Um seinkun klukkunnar  

Komin er fram á Alþingi þingsályktunartillaga þess efnis að breytt verði skipan tímareiknings á Íslandi og klukkunni seinkað um eina klukkustund. (sjá hér). Tillaga sama efnis var flutt á þingi árið 2010. Til vara gera flutningsmenn þá tillögu, sem þeir kalla málamiðlun, að klukkunni verði aðeins seinkað að vetri til. Yrði þá komið á sama fyrirkomulagi og gilti hér á landi fyrr á árum, allt fram til ársins 1968.

Í sjálfu sér verður stilling klukkunnar alltaf málamiðlun því að sérhverri tilhögun fylgja bæði  kostir og ókostir. Þegar núgildandi lög um tímareikning voru sett árið 1968 var meginástæðan óánægja fólks með það sem kallað var hringlið með klukkuna. Markmiðið með lagasetningunni það ár var fyrst og fremst það að koma á föstum tíma allt árið. Skoðanakönnun leiddi í ljós að mun fleiri vildu hafa flýtta klukku ("sumartíma") en óbreytta ("vetrartíma"). Varð því niðurstaðan sú að klukkur skyldu stilltar eftir miðtíma Greenwich. Eftir breytinguna má segja að friður hafi ríkt um tímareikninginn í aldarfjórðung. Það er ekki fyrr en á síðustu árum að komið hafa fram raddir sem kalla á breytingu á ný. Má þar nefna þingsályktunartillögu árið 1994, frumvarp árið 1995 (endurflutt 1998 og 2000), og þingsályktunartillögur árin 2006, 2010 og nú síðast árið 2013. Þessum frumvörpum og tillögum fram til 2010 hafa verið gerð skil á vefsíðu Almanaks Háskólans:

http://www.almanak.hi.is/timreikn.html

Spyrja má hvers vegna breytinga sé óskað eftir svo langa sátt um núgildandi fyrirkomulag. Þar kemur tvennt til greina. Í fyrsta lagi er vaxin upp ný kynslóð sem man ekki það fyrirkomulag sem áður gilti og þekkir ekki af eigin raun kosti þess eða ókosti. Í öðru lagi hafa skapast ný viðhorf vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu, nýrrar tækni og nýrra sjónarmiða.  Hvort tveggja þarf að hafa í huga áður en ákvörðun er tekin um lagasetningu sem óhjákvæmlega snertir hvern einasta Íslending að meira eða minna leyti.

Fram til ársins 2010 gengu tillögur þingmanna í þá átt að flýta klukkunni enn frekar en nú er gert, nánar tiltekið yfir sumarið. Nýjasta tillagan, sem nú liggur fyrir Alþingi, gengur hins vegar í gagnstæða átt, þ.e. flutningsmenn vilja seinka klukkunni, a.m.k. yfir veturinn. Það að tillögurnar skuli ganga í ólíkar áttir sýnir glöggt að engin lagasetning getur sætt öll sjónarmið.

Höfuðmarkmiðið með stillingu klukkunnar hlýtur að vera það að samræma sem best vökutíma og birtutíma annars vegar, og svefntíma og myrkur hins vegar. Fullkomið samræmi næst aldrei, allra síst í norðlægum löndum eins og Íslandi þar sem bjart er allan sólarhringinn um hásumarið, en dimmt mestan hluta sólarhrings í skammdeginu, hvernig svo sem klukkur eru stilltar. Þegar samþykkt var að skipta jörðinni í tímabelti árið 1883 var við það miðað að hádegi í hverju belti skyldi vera sem næst klukkan 12. Í reynd hafa mörg lönd vikið frá þessum "beltatíma", yfirleitt í þá átt að flýta klukkunni umfram það sem beltatíminn segir til um.  Hliðrunin verður enn meiri að sumarlagi í þeim löndum sem hafa sérstakan sumartíma. Röksemdin fyrir því að flýta klukkunni er sú, að betra samræmi fæst milli birtutímans og þeirra vökustunda sem menn hafa tamið sér. Að tala um rétta eða ranga klukku er misvísandi; stilling klukkunnar fer eftir því hvað menn telja hentugt á hverjum stað og tíma.

