Reikistjörnur myrkvast

Að kvöldi 26. janúar s.l. sást tunglið nálgast reikistjörnuna Júpíter uns hún hvarf bak við það og birtist ekki aftur fyrr en eftir tæpa klukkustund. Atburðurinn vakti  svo almenna eftirtekt að hans var getið í fjölmiðlum hér á landi. Þetta var þriðji myrkvinn í óvenjulegri röð stjörnumyrkva sem hófst í nóvember og lauk í febrúar. Fyrst var það reikistjarnan Satúrnus sem myrkvaðist, að kvöldi 3. nóvember. Hún myrkvaðist svo aftur mánuði síðar, aðfaranótt 1. desember. Í bæði skiptin var fremur léttskýjað í Reykjavík og myrkvarnir sáust greinilega. Þegar Júpíter myrkvaðist í janúar var veður líka hagstætt í Reykjavík. Loks var fjórði  myrkvinn 23. febrúar, kl. 02:33. Daginn áður hafði gengið yfir óveður, en um kvöldið létti til svo að þessi síðasti myrkvi sást einnig frá Reykjavík, þótt tíbrá væri reyndar með meira móti. Að minnsta kosti einn stjörnuáhugamaður fylgdist með öllum myrkvunum og tímasetti þá (Birgir T. Arnar). Fróðlegt væri að heyra frá fleirum sem kynnu að hafa gert nákvæmar tímamælingar. 

Síðast myrkvaðist Júpíter á dimmum himni í Reykjavík árið 1943, og það gerist ekki aftur fyrr en árið 2070. (Árið 2037 myrkvast hann reyndar að hálfu leyti frá Reykjavík séð, og er það ekki ómerkari atburður.) Satúrnusarmyrkvar eru algengari. Síðan 1943 hefur Satúrnus myrkvast átta sinnum á dimmum himni í Reykjavík. Það gerðist árin 1967 (tvisvar), 1968, 1973, 1974 (tvisvar) og nú síðast 2001 (tvisvar). Næsti myrkvi verður árið 2007.

Þegar tunglið myrkvar fastastjörnu, hverfur stjarnan á andartaki. Öðru máli gegnir þegar reikistjarna myrkvast, því að hún er svo miklu nær jörðu að stærðar hennar gætir og tunglið er smástund að hylja hana. Satúrnus með hringum sínum er um það bil hálfa aðra mínútu að hverfa bak við tunglið, og myrkvun Júpíters tekur svipaðan tíma. Tunglið færist um það bil breidd sína til austurs á hverri klukkustund miðað við stjörnurnar á himninum. Þessi hreyfing tunglsins er í gagnstæða átt við þá stöðugu hreyfingu frá austri til vesturs sem tunglið og aðrir himinhnettir sýnast hafa vegna snúnings jarðarinnar um möndul sinn.

Þegar tunglið myrkvar bjartar stjörnur eins og Júpíter og Satúrnus, sést fyrirbærið greiðlega með berum augum. Þó er mun áhugaverðara að fylgjast með slíkum atburði í stjörnusjónauka. Ekki þarf stóran sjónauka til að greina fjögur stærstu tungl Júpíters og hringa Satúrnusar. Þegar Júpíter myrkvaðist 26. janúar háttaði svo til að tunglin fjögur voru öll sömu megin (austan) við Júpíter. Þau myrkvuðust því hvert af öðru eftir að Júpíter var horfinn bak við mánann. Myrkvun þeirra tekur mælanlega stund (um 2 sekúndur), og því má greina að þau hverfa ekki eins snöggt og fastastjörnur gera þegar þær hverfa bak við tunglröndina. Það má heita merkileg tilviljun að við næsta myrkva, 23. febrúar, voru tunglin líka öll öðru megin við Júpíter. Í þetta skipti voru þau  vestan við reikistjörnuna og  myrkvuðust því á undan henni. Vegna slæms skyggnis var erfitt að greina það tunglanna sem næst var reikistjörnunni, og er ekki vitað til þess að neinn athugandi hérlendis hafi séð það. Hálftíma eftir að Júpíter myrkvaðist gekk tunglið svo fyrir fastastjörnu í tvíburamerki, en sú stjarna er svo dauf að fyrirbærið sást aðeins í sjónauka. Nánari upplýsingar um þessa og fleiri stjörnumyrkva er að finna í almanakinu á bls. 63.

Stjörnumyrkvi sést yfirleitt á allstóru svæði á jörðinni hverju sinni því að "skugginn" sem tunglið myndar er jafnbreiður tunglinu, rúmlega fjórðungur af þvermáli jarðar. 

Þegar Satúrnus myrkvaðist í nóvember s.l. tók Snævarr Guðmundsson þessa skemmtilegu mynd af tunglinu og reikistjörnunni með stjörnusjónauka við heimili sitt í Hafnarfirði. Sjónaukinn var af Meade-gerð, 30 cm (12 þumlungar) að þvermáli.

 

Snævarr tók einnig myndir af seinni Júpítersmyrkvanum. Hér fyrir neðan er ein þeirra mynda, svo og stækkaður hluti af sömu mynd. Þar sést móta fyrir beltum Júpíters þar sem hann er að hverfa bak við tunglið.

 



 

 

Þ.S.
1.3.2002