Fylgst með hreyfingu nálægrar fastastjörnu Á þessu vefsetri hefur tvívegis verið greint frá mælingum Snævars Guðmundssonar á hreyfingu tvístirnisins 61 Cygni sem er í 11,4 ljósára fjarlægð frá jörðu (sjá almanak.hi.is/61cygni.html og almanak.hi.is/61cygni2.html . Að undanförnu hefur Snævarr fylgst með annarri stjörnu sem er nær jörðu, í "aðeins" 10,3 ljósára fjarlægð. Þetta er stjarnan Ross 248 sem er rauð dvergstjarna í stjörnumerkinu Andrómedu. Niðurstöður mælinganna eru sýndar á meðfylgjandi myndum. Á efstu myndinni sést stjarnan í rauðum ramma. Á næstu mynd sést hvernig stjarnan færist eftir sporbaug séð frá jörðu. Sú hreyfing er sýndarhreyfing sem endurspeglar árlega hreyfingu jarðar um sólina og veldur reglubundinni hliðrun á stefnunni til stjörnunnar. Að auki hefur stjarnan eiginhreyfingu miðað við aðrar stjörnur. Á neðstu myndinni er sýnt hvernig mælingarnar falla inn í þann feril sem stjarnan fylgir á himninum þegar báðar þessar hreyfingar eru sameinaðar. Á myndunum eru kvarðar merktir í bogasekúndum. Á miðmyndinni er kvarðinn 0,2 bogasekúndur en á neðstu myndinni 1 bogasekúnda. Ein bogasekúnda svarar til hornsins sem 100-króna peningur spannar í 5 km fjarlægð.
|