| 
    
 Vefsíða um norðurljós
	 Fyrir nokkru birtist kynningartexti 
	um norðurljós á Stjörnufræðivefnum (sjá hér). Ekki er 
	tekið fram hver hefur 
	samið 
	þennan texta, en á einum stað er talað um höfunda (í fleirtölu). Þetta er metnaðarfull vefsíða, 
	áferðarfalleg og myndskreytt. Þegar grannt er skoðað sjást þó ýmis merki um 
	fjótfærni: ritvillur, ósamræmi milli kafla og jafnvel staðreyndavillur. Það 
	síðasta snertir undirritaðan óbeint því að í heimildalista neðanmáls er vísað í það sem 
	hann hefur  sett á vefsíður. Textinn ber þó með sér að margt hefur verið sótt í aðrar heimildir. 
	Nauðsynlegt þykir að leiðrétta nokkur atriði sem telja má 
	villandi eða beinlínis röng. 
	1. Inngangur 
	Í 
	inngangi segir: 
	 
	"Algengustu litir norðurljósa eru gulgrænn, grænn og 
	rauður sem súrefni gefur frá sér en rauðleit og fjólublá litbrigði af völdum 
	niturs sjást líka stundum."  
	 
	Af þessu myndi lesandi álykta að 
	súrefni gefi frá sér bæði gulgrænan og grænan lit, en svo er ekki. Liturinn 
	sem súrefni gefur frá sér og algengastur er í norðurljósum er bundinn við 
	eina litrófslínu, við 557,7 nanómetra bylgjulengd. Þessi litur er yfirleitt 
	kallaður grænn. Það er ekki fráleitt að kalla hann gulgrænan, en þetta er 
	einn litur en ekki tveir. Seinna í textanum (í 3. kafla) er sérstaklega 
	fjallað um lit norðurljósa. Þar leiðréttist þetta, en er þó varla nógu skýrt 
	fram sett. 
	 
	Næst segir um 
	norðurljósabeltið: 
	 
	"Beltið getur stækkað við 
	segulstorma sem verða í kjölfar öflugra sólblossa og kórónuskvetta.
	Þá geta norðurljós sést í suðlægum löndum en slíkt er sjaldgæft." 
	 
	Þarna er um hugtakarugling að ræða. Norðurljósabeltið er 
	svæði þar sem norðurljós eru að meðaltali algengust. Þetta belti breytist 
	ekki við óróa á sólu. Svæðið sem norðurljós ná yfir á tiltekinni stundu 
	heitir hins vegar norðurljósakragi eða norðurljósasveigur, og það svæði getur stækkað 
	og færst til fyrir áhrif frá sólu, ekki aðeins þegar kórónuskvettur ná 
	til jarðar, heldur einnig þegar jörðin lendir í langvinnum rafagnastraumum 
	úr kórónugeilum. Í síðari kafla, sem ber yfirskriftina "Norðurljósabeltið" 
	er þessi hugtakaruglingur endurtekinn. 
	2. Myndun 
	Í þessum kafla segir: 
	 
	"Norðurljósin myndast þegar hraðfleygar rafhlaðnar agnir frá sólinni, 
	aðallega rafeindir, rekast á atóm og sameindir í um 100 km hæð yfir 
	Jörðinni."      
	 
	Hér gætir talsverðrar ónákvæmni, enda segir 
	nokkru neðar að ljósin geti mælst frá 70 upp fyrir 300 km hæð. Hið rétta er 
	að þau hafa mælst frá 60 km og upp fyrir 1000 km hæð, þótt það sé sjaldgæft. 
	3. 
	Litir 
	Þarna segir: 
	 
	"Í 100 km hæð eða svo gefur súrefnið frá sér græna litinn kunnuglega en í um 
	eða yfir 300 km hæð gefur það frá sér rauðan lit." 
	 
	Tveimur málsgreinum neðar segir hins vegar um græna litinn og þann rauða: 
	 
	"Grænn: Súrefnisatóm í 90-200 km hæð (558 nm bylgjulengd)" 
	"Dökkrauð: Súrefnisatóm í meira en 200 km hæð." 
	 
