Þessi loftsteinn var á margan hátt sérstakur. Í fyrsta lagi var hann
óvenju bjartur, svo að sjónarvottum brá við þótt um dag væri. Í öðru
lagi virtist steinninn fara lárétt yfir en ekki skáhallt niður eins og
algengast er. Í þriðja lagi sást hann lengur en gengur og gerist, í allt
að 20 sekúndur. Fyrsta tilkynningin barst til Veðurstofu frá sjónarvotti, Helga Sigfússyni, sem staddur var í utanverðum Reyðarfirði. Lýsti hann þessu sem feikna stórum loftsteini sem farið hefði frá suðri til norðurs með slóð á eftir sér. Liturinn minnti á rafsuðubláma. Steinninn hvarf í ský yfir Oddsskarði. Næst birtist frásögn á vefnum Austurfrétt (www. austurfrett.is) . Þar lýstu sjónarvottar í Breiðdalsvík, Hrafnkell Hannesson og Gróa Jóhannsdóttir, blágrænu ljósi á mikilli ferð, rétt yfir fjöllum (sýndist jafnvel bera í fjöllin). Á báðum stöðum sást ljósið í 5 sekúndur eða svo og virtist hverfa bak við ský. Þá komu fréttir frá Höfn í Hornafirði. Þar hafði Ívar Smári Reynisson séð ljósið
lengur en hinir, í 15-20 sekúndur. Hafði hann séð ljósið fyrst yfir
Öræfajökli en það horfið bak við ský í um 8° hæð í stefnu 30° austan
við norður. Þessar tölur má ráða af ljósmynd sem Ívar Smári tók tveimur
dögum síðar
og setti merkingar inn á. Fleiri íbúar á Höfn urðu vitni að þessu. Lýsingar sjónarvotta nægja ekki til að reikna braut loftsteinsins með neinni nákvæmni, en líkur benda til að steinninn hafi sést fyrst suðvestan við Ísland, farið yfir miðhálendið og sprungið sunnan eða suðaustan við Jan Mayen. Hann hefur líklega verið nálægt 80 km hæð þegar hann sást fyrst, en verið kominn í 30 km hæð eða svo þegar hann hvarf. Meðalhraði hans á þessari leið hefur líklega verið um 60 km á sekúndu. Þetta hefur verið stór steinn eftir birtunni að dæma, hugsanlega um tonn að þyngd. Öllum þessum tölum ber að taka með fyrirvara.
|