hlaupársdags á sér stað á aldamótum. Eitt slíkt tímabil nær frá 1901 til 2099 (árið 2000 verður venjulegt hlaupár). Við upphaf slíks tímabils, á undan fyrsta hlaupárinu, ættum við að finna jafndægur og sólstöður eins seint í árinu og hugsast getur, en undir lok tímabilsins, á síðasta hlaupárinu, ættu jafndægur og sólstöður að vera með allra fyrsta móti. Á yfirstandandi hlaupársöld er þessi markatilfelli að finna árin 1903 og 2096. Dagsetningarnar í þessum árum eru sem hér segir:

           Mars           Júní           Sept.           Des.

1903     21,80          22,63         24,24          23,01
2096     19,59          20,27         21,96          20,87

Meðaldagsetningarnar á þessum 400 árum eru samkvæmt mínum útreikningum:

Mars            Júní           Sept.           Des.
20,7             21,5           23,1            21,9

Þá er komið að mikilvægri spurningu: Eru þessar meðaldagsetningar fastar um alla framtíð? Fara dagsetningarnar nákvæmlega í sömu skorður að lokinni 400 ára hlaupársöld? Þessari spurningu er svarað í mörgum kennslubókum og ævinlega á einn veg. Bent er á, að meðallengd árstíðaársins (hvarfársins) sé 365,2422 dagar, en meðallengd hins gregoríanska almanaksárs sé 365,2425 dagar þegar hlaupársreglurnar séu teknar með í reikninginn. Mismunurinn sé 0,0003 dagar (um 24 sekúndur), en sá mismunur muni valda því, að jafndægur og sólstöður færist til um 1 dag á 3000 árum, ef ekki sé að gert.

Þessi staðhæfing er villandi, ef ekki beinlínis röng. Staðreyndin er sú, að bæði lengd árstíðaársins og lengd sólarhringsins eru breytilegar stærðir. Því er fjöldi daga í árinu líka breytileg stærð, þegar til lengri tíma er litið, og engin föst hlaupársregla gæti endurspeglað þessar breytingar. Fleiri atriði hafa þarna áhrif. Til dæmis fer jörðin hraðar á braut sinni þegar hún er næst sól heldur en þegar hún er fjærst. Þetta hefur áhrif á tímalengdir milli viðmiðunarpunkta í árinu t.d. dagafjöldann frá vorjafndægrum til haustjafndægra. Sem stendur er jörð næst sólu í janúar, en dagsetningin breytist með tímanum, aðallega vegna pólveltu jarðar, sem veldur flutningi á viðmiðunarpunktunum fyrir jafndægur og sólstöður, en einnig er brautarásinn sjálfur á hægfara hreyfingu. Þá eru tímabundnar sveiflur í lögun jarðbrautarinnar, og þær valda aftur breytingum á hraða jarðar á mismunandi árstímum. Allt hefur þetta áhrif á það hvenær jafndægur verða og sólstöður. Á myndinni sjáum við þessi áhrif koma fram á þann hátt, að afstaða línanna hverrar til annarrar breytist smátt og smátt með tímanum.

Hvað gerist þegar lengra tímaskeið en 400 ár er skoðað? Sem stendur er árstíðaárið að styttast og sólarhringurinn að lengjast. Útreikningar sýna, að með sama áframhaldi ættu jafndægur og sólstöður smám saman að verða fyrr á ferðinni, Hraði breytingarinnar er ekki jafn, heldur fer hann vaxandi, og eftir 10000 ár mun færslan nema á að giska 10 dögum. Þetta vandamál verður væntanlega leyst með því að fækka hlaupárum, en hvenær það verður gert, skal ekkert fullyrt um.

 

Þ.S. 20.4. 2016

Forsíða