	Þarna er augljóst ósamræmi í tölum. 
	 
	Um rauða súrefnislitinn segir: 
	 
	"Rauði liturinn er oft á mörkum þess að sjást með berum augum og sést 
	oft betur á ljósmyndum." 
	Þetta er í sjálfu sér rétt; en þessi rauði litur er ekki sá sem venjulega sést 
	í norðurljósunum og orsakast af örvun niturs (köfnunarefnis). Stöku 
	sinnum sjást alrauð norðurljós, og þá er það súrefnið sem kemur við sögu. 
	 
	Um rauða niturlitinn segir: 
	 
	"Skærrauð: Nitursameindir í innan við 90 km hæð. Algengur litur við 
	mestu sólstorma, þegar mjög orkuríkar rafeindir örva sameindirnar."  
	 
	Þetta er villandi, því að þessi litur er mjög algengur í norðurljósunum og 
	takmarkast ekki við mikla sólstorma. Hann sést neðst í bogum og böndum og 
	blandast gjarna bláum niturlit þannig að úr verður fjólublár litur. 
	 
	4. Sólvindur 
	Þarna stendur: "Í sólvindinum er segulsvið 
	sólkerfisins."  
	 
	Þetta er villandi, því að sólkerfið sem slíkt hefur ekki 
	segulsvið. Sjá nánar í umfjöllun um 9. kafla. 
	5. Hraði 
	Í þessum kafla er fjallað um hraða sólvindsins. Þar segir: "Við 
	kórónuskvettur getur vindhraði sólvindsins náð allt að 3000 km/s. Nái svo 
	hraðfleygur sólvindur til Jarðar verður öflugur segulstormur (Kp-gilid 
	[sic] 8-9)." 
	 
	Við þetta er tvennt athugavert. Í fyrsta lagi er talan 3000 km/s of há. 
	Mesti hraði sem mælst hefur er innan við 2500 km/s. Í öðru lagi hefur 
	svonefnt Kp gildi ekki verið nefnt fyrr í greininni svo að almennur lesandi 
	kemur af fjöllum. 
	6. Þéttleiki 
	 
	Þarna er rætt um þéttleika sólvindsins. Segir þar: 
	"Ef gildið er um og yfir 20 róteindir á cm3 er útlitið gott en þó 
	alls engin trygging fyrir því að norðurljós sjáist því vindhraði sólvindsins 
	og
	
	Bt-gildið og
	
	Bz-gildið þurfa líka að vera heppileg." 
	 
	Þegar þarna er komið sögu hefur lesandinn ekkert séð um  Bt-gildi eða 
	Bz-gildi. Þessi gildi eru ekki útskýrð fyrr en í 10. kafla. 
	7. Kórónugeilar 
	 
	Þarna stendur: 
	 
	"Hraðfleygur sólvindur úr kórónugeilum getur því valdið G1 (Kp 5), G2 (Kp-6) 
	og G3 (Kp-7) segulstormum." 
	 
	Þetta er sama sagan og fyrr; hvorki G-gildi eða 
	Kp-gildi hafa verið útskýrð áður í textanum. 
	8. 27 daga endurtekningin 
	 
	Þessum kafla fylgja góðar skýringarmyndir, en höfundum 
	hefur láðst að geta þess hvaðan þær eru fengnar. 
	9. Segulsvið sólkerfisins 
	Eins og áður segir er þetta villandi heiti, því að sólkerfið sem 
	slíkt hefur ekki segulsvið heldur er þarna átt við segulsviðið í 
	sólvindinum. Í þessum kafla segir að sólin sé risavaxinn segull með 
	tvípólssvið 50 gauss, hundrað sinnum sterkara en segulsvið jarðar. Þetta er 
	einhver misskilningur. Segulsvið sólar (tvípólssviðið) kemur skýrast fram við 
	sólblettalágmark og mælist þá aðeins 1-2 gauss við skautin, um tífalt 
	sterkara en segulsvið jarðar. Þegar virkni sólar vex verða 
	segulsvið sólblettanna yfirgnæfandi og gera heildarmyndina afar 
	ruglingslega, en tvípólssvið sólar veikist uns það snýst við þegar 
	sólblettahámarki er náð. Þegar sagt er í textanum að segulsvið sólar nái út í 
	sólkerfið, að sólvindsmörkunum, virðist átt við tvípólssviðið, en það stenst 
	engan veginn. Stefna segulsviðsins í sólvindinum er ekki föst heldur breytileg, eins og lesandinn getur ráðið af lestri næstu kafla. 
	10. Bt gildið - styrkur segulsviðs 
	sólkerfisins  
	