Það fyrirkomulag sem nú gildir á Íslandi, að flýta klukkunni um eina klukkustund árið um kring, er ekki einsdæmi. Sum héruð í Kanada og Argentína hafa lengi haft sama háttinn á.  Þetta á einnig við um vestari hluta Kína sem víkur allt að þremur stundum frá beltatíma.  Árið 2010 ákváðu yfirvöld í Rússlandi að taka upp þessa reglu, og gildir flýtt klukka nú allt árið í þessu víðlendasta ríki jarðar sem spannar átta tímabelti. Hvíta-Rússland hefur fylgt dæmi Rússlands. Annars staðar í Evrópu og víðast hvar í Bandaríkjunum og Kanada er klukkunni hins vegar flýtt að sumri til.  Drjúgur hluti fólks í heiminum býr nú við klukku sem hefur verið flýtt miðað við tímabeltin frá 1883. Þetta sést glöggt á tímakorti því sem birt er í Almanaki Háskólans (sjá hér). Kortið sýnir staðaltímann, þ.e. vetrartíma á þeim stöðum sem hafa sérstakan sumartíma.

Reglur um sumartíma  voru settar í Evrópu í báðum heimsstyrjöldum og enn á ný í olíukreppunni á áttunda tug síðustu aldar. Þetta var fyrst og fremst gert í sparnaðarskyni. Með því að flýta klukkunni fæst betra samræmi milli birtutíma og vökutíma eins og fyrr segir, sem dregur úr þörfinni fyrir raflýsingu. Þessi röksemd vegur ekki eins þungt í norðlægu landi eins og Íslandi, og er það skýringin á því að lítil áhersla hefur verið lögð á orkusparnað í tillögum um stillingu klukkunnar hérlendis. Rétt er þó að gefa þessari hlið málsins gaum. Ef klukkunni yrði seinkað frá því sem nú er myndi fjölga talsvert þeim stundum þegar dimmt er á vökutíma. Meðfylgjandi tafla sýnir breytinguna fyrir tvo staði, Reykjavík og Akureyri. Reiknað er með mismunandi skilgreiningum á dimmu og vökutíma. Fram kemur að dimmum stundum á vökutíma myndi fjölga um 140-230 á ári (10-12%), eftir því hver viðmiðin eru. Ef klukkunni væri eingöngu seinkað að vetri til myndi dimmum stundum á vökutíma aðeins fjölga um 10-60 á ári (1-4%) eða þar um bil. 

Seinkun klukkunnar hefði þau áhrif að bjartara yrði á morgnana þegar börn fara í skóla og menn til vinnu. Þetta er tvímælalaust sterkasta röksemd þeirra sem vilja fara þessa leið. Á hinn bóginn eru bjartari morgnar keyptir því verði að það dimmir fyrr síðdegis þegar umferð er meiri og börn á leið úr skóla. Menn getur greint á um það hvort þeir kjósi fremur bjartari morgna eða bjartara síðdegi. En umferðarþunginn bendir til þess að menn nýti almennt síðdegið fremur en morgnana til að sinna erindum sínum. Það virðist gilda að sumri ekki síður en vetri og stjórnast því ekki af birtunni einni saman. Óumdeilt er, að flestir kjósa flýtta klukku á sumrin, því að lengri tími gefst þá til útivistar.

Seinkun klukkunnar yrði til þess að auka tímamuninn milli Íslands og annarra Evrópulanda um eina klukkustund, en minnka muninn til vesturs. Þar sem samskipti eru meiri við Evrópu en Ameríku myndi þetta teljast til óhagræðis fremur en hagræðis.

Fyrir þá sem áhuga hafa á stjörnuskoðun og norðurljósum myndi seinkun klukkunnar hins vegar vera hagstæð þar sem ekki þyrfti að bíða eins lengi eftir dimmum himni að kvöldi.

