Forsíða
 

Fjarlægð fastastjörnu mæld frá Íslandi

Í mars 2016 var sagt frá athugunum Snævars Guðmundssonar á stjörnunni Ross 248, sem er rauð dvergstjarna í stjörnumerkinu Andrómedu. Þessi stjarna er tiltölulega nálægt jörðu svo að hreyfing jarðar um sólu hefur greinileg áhrif á stöðu hennar miðað við aðrar stjörnur sem eru í meiri fjarlægð. Í viðbót við þessa sýndarhreyfingu, sem endurspeglar hreyfingu jarðar og gefur vísbendingu um fjarlægð stjörnunnar, hefur stjarnan talsverða eiginhreyfingu sem Snævarr hefur einnig mælt. Jafnframt hefur hann fylgst með sýndarbirtu stjörnunnar, sem er örlítið breytileg, en út frá sýndarbirtunni er unnt að reikna reyndarbirtuna þegar fjarlægðin er þekkt.

Mælingar Snævars ná yfir þriggja ára tímabil, frá 2015 til 2018. Við mælingarnar hefur hann notað tvo spegilsjónauka, annan með 30 cm spegli en hinn með 40 cm spegli. Út frá 27 mælingum, sem fólu í sér 60 myndatökur hver, og 12 mælingum áhugamanns í Skotlandi hefur Snævarr komist að þeirri niðurstöðu að stjarnan Ross 248 sé í 10,9 ljósára fjarlægð og að reyndarbirta hennar sé 14,7. Viðurkennd gildi eru 10,3 ljósár og reyndarbirtustigið 14,8.

Niðurstaða Snævars sýnir að mælingar af þessu tagi eru á færi áhugamanna ef tækjabúnaður er góður og fyllstu nákvæmni gætt. Skýrsla um mælingar Snævars mun væntanlega birtast á prenti á næstunni (sjá hér). Hún sýnir umfang mælinganna.

Þess má geta að stjarnan Ross 248 er að nálgast sól og fer um 80 km á sekúndu. Eftir 36 þúsund ár verður hún aðeins 3 ljósár frá sólu, nær en nokkur önnur fastastjarna, en fjarlægist síðan á ný. Hún yrði þó aldrei sýnileg berum augum frá jörðu, til þess er hún allt of dauf.


Þ.S. 6. 11. 2018

Almanak Háskólans