	 
	Í fyrstu málsgrein segir: 
	 
	"Miðlungs 
	segulssviðsstyrkur byrja [sic] við 15nT en fyrir miðlægari breiddargráður (sunnan 
	Íslands) eru 25nT gildi heppilegri."  
	 
	Þessi setning er undirrituðum óskiljanleg. 
	 
	Í sama kafla fá lesendur loks að vita hvað við er átt með Bx, By og Bz. 
	11. Bz í suður - Víxlverkun við segulhvolf jarðar 
	Þarna stendur: 
	 
	"Þegar norður-suður átt segulsviðs 
	sólkerfisins snýst í suður tengjast segulsviðslínurnar við segulhvolfi 
	[sic] jarðar sem vísar í norður." 
	 
	Þessi setning er áreiðanlega torskilin þeim sem ekki vita fyrirfram hvað um er 
	að ræða. 
	 
	Síðar er talað um L1-punktinn milli sólar og jarðar, án þess að útskýrt sé 
	hvað átt er við. 
	12. Kp-gildi 
	Í þessum kafla fær lesandinn loksins útskýringu á því hvað  
	Kp-gildi tákna. Skýringin er reyndar ekki rétt, því að þarna stendur: 
	 
	"Á myndinni sjást mæld Kp-gildi í segulmælingastöðinni Leirvogi 
	undanfarna viku." 
	 
	Enn fremur segir: 
	 
	"Þegar spár um Kp-gildi eru skoðuð er mikilvægt að hafa í hug að gildið 
	getur verið mishátt eftir hnattstöðu. Þannig getur Kp-gildið eða 
	segultruflanir á Íslandi verið hærra eða lægra en á sama tíma í Noregi, 
	Alaska o.s.frv." 
	 
	Þetta er ekki svo. Gildi sem fást úr mælingum í tiltekinni mælistöð heita 
	K-gildi. Gildin úr mörgum mælistöðvum víða um heim eru síðan sameinuð í 
	gildi fyrir jörðina í heild. Þau gildi kallast Kp-gildi. 
	 
	13. Norðurljósabeltið 
	Þarna segir: 
	 
	"Norðurljós eru tíðust innan beltis sem kallast norðurljósakraginn eða 
	norðurljósabeltið. Norðurljósabeltið er um 2000 km frá segulpólnum og um 500 
	km breitt en breikkar og færist á suðlægari breiddargráður við segulstorma." 
	 
	Þarna er enn ruglað saman norðurljósabeltinu, sem er skilgreint eftir 
	meðaltíðni norðurljósa og breytist ekki nema á mjög löngum tíma, og
	norðurljósakraganum, sem er staðsetning norðurljósanna á tiltekinni 
	stundu. 
	14. Hvar og hvenær sjást norðurljós yfir Íslandi 
	 
	Í þessum kafla stendur: 
	 
	"Mælingar, meðal annars í Leirvogi, sýna að norðurljós eru, að meðaltali, 
	algengust milli 23:00 og 01:00,. Þau geta vissulega birst fyrr á kvöldin og 
	síðar á næturnar, allt eftir aðstæðum hverju sinni." 
	 