Ekki er úr vegi að geta þess að núgildandi klukka á Íslandi samsvarar miðtíma Greenwich, sem einnig nefnist heimstími (Universal Time,  Temps Universel) og hafður er til viðmiðunar í margs konar alþjóðlegum viðskiptum og rannsóknum. Til dæmis má nefna að í allri flugstjórn er miðað við þennan tíma. Sama er að segja um veðurathuganir og ýmsar aðrar mælingar sem gerðar eru að staðaldri hérlendis. Það er til mikils hagræðis fyrir þá aðila sem þarna eiga hlut að máli, að staðartíminn skuli vera sá sami og heimstíminn.

Lítum næst á þá varatillögu ("málamiðlunartillögu") að klukkunni skuli seinkað yfir vetrarmánuðina eingöngu. Þá yrði komið á sama fyrirkomulagi og gilti hér fyrir 1968, þegar klukkunni var flýtt á vorin en seinkað aftur á haustin. Eins og fram kom hér á undan myndi  breyting í þessa átt leiða til verulegrar fjölgunar dimmra stunda á vökutíma og yrði því að teljast neikvæð frá sjónarmiði þeirra sem vilja samræma birtu og vöku. Færsla klukkunnar tvisvar á ári hefur aðrar neikvæðar hliðar eins og rakið var í greinargerð með lögunum frá 1968. Í fyrsta lagi þarf að endurstilla allar klukkur, þar með taldar stimpilklukkur, öryggiskerfi, móðurklukkukerfi, turnklukkur og klukkur í tölvukerfum. Þótt nýjasta tækni bjóði í mörgum tilvikum upp á sjálfvirka stillingu, fer því fjarri að þetta sé auðvelt verk.

Fyrirhöfnin við að stilla klukkur, þótt ærin sé, er ekki veigamesta röksemdin í þessu máli. Önnur áhrif breytingarinnar myndu snerta almenning öllu meira. Meðan reglur giltu um sérstakan sumartíma hér á landi var mjög mikið kvartað yfir því, að hringlið með klukkuna truflaði svefnvenjur manna, og þá sérstaklega ungbarna. Þetta var árviss uppspretta lesendabréfa í dagblöðum og sífellt umkvörtunarefni. Þá voru alltaf margir sem gleymdu að stilla klukkur sínar og lentu í meiri og minni vandræðum af þeim sökum. Í sveitum þurfti að breyta mjaltatíma í áföngum, og var það til óþæginda fyrir bændur. Fyrir flugrekendur olli þetta líka erfiðleikum þar sem þeir voru samningsbundnir við fasta lendingartíma erlendis (bundna við heimstíma) og þurftu því að breyta brottfarartímum héðan. Hið sama yrði upp á teningnum nú, þannig að brottför yrði að flýta um klukkustund á því tímabili sem klukkunni yrði seinkað. Flugrekendur sjá fram á veruleg vandamál af þessum sökum, bæði fyrir flugfélög og farþega. 

Þegar á allt er litið verður að meta það svo að "málamiðlunartillagan" sé versti kosturinn af þeim þremur sem til umræðu eru. Sú hugmynd að seinka klukkunni allt árið kemur fremur til álita, en ókostir þeirrar breytingar virðast þó mun meiri en kostirnir.

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni er lögð áhersla á það að seinkun klukkunnar myndi hafa jákvæð heilsufarsleg áhrif, sérstaklega á ungmenni. Líkamsklukkan fari mjög eftir gangi sólar, og það valdi togstreitu þegar staðarklukkan gangi ekki í takt við birtutímann.  Megi jafnvel rekja skammdegisþunglyndi til þessa. Þarna er horft framhjá þeirri staðreynd að raflýsing hefur áhrif á líkamsklukkuna ekki síður en sólarljósið og raskar því hinni náttúrulegu sveiflu. Í þjóðfélagi nútímans ræður sólarljósið ekki stillingu líkamsklukkunnar nema að takmörkuðu leyti. Það ætti því ekki að vekja mönnum falsvonir um það að líðan þeirra muni batna til muna við það að seinka klukkunni.

                                                                         Þorsteinn Sæmundsson 
 Þ.S.  18.1. 2014. Lagfært 18.11. 2014

Almanak Háskólans