Loftsteinafjöld í nóvember  

    Á fréttavef Morgunblaðsins 14. nóvember var sagt frá loftsteini sem sést hefði á Suðurlandi og í Reykjavík. Bloggað var um fréttina, og kom þá fram að fyrirbærið hefði sést víðar, allt norður í Húnavatnssýslu. Í kjölfarið var lýst eftir sjónarvottum á Morgunblaðsvefnum.  Á fjórða tug lýsinga bárust, og hafði undirritaður samband við marga til að fá nánari upplýsingar. Með samanburði  var svo reynt að ákvarða hvar þessi loftsteinn hefði fallið. Fljótlega varð ljóst að um fleiri en einn loftstein var að ræða. Þegar sagt var frá þessu í sjónvarpsfréttum, gáfu enn fleiri sjónarvottar sig fram. 
    Bjartasti loftsteinninn, sem flestir sáu,  virðist hafa fallið kl. 17:34. Honum er lýst sem skærri, hvítri ljóskúlu sem sprakk að lokum í nokkra hluta sem voru gulleitir og minntu á flugeld. Þessu var einnig lýst þannig að kvarnast hefði úr steininum og brotin dregist aftur úr. Rákir fylgdu á eftir brotunum, en hurfu skjótt. Menn greinir á um það hve lengi ljósið sást og eru nefndar tölur allt frá 3 sekúndum upp í 10. Frásagnir sjónarvotta bentu í fyrstu til þess að steinninn hefði stefnt frá vestri til austurs og fallið á að giska 150 km í suðaustur frá Vestmannaeyjum. Áætlað var að hann hefði horfið í 40-50 km hæð. Ljóst var þó að þetta var engan veginn öruggt vegna ósamræmis milli frásagna, bæði um stefnur og hæð á himni. Síðan hafa bæst við lýsingar frá fleiri stöðum, og er hugsanlegt að nákvæmari niðurstaða fáist. Þessi  loftsteinn sást allt frá Vestmannaeyjum víða um Suðurland og Reykjanes til Borgarfjarðar. Fréttir benda til að hann hafi sést í Húnavatnssýslu, en lýsingar þaðan vantar.

    Þá kemur að því sem óvenjulegt má teljast. Hjón sem voru á ferð í Kolbeinsstaðahreppi (nú Borgarbyggð) á Vesturlandi sáu á sömu mínútu (kl. 17:34) bjartan loftstein fara nær lárétt frá suðri til norðurs, mjög lágt (á að giska 4-5°) yfir sjóndeildarhring í austri. Hjónin voru staðkunnug og gátu lýst þessu með nákvæmni. Miðað við lýsingu þeirra hefur þessi steinn fallið fyrir austan land, en hve langt fyrir austan verður ekki fullyrt. Ljósið var gulleitt og ferð þess lauk í eldglæringum, en ekki varð séð að það brotnaði í hluta. Ef þetta var sami vígahnötturinn og fyrr er lýst, er ósamræmið milli lýsinga með ólíkindum.  Hafi hins vegar tveir vígahnettir sést á sömu stundu eða því sem næst vaknar sú spurning hvort steinarnir hafi verið á ferð saman í geimnum þegar þeir rákust á jörðina. Í þessu tilviki virðast stefnurnar þó hafa verið ólíkar ef marka má lýsingar sjónarvotta. Í talningu hér á eftir er reiknað með því að steinarnir hafi verið tveir.

    Annar loftsteinn birtist skömmu eftir kl. 18.  Sjónarvottar í Reykjanesbæ sáu bjartan, gulan loftstein fara nær lárétt yfir himin frá suðri til suðausturs. Í kjölfarið fylgdi dökkur reykur sem hvarf skjótt. Steinninn sást í 5 sekúndur eða svo.

    Fjórði steinninn sást á Suðurlandi kl. 18:15-18:20. Hann var mun skærari en nokkur stjarna og hvarf suður fyrir land, en stefnan var hallandi frá austri til vesturs, gagnstætt stefnu fyrri steinanna. Þrír sjónarvottar lýstu fyrirbærinu, tveir í Flóanum, en sá þriðji Fljótshlíð.

    Fimmti loftsteinninn sást frá Grímsnesi í suðvestri og stefndi niður til austurs með 20° halla. Hann var mjög bjartur, hvítur eða gulleitur. Hali fylgdi.  Þetta var um kl. 21. Tveir eru til frásagnar um þennan stein.

    Sjötta loftsteininum er svo lýst að hann hafi verið geysibjartur, bláhvítur með langan hala. Hann sást falla kl. 21:21 lóðrétt í norð-norðvestri frá Reykjavík. Aðeins eitt vitni hefur gefið sig fram til að lýsa þessu.