	Ekki er þetta alls kostar rétt. Könnun á tíðni norðurljósa hefur 
	ekki 
	verið gerð með 
	mælingum í Leirvogi heldur með athugun á filmum úr norðurljósamyndavél á 
	Rjúpnahæð í Kópavogi. Niðurstaðan er sýnd á línuriti hér fyrir neðan. Hámarkið 
	reyndist vera milli 
	klukkan 23 og 24. Á Austurlandi er hámarkið heldur fyrr, eða fyrir kl. 23 
	samkvæmt mælingum á Eyvindará við Egilsstaði. Það er því ekki rétt að hámarkið sé frá 
	kl. 23 til kl. 01 eins og segir á vefsíðunni, jafnvel þótt við skilgreinum 
	hámarkið frjálslegar en hér er gert. Skylt er að geta þess að línuritið 
	sýnir meðaltal margra ára. Einstök ár gáfu mismunandi niðurstöður. 
	  
	15. Hljóð 
	 
	Um hugsanleg hljóð frá norðurljósum segir: 
	 
	 
	"Norðurljósin eru í um eða yfir 
	100 km hæð yfir jörðinni, þar sem loftið er of þunnt til að hljóð geti 
	borist til jarðar. Þar að auki tæki hljóðið alla vega um 5 mínútur að berast 
	niður til jarðar." 
	 
	Þetta er villandi. Loftið í norðurljósahæð 
	er of þunnt til að hljóðbylgjur geti myndast. Þar við bætist að hljóðbylgjur sem yrðu til ofan 
	við 60 km hæð myndu ekki ná til jarðar heldur endurkastast upp á við. 
	16. Veður 
	Þarna segir:  
	 
	"Við sjáum norðurljósin ekki á sumrin vegna birtunnar frá sólinni." 
	 
	Þetta er almenn skoðun og er studd athugunum frá gervitunglum. 
	Þær hafa sýnt að  í útfjólubláu ljósi sjást norðurljós allt umhverfis 
	norðurskautið, bæði næturmegin og dagsmegin. Hins vegar má geta þess að sumar rannsóknir hafa bent 
	til þess að ljósin séu ekki eins björt að degi til sökum þeirrar röfunar sem 
	sólarljósið veldur í háloftunum. 
	 
	17. Útlit norðurljósa 
	
	Þarna stendur: 
	 
	"Norðurljós líta oftast út eins og langir, mjóir ljósbogar eða -stólpar sem 
	liggja frá austri til vesturs á norðurhluta himins." 
	 
	Í þessu felst nokkur mótsögn. Algengustu norðurljós 
	eru bogar og bönd. Til að þau gætu myndað "stólpa" þyrftu þau að teygjast 
	lóðrétt upp. Það myndi tæplega gerast ef þau væru á norðurhimni og lægju frá 
	austri til vesturs.  
	 
	Stefna norðurljósaboga er að jafnaði hornrétt á 
	áttavitastefnuna. Þeir fylgja því ekki nákvæmlega austur-vestur stefnu 
	heldur liggja nær stefnunni frá vest-suðvestri til aust-norðausturs.  
	
	18. Kóróna   
	
	Um svonefnda norðurljósakórónu segir: 
	 
	"Kórónur eru jafnan tilkomumestu norðurljósin. Í kórónu 
	virðast norðurljósin eiga upptök í einum punkti beint fyrir ofan athuganda 
	sem sér geisla út frá honum í allar áttir." 
	 
	Þetta er ekki alveg rétt. Miðpunktur kórónunnar er ekki beint fyrir ofan 
	athugandann heldur á þeim stað sem segulhallanál myndi benda á, í 
	svonefndum segulhvirfli. Á Íslandi er segulhvirfillinn um 15° frá lóðstefnu, og munurinn 
	er greinilegur. 
	19. Tifandi norðurljós 
	
	Í þessum kafla er lýst því sem á ensku heitir "pulsating aurora". Lýsingarorðið "tifandi" er óheppilegt í 
	þessu sambandi því að sveiflutíminn er oft lengri en svo að það orð eigi við. 
	Í handbók um norðurljósaathuganir sem út kom árið 1964 
	kallaði undirritaður þetta hverful norðurljós, en sú nafngift getur líka 
	orkað tvímælis því að öll 
	norðurljós eru í eðli sínu hverful. Ef til vill væri heppilegra að nota 
	lýsingarorðið flöktandi um þessi ljós, en í handbókinni var það haft um 
	sérstaka undirtegund hverfulla ljósa.  
	20. Norðurljós í sögulegu samhengi
	
