Hvað er sekúnda?
 

Árið 1967 birti almanakið í fyrsta sinn yfirlit yfir helstu mælieiningar hins alþjóðlega einingakerfis.  Frá 1977 hefur þetta verið fastur liður í almanakinu, misjafnlega ítarlegur þó. Grein með fyrirsögninni  "Metrakerfið og hið alþjóðlega einingakerfi" hefur birst til skýringar nokkrum sinnum, síðast árið 1970. Í almanaki 2020 var sagt frá því að kílógrammið hefði verið skilgreint að nýju og var sú skilgreining felld inn í kaflann um mælieiningar.

Hér er ætlunin að fjalla um eina af þessum einingum. Sú eining hefur nokkra sérstöðu, því að hún er skilgreind með miklu meiri nákvæmni en aðrar einingar hins alþjóðlega kerfis og er jafnframt  þáttur, beinn eða óbeinn, í skilgreiningum allra annarra eininga.  Ólíkt öðrum einingum hefur hún aldrei átt hlutlæga (efnislega) samsvörun. Þessi eining er sekúndan. En hvað er sekúndan og hvernig varð hún til?

Nafnið "sekúnda" er komið úr latínunni "secundus" sem merkir næstur eða annar í röðinni. Í þessu tilviki er átt við skiptingu klukkustundanna. Er þá fyrsta skiptingin í mínútur en sú næsta í sekúndur. Að stundirnar í sólarhring eru 24 má rekja til Súmera og Babyloniumanna. Skipting stundanna í 60 mínútur og skipting mínútunnar í 60 sekúndur á upphaf sitt í reiknikerfi Súmera fyrir meira en fimm þúsund árum.

Fyrsta nútímaleg skilgreining  á sekúndunni var á þá leið að hún væri 1/86400 hluti úr sólarhring. Þar sem sólarhringarnir eru mislangir yfir árið skyldi miðað við meðaltalið.  Þessi skilgreining var látin nægja langt fram á 20. öld. Árið 1960 var ný skilgreining fest á blað: sekúndan skyldi vera 1/86400 úr árstíðaárinu eins og það var árið 1900. Til aðgreiningar frá eldri gildum var þessi nýja sekúnda nefnd almanakssekúnda (á ensku: ephemeris second). Gallinn við þessa skilgreiningu var sá, að hún var huglæg; engin leið var að framkalla sekúnduna með tækjum eftir þessari forskrift.  Á alþjóðaráðstefnu um mál og vog árið 1967 var samþykkt ályktun þess efnis að almanakssekúndan væri ónothæf sem mælieining. Sekúndan var þá skilgreind upp á nýtt sem 9192631770 stökktímar milli tveggja tiltekinna ástandsstiga í frumeindinni sesín 133.  Hugsanlegt er að skilgreiningunni verði síðar breytt því að ýmsir vísindamenn telja sig hafa fundið betri tímaviðmið í öðrum frumeindum og margar "atómklukkur" eru  orðnar nákvæmari en staðallinn sem skilgreiningin miðast við. Staðalklukkurnar eru undirstaðan að svonefndum samræmdum heimstíma (á ensku Coordinated Universal Time, skammstafað UTC),sem fylgt er um alla jörð í framhaldi af miðtíma Greenwich, sem var nafnið á tímaviðmiðinu fram til 1972.

Nú skyldu menn ætla að tíminn líði alls staðar jafn hratt, en svo er ekki. Afstæðiskenning Einsteins segir að rás tímans sé breytileg og tíminn líði hægar eftir því sem þyngdarsviðið er sterkara. Með nákvæmustu atómklukkum er þetta mælanlegt, og nægir að lyfta þeim upp um einn sentimetra til að greina muninn.  Í gervitunglunum sem stjórna GPS staðsetningarkerfinu ganga allar klukkur mun hraðar  en á jörðu niðri, og er nauðsynlegt að leiðrétta fyrir þeim mismun til að kerfið virki. Sekúndan sem skilgreind er með svo mikilli nákvæmni er því ekkert fastafyrirbæri.

Eftir að hinn samræmdi heimstími var tekinn í notkun kom fljótlega í ljós að gangur sólar fylgdi honum ekki nákvæmlega. Ástæðan er breytilegur snúningshraði jarðar. sem veldur örlitlum breytingum á lengd sólarhringsins.  Til að halda klukkunum við meðalsólarhringinn hefur reynst nauðsynlegt að skjóta inn aukasekúndum stöku sinnum. Frá 1972 hefur það verið gert 11 sinnum. Á síðustu árum hefur þessum leiðréttingum farið fækkandi.

Krafan um tímanákvæmni í daglegu lífi er seinni tíma þörf. Það var ekki fyrr en seint á 19. öld að venjulegar klukkur fengju mínútuvísi.  Stórt skref í þróun nákvæmrar klukku var stigið árið 1656 þegar Hollendingurinn Christiaan Huygens fann upp pendúlklukkuna. Upp frá því voru pendúlklukkur helsta tímaviðmiðið, bæði utan heimilis og innan.  Á fyrri hluta 20. aldar tóku rafdrifnar klukkur við þessu hlutverki í heimahúsum.  Árið 1927 var stórt skref stigið með smíði fyrstu kristalsklukkunnar, sem átti eftir að þróast næstu áratugi og náði til almennings á sjöunda áratug síðustu aldar.  Í kristalsklukkum er kvarskristall sem sveiflast háttbundið þegar rafspennu er hleypt á hann.  Fyrstu kristalklukkuna hér á landi smíðaði Björn Kristinsson verkfræðingur hjá fyrirtækinu Rafagnatækni sem hann stofnaði ásamt öðrum árið 1961. Þessi klukka var sérhönnuð til að tímasetja mælingar í segulmælingastöðinni í Leirvogi í Mosfellssveit og var í mörg ár nákvæmasta klukka á landinu. Til að halda sekúndunákvæmni  var klukkan leiðrétt handvirkt með hliðsjón af tímamerkjum sem stöðugt er útvarpað frá erlendum tímamerkjastöðvum.

Á þessum árum gat almenningur kannað hvað tímanum liði með því að hringja í símanúmerið 04 og heyrt kvenmannrödd tilkynna tímann með sekúndunákvæmni. Samanburður við kristalsklukkuna í Leirvogi leiddi fljótlega í ljós að símaklukkan 04 var langt frá því að vera áreiðanleg. Var þá tekinn upp sá háttur að fylgjast með 04 og tilkynna Pósti og síma þegar skekkjur keyrðu úr hófi. Síðar fékk sá sem þetta ritar því til leiðar komið að Póstur og sími bauð upp á sérstakt símanúmer, 11011, þar sem almenningur gat hlustað beint á erlenda tímamerkjastöð.  Það fyrirkomulag er auðvitað löngu úrelt. Nú hafa menn aðgengi að nákvæmum tíma í snjallsímum og snjallúrum gegnum GPS gervitunglakerfið. Rétt er þó að hafa hugfast, að tíminn sem þessi tæki sýna er ekki hárnákvæmur.  Algeng töf í tækjunum er ein sekúnda eða svo. Fæstir munu hafa áhyggjur af slíku. Til samanburðar má geta þess að klukkurnar sem fylgjast með heimstímanum (UTC) gera það með nákvæmni sem reiknast í milljarðabrotum úr sekúndu.


Þ.S.  27.3. 2023

 

  Forsíða