Sólmyrkvar á Íslandi fram til 2200

    Almyrkvi á sólu er einhver tilkomumesta sjón sem fyrir augu getur borið í náttúrunnar ríki. Mörgum gefst þó aldrei tækifæri til að sjá þetta fyrirbæri vegna þess hve sjaldgæft það er. Þótt skuggi tunglsins falli á jörðina um það bil 80 sinnum á hverri öld, er þvermál skuggans svo lítið að myrkva gætir ekki nema á mjög takmörkuðu svæði hverju sinni. Á Íslandi sást almyrkvi síðast árið 1954 (við suðurströndina, sbr. almanakið fyrir það ár). Veðurskilyrði voru þá mjög hagstæð, þannig að margir gátu fylgst með myrkvanum. Enginn þálifandi maður hafði áður orðið vitni að almyrkva hér á landi, því að meira en öld var liðin frá því að slíkur atburður hafði gerst. Hins vegar er ekki útilokað að einhverjir þeirra sem horfðu á sólmyrkvann 1954 muni lifa það að sjá næsta almyrkva á Íslandi, sem vænta má árið 2026. Ferill ţessa myrkva liggur um norđurskaut jarđar, Grćnland, vesturströnd Íslands og Spán til Miðjarðarhafs.

    Hér fer á eftir stutt yfirlit um helstu sólmyrkva sem sjást munu á Íslandi fram til ársins 2200. Skrá þessi er að mestu byggð á upplýsingum frá belgíska stjörnufræðingnum Jean Meeus, sem kunnur er fyrir útreikninga sína á myrkvum og hefur gefið út viðamikið rit um það efni.

1. Almyrkvi á sólu 12. ágúst 2026. Ferill skuggans, sem er tæplega 300 km á breidd, liggur yfir Ísland vestanvert, eins og fyrr segir. Í Reykjavík mun almyrkvinn standa í 1 mínútu og 10 sekúndur, en á Ísafirði í 1 mínútu og 36 sekúndur. Á Norðfirði sést deildarmyrkvi, og mun tungl hylja 95% af þvermáli sólar þaðan séð.

2. Hringmyrkvi á sólu 11. júní 2048. Hringmyrkvinn mun sjást frá Íslandi sunnanverðu. Í Reykjavík stendur hann yfir í 4,6 mínútur.

3. Hringmyrkvi á sólu 11. mars 2119. Ferill þessa myrkva liggur vestan við Ísland. Á landinu sjálfu sést deildarmyrkvi og mun um 96% af þvermáli sólar verða hulið frá vesturströndinni séð.

4. Almyrkvi á sólu 14. júní 2151. Ferill myrkvans liggur sunnan við Ísland. Hér á landi sést deildarmyrkvi; í Reykjavík mun tungl hylja 96% af þvermáli sólar.

5. Hringmyrkvi á sólu 12. apríl 2173. Ferillinn liggur austan við Ísland. Hérlendis sést deildarmyrkvi; í Reykjavík myrkvast 88