	 
	Alþjóðlega heitið á norðurljósum er "aurora borealis". Í 
	ofannefndum kafla norðurljósasíðunnar er samviskusamlega útskýrt að nöfnin Áróra og Boreas 
	séu komin úr goðafræði og að Áróra sé 
	morgungyðjan, en Boreas norðanvindurinn. Á hinn bógnn hafa höfundar gleymt 
	að útskýra hvernig samsetningin "aurora borealis" er hugsuð. Hafa 
	þeir þó ugglaust vitað að merking orðanna er "dagrenning í norðri". 
	 
	Höfundarnir segja að Gassendi hafi fyrstur notað þetta nafn. Það er  
	misskilningur sem illa gengur að leiðrétta. Nafnið kemur fyrst fyrir árið 
	1619 í riti um halastjörnur, og er talið að nafngiftin sé frá Galileó komin. 
	Þetta er reyndar rakið í einni af þeim greinum sem höfundar vísa til, en 
	virðast ekki hafa lesið: (http://halo.internet.is/nordfrod.html). 
	21. Norrænar heimildir um norðurljós 
	Í þessum kafla segir: 
	 
	"Telja má líklegt að víkingar hafi fært sér norðurljósin í nyt er þeir 
	sigldu yfir höfin. Ef þeir höfðu gert sér grein fyrir að norðurljósaslæðan 
	teygir sig venjulega frá austri til vesturs (eða öfugt) gátu þeir staðfesta
	[sic] 
	að þeir væru á réttri leið." 
	 
	Þetta hljómar afar ósennilega. Sól og stjörnur hefðu verið öruggari 
	áttavitar, en einnig hafa komið fram kenningar um svonefndan sólarstein sem 
	gat nýst sæfarendum þótt ekki sæi til sólar. 
	 
	Enn fremur segir: 
	 
	"Í íslenskum fornritum er hvergi minnst á norðurljós sem kemur talsvert á 
	óvart. Höfundar þessarar greinar hafa leitað að vísunum í norðurljósin í 
	Íslendingasögunum en samtöl við nokkra fróða íslensku- og bókmenntafræðinga 
	hafa ekki leitt neitt í ljós." 
	 
	Höfundar hafa þarna séð ástæðu til að endurtaka könnun sem gerð var fyrir 
	tuttugu árum. Niðurstöðunni var lýst í  erindi sem reyndar leynist í 
	heimildaskrá höfundanna: 
	
	http://halo.internet.is/nordurlj.html 
	22. Hjátrú 
	Ekki verður fjallað um þennan kafla hér. 
	23. Rannsóknir á norðurljósum frá Íslandi 
	Þessi kafli er einkennilega rýr. Hann er svohljóðandi í heild sinni: 
	 
	"Norðurljós hafa verið rannsökuð frá Íslandi í meira en öld. Sem dæmi reistu 
	Danir rannsóknarstöð á Höfða í Eyjafirði árin 1899-1900 til að rannsaka 
	norðurljós. 
	Frá árinu 1983 hafa athuganir á norðurljósum verið gerðar frá 
	þremur stöðum á Íslandi í samstarfi japönsku Pólrannsóknarstofnunarinnar og 
	Raunvísindastofnunar Háskólans: Í Húsafelli (Augastöðum), á Tjörnesi 
	(Mánárbakka), á Ísafirði á árunum 1984-89 og í Æðey frá 1989-2009. Á 
	suðurhveli, í Syowa á Suðurskautslandinu, starfrækja Japanar sambærilega 
	athugunarstöð í þeim tilgangi að kanna hvort segulljósin séu spegilmyndir 
	hvors annars, svonefndum gagnstæðum norðurljósum." (Tilvitnun lýkur.) 
	 
