Tímalengd almyrkva á sólu

    Í fræðiritum er þess gjarna getið að sólmyrkvi geti í mesta lagi staðið yfir í 7½ mínútu. Er þá átt við almyrkva. Í bók sinni Mathematical Astronomy Morsels, 3. hefti, segir myrkvasérfræðingurinn Jean Meeus að hámarkið sé 7 mínútur og 32 sekúndur. Hins vegar er sjaldan á það minnst að hámarkið sé háð breiddarstigi á jörðinni. Þetta er flóknara mál en ætla mætti því að lengd sólmyrkva stjórnast af mörgum þáttum. Sól og tungl sýnast nokkurn veginn jafnstór á himni, en tunglið er þó oftast ívið stærra og getur því hulið sólina um stund þegar svo ber undir. Sýndarstærð sólar fer eftir fjarlægð hennar frá jörðu sem er breytileg, frá 147 milljón km í byrjun janúar til 152 milljón km í byrjun júlí. Sólin er því lengst frá jörðu og sýnist minnst í byrjun júlí þegar hún er yfir norðurhveli jarðar. Þá á tunglið auðveldast með að hylja hana og myrkvar verða hvað lengstir. Fjarlægð tungls er líka breytileg og þar með sýndarstærð þess, en það tengist ekki tíma ársins. Hins vegar skiptir máli að miðbaugur jarðar er nær tungli en heimskautin og tunglið virðist því stærra séð frá miðbaug, og myrkvar því sólina betur. Loks ber á það að líta að tunglskugginn færist yfir jörðina frá vestri til austurs. Hve lengi hann dvelur á hverjum stað fer ekki eingöngu eftir stærð skuggans (sem ræðst af sýndarstærð tungls og sólar) heldur skiptir hreyfing athugunarstaðarins máli. Sú hreyfing stafar af möndulsnúningi jarðar frá vestri til austurs og verður til þess að lengja myrkvana lítið eitt, mest við miðbaug en minnst (ekki neitt) við heimskautin. Að reikna möguleg áhrif allra þessara þátta er ekki einfalt verk. Í nýlegri grein í riti breska stjörnufræðifélagsins (Journal of the British Astronomical Association, júníhefti 2014) gerir Jens Buus tilraun til að leysa þetta verkefni og velur þrjár mismunandi leiðir til einföldunar. Niðurstöðuna birtir hann í töflu þar sem hámarkslengd myrkva á mismunandi breiddargráðum er sýnd í sekúndum. Tafla Buus er sem hér segir, að öðru leyti en því að tímalengdir eru gefnar í mínútum og sekúndum:

90° N 3m 49s
85° N 4m 02s
80° N 4m 16s
75° N 4m 31s
70° N 4m 46s
65° N 5m 02s
60° N 5m 18s
55° N 5m 35s
50° N 5m 52s
45° N 6m 09s
40° N 6m 26s
35° N 6m 41s
30° N 6m 55s
25° N 7m 07s
20° N 7m 17s
15° N 7m 25s
10° N 7m 29s
5° N 7m 32s
0 7m 29s
5° S 7m 25s
10° S 7m 16s
15° S 7m 05s
20° S 6m 53s
25° S 6m 38s
30° S 6m 21s
35° S 6m 04s
40° S 5m 46s
45° S 5m 28s
50° S 5m 09s
55° S 4m 51s
60° S 4m 34s
65° S 4m 17s
70° S 4m 00s
75° S 3m 41s
80° S 3m 20s
85° S 3m 02s
90° S 2m 44s

    Eins og sjá má er hámarkslengd sólmyrkva minnst við suðurskaut en mest nálægt 5° norðlægrar breiddar. Á breiddarstigi Íslands er hún um það bil fimm mínútur.

     Hér fyrir neðan hefur þessi tafla verið sett upp í línurit.

 

Þ.S. 2.7. 2014. Viðbót 4.7. 2014

Almanak Háskólans