Reikistjörnur myrkvast Að kvöldi 26. janúar s.l. sást tunglið nálgast reikistjörnuna Júpíter uns hún hvarf bak við það og birtist ekki aftur fyrr en eftir tæpa klukkustund. Atburðurinn vakti svo almenna eftirtekt að hans var getið í fjölmiðlum hér á landi. Þetta var þriðji myrkvinn í óvenjulegri röð stjörnumyrkva sem hófst í nóvember og lauk í febrúar. Fyrst var það reikistjarnan Satúrnus sem myrkvaðist, að kvöldi 3. nóvember. Hún myrkvaðist svo aftur mánuði síðar, aðfaranótt 1. desember. Í bæði skiptin var fremur léttskýjað í Reykjavík og myrkvarnir sáust greinilega. Þegar Júpíter myrkvaðist í janúar var veður líka hagstætt í Reykjavík. Loks var fjórði myrkvinn 23. febrúar, kl. 02:33. Daginn áður hafði gengið yfir óveður, en um kvöldið létti til svo að þessi síðasti myrkvi sást einnig frá Reykjavík, þótt tíbrá væri reyndar með meira móti. Að minnsta kosti einn stjörnuáhugamaður fylgdist með öllum myrkvunum og tímasetti þá (Birgir T. Arnar). Fróðlegt væri að heyra frá fleirum sem kynnu að hafa gert nákvæmar tímamælingar. Síðast myrkvaðist
Júpíter á dimmum himni í Reykjavík árið 1943, og það gerist
ekki aftur fyrr en árið 2070. (Árið 2037 myrkvast hann reyndar að
hálfu leyti frá Reykjavík séð, og er það ekki ómerkari atburður.) Satúrnusarmyrkvar eru algengari. Síðan 1943 hefur Satúrnus myrkvast átta sinnum á
dimmum himni í Reykjavík. Það gerðist árin 1967 (tvisvar), 1968, 1973, 1974 (tvisvar) og nú
síðast 2001 (tvisvar). Næsti myrkvi verður árið 2007. Stjörnumyrkvi sést yfirleitt á allstóru svæði á jörðinni hverju sinni því að "skugginn" sem tunglið myndar er jafnbreiður tunglinu, rúmlega fjórðungur af þvermáli jarðar. Þegar Satúrnus myrkvaðist í nóvember s.l. tók Snævarr Guðmundsson þessa skemmtilegu mynd af tunglinu og reikistjörnunni með stjörnusjónauka við heimili sitt í Hafnarfirði. Sjónaukinn var af Meade-gerð, 30 cm (12 þumlungar) að þvermáli.
|
Snævarr tók einnig myndir af seinni Júpítersmyrkvanum. Hér fyrir neðan er ein þeirra mynda, svo og stækkaður hluti af sömu mynd. Þar sést móta fyrir beltum Júpíters þar sem hann er að hverfa bak við tunglið. |
|
Þ.S. 1.3.2002 |