	Þarna skortir mikið af sögulegum upplýsingum svo að ástæða er til að rifja 
	upp nokkur atriði, sem reyndar koma flest fram í greinum þeim um norðurljós 
	sem undirritaður hefur sett á vefinn og höfundar hafa í heimildalista sínum. 
	Verða þessi atriði nú rakin. 
  
	
	Fyrstu skipulegu norðurljósaathuganir á Íslandi munu vera þær sem Sveinn 
	Pálsson náttúrufræðingur gerði í þrjú ár samfleytt, 1792-1794, en þá skráði 
	hann hve mörg kvöld í hverjum mánuði norðurljós hefðu sést. Árið 1873 
	hefjast svo reglubundar athuganir á vegum dönsku veðurstofunnar. Þá var 
	farið að skrá norðurljós jafnframt því að veðurathuganir voru gerðar. Veturinn 1883-1884 var Daninn Sophus Tromholt við 
	norðurljósaathuganir á Íslandi, en Tromholt var framarlega í flokki þeirra 
	sem rannsökuðu norðurljós. Um aldamótin 1900 kom hingað leiðangur frá dönsku 
	veðurstofunni og gerði norðurljósaathuganir á Akureyri og þar í grennd. 
	Ljósmyndatæknin var þá á bernskustigi, og því var brugðið á það ráð að hafa 
	listmálara með í för. Sá málaði fallegar myndir af ýmsum tegundum 
	norðurljósa.   
	 
	Kerfisbundnar sjónathuganir á norðurljósum voru gerðar 
	hér á árunum 1951 til 1958, fyrstu þrjú árin hér í Reykjavík, af þeim sem 
	þetta ritar, 
	en síðan af Pétri Holm í Hrísey. Þessar athuganirnar voru sendar til 
	norðurljósadeildar breska stjörnufræðifélagsins, sem rak gagnamiðstöð í 
	Edinborg undir heitinu Balfour Stewart Auroral Laboratory. Veðurstofan lét 
	skrá sjónathuganir frá 1954 og jók við þær á árunum 1956-57, en þær 
	athuganir munu ekki hafa nýst í rannsóknarskyni.  Í tilefni af 
	Alþjóða-jarðeðlisfræðiárinu festi Veðurstofan kaup á sænskri 
	norðurljósamyndavél af svonefndri Uppsala gerð og var hún sett upp á 
	Rjúpnahæð árið 1957. Þetta var kvikmyndavél sem tók mynd af himninum öllum á 
	mínútufresti á 16 mm filmu. Árið 1963 tók Eðlisfræðistofnun Háskólans (síðar 
	Raunvísindastofnun) við rekstrinum og starfrækti vélina í áratug.  Árið 1965 
	fékk stofnunin myndavél af svonefndri Alaska gerð að gjöf frá Cornell 
	háskóla í Bandaríkjunum. Var hún sett upp á Eyvindará við 
	Egilsstaði árið 1965 og starfrækt til 1970. 
	 
	Árið 1977 hóf Pólrannsóknastofnun Japans 
	norðurljósarannsóknir hér á landi í samvinnu við Raunvísindastofnun 
	Háskólans. Sérhæfðar kvikmyndavélar voru settar upp á Augastöðum í 
	Borgarfirði og á Mánárbakka á Tjörnesi og þær gangsettar á tímaskeiðum sem 
	tengdust samtíma myndatökum á Suðurskautslandinu. Markmiðið var að kanna að 
	hve miklu leyti norðurljós og suðurljós fylgjast að í tíma og útliti. 
	Margvísleg önnur tæki voru sett upp á þessum og fleiri stöðum, þar á meðal á 
	Ísafirði á árunum 1984-89 og í Æðey frá 1989-2009. Þessi starfsemi Japana 
	er enn í gangi.  
	 