    Sjöundi loftsteinninn sást frá Krýsuvík um kl. 23. Hann var skærgrænn og afar bjartur, en sást aðeins í örskotsstund (um tvær sekúndur). Hann sýndist nær beint uppi yfir athugendum, sem voru tveir, og fór frá suðvestri til norðausturs.

    Áttundi loftsteinninn sást eftir miðnætti, þ.e. 15. nóvember, um kl. 00:30. Hann sást frá Barðaströnd og er lýst sem ljóskúlu með hala og að kúlan hafi sprungið. Ljósið stefndi frá norðaustri til suðvesturs. Einn sjónarvottur er til vitnis um þetta fyrirbæri.

    Í fréttinni á Morgunblaðsvefnum var látið að því liggja að vígahnötturinn sem féll sunnan við land kl. 17:34 tengdist drífu loftsteina sem jörðin mætir um þetta leyti árs og sagt er frá í Almanaki Háskólans.  Loftsteinar þessarar drífu birtast flestir sem hraðfara  stjörnuhröp. Séð frá athuganda á jörðu niðri virðast steinarnir stefna í allar áttir frá "geislapunkti" í stjörnumerkinu Ljóninu (Leo) og draga nafn af því (Leonítar). Þótt stöku Leonítar geti verið mjög bjartir, er útilokað að þeir  vígahnettir sem sáust kl. 17:34 hinn 14. nóvember tengist þessari drífu. Í fyrsta lagi var geislapunktur Leoníta í norðri á þessari stundu, en vígahnettirnir komu úr allt annarri átt. Að auki var geislapunkturinn nærri sjóndeildarhring hér á landi þegar atburðurinn átti sér stað, og fátítt er að drífan sjáist undir þeim kringumstæðum.  Þá átti hámark Leonítadrífunnar að vera hinn 17. nóvember. Hámarkið er nokkuð skarplega afmarkað svo að tímasetningin ein gerir þetta ósennilegt. Eini loftsteinninn sem sást að kvöldi 14. nóvember og hafði nokkurn veginn stefnu Leoníta var sá síðasti, kl. 00:30 eftir miðnætti. Þá var geislapunkturinn lágt í norðaustri.

    En gerðist þá ekkert 17. nóvember? Jú, svo sannarlega. Sjónarvottar í Reykjavík, Biskupstungum og á norðanverðu Snæfellsnesi sáu afar bjarta loftsteina að morgni 17. nóvember. Sá bjartasti lýsti upp jörð í Biskupstungum. Sá var á norðurhimni, stefndi til norðurs og skildi eftir sig bjarta rák sem varði í 10-20 sekúndur. Þetta var um kl. 07:20. Fimm mínútum síðar sáu sjónarvottar í Reykjavík og á Snæfellsnesi bjartan loftstein falla á austurhimni skáhallt frá suðri til norðurs. Lýsingum manna ber ekki nægilega vel saman til að hægt sé að staðsetja steininn, en báðir þessir steinar hefðu getað tilheyrt Leonítadrífunni því að Ljónsmerkið var þá hátt á suðurhimni.

    Að tveir vígahnettir sjáist sömu nóttina hérlendis er ekki ýkja sjaldgæft (sjá yfirlit). En að tilkynnt sé um átta vígahnetti á sjö klukkustundum eins og gerðist kvöldið 14.-15. nóvember, er  algjört einsdæmi. Ef steinarnir hefðu virst koma úr einni og sömu átt (einum geislapunkti) hefði nærtækasta skýringin verið sú að jörðin væri að fara í gegnum áður óþekkt loftsteinabelti, en því var ekki að heilsa; steinarnir komu úr ýmsum áttum. Vitað er að skilyrði til athugana voru sérlega góð þetta kvöld á Suðurlandi, og einnig var bjartviðri á Vesturlandi og Norðurlandi vestra. Fréttin á Morgunblaðsvefnum kann einnig að hafa ýtt undir sjónarvotta að gefa sig fram. En þetta nægir tæpast til að skýra þennan ótrúlega fjölda. Áhugamenn um stjörnuskoðun eru oft úti við klukkutímum saman á stjörnubjörtum kvöldum, en sjá sjaldnast vígahnött. Líkast til hefur þetta verið einskær tilviljun, en ástæða er til að kanna hvort eitthvað svipað hefur sést annars staðar í heiminum.
 

      Hér er teikning sem sjónarvottur í Reykjavík (Tómas Eric Woodard) sendi til að sýna afstöðu annars loftsteinsins 17. nóvember til kennileita.

      
                                                         Þorsteinn Sæmundsson
28.11. 2009. Breytt 4.12. 2009 

Almanak Háskólans