	Í segulmælingastöð Háskólans sem komið var upp í Leirvogi 
	árið 1957 hafa farið fram mælingar á segultruflunum og fleiri fyrirbærum sem 
	tengjast norðurljósunum. Árið 1977 voru teknar þar norðurljósamyndir í 
	tengslum við sérstaka rannsókn vísindamanna við dönsku veðurstofuna. Til 
	þess var notuð myndavélin sem áður hafði verið á Eyvindará. Frá 1965 til 
	1983 voru starfræktir í Leirvogsstöðinni svonefndir ríómælar. Tæki þessi 
	mæla gleypni sem rafagnir valda í háloftunum, lægra en sjálf norðurljósin, 
	en í nokkrum tengslum við þau. 
	 
	Auk þess sem hér hefur verið nefnt hafa vísindamenn frá 
	Noregi, Bretlandi og Frakklandi gert út leiðangra til Íslands til ýmiss 
	konar mælinga sem tengjast norðurljósunum beint eða óbeint. Þar á meðal voru 
	ríómælar starfræktir í mörg ár á Siglufirði og Fagurhólsmýri. Sem 
	stendur sér Raunvísindastofnun um rekstur tveggja ratsjárstöðva til rannsókna 
	á rafhvolfi jarðar. Önnur þeirra er  við Stokkseyri en hin við Þykkvabæ. 
	Fyrrnefnda stöðin var sett upp árið 1993 og er í eigu franskra 
	rannsóknastofnana en sú síðarnefnda, sem tók til starfa árið 1995, er í eigu 
	háskólans í Leicester á Englandi. 
	 24. Segulmælingastöðin í Leirvogi 
	Í þessum kafla er vitnað í vefsíðu segulmælingastöðvarinnar. Tengillinn 
	sem gefinn er, er óvirkur, og textinn sem sagður er þaðan fenginn rímar 
	ekki fullkomlega við núgildandi vefsíðu, sem reyndar er vefsíða 
	Háloftadeildar Raunvísindastofnunar: 
	
	http://cygnus.raunvis.hi.is/~halo/haloft.html 
	 
	25. Segulljós á öðrum reikistjörnum 
	Þarna er aðallega fjallað um þau segulljós sem sést hafa á  myndum 
	úr Hubble sjónaukanum. Nýlegar mælingar úr geimfarinu Júnó, sem fór á braut 
	um Júpíter í júlí 2016,  hafa kollvarpað fyrri hugmyndum um segulljósin 
	þar. Þau virðast mynduð með öðrum hætti en segulljós jarðar. 
	
	
	https://www.newscientist.com/article/2146449-jupiters-powerful-aurora-is-surprisingly-different-from-earths/ 
	Ekki er við höfunda norðurljósasíðunnar að sakast þótt þetta komi ekki 
	fram í textanum, sem greinilega er saminn er áður en þetta var vitað. 
	26. Segulljós séð utan úr geimnum 
	Þessi síðasti kafli er stuttur, aðeins fáeinar línur: 
	 
	"Segulljósin eru ekki aðeins glæsileg að sjá af jörðu niðri heldur einnig 
	utan úr geimnum. Oftast eru segulljósin í um það bil 100 km hæð en 
	geimstöðin mun ofar eða í um 350 km hæð. Geimfararnir horfa því niður á 
	ljósin og hafa tekið margar stórkostlegar myndir og myndskeið af 
	sjónarspilinu." 
	 
	Tölurnar þarna eru ekki alveg nákvæmar. Oft er sagt að norðurljósin séu í 
	100 km hæð, en það á við neðri brún þeirra, sem oftast er 100-110 km frá 
	jörðu. Geislar í norðurljósum teygja sig miklu hærra eins og áður var sagt. 
	 
	Geimstöðin sem þarna er nefnd er að sjálfsögðu Alþjóðlega geimstöðin. Hún 
	gengur um jörðu nálægt 400 km hæð en ekki 350 km, þótt sums staðar megi 
	finna 
	þá tölu, jafnvel á einni af vefsíðum Bandarísku geimvísindastofnunarinnar. 
	 
	Þorsteinn Sæmundsson  
	
   
	26. október 2017. Viðbót 3.11. 2017  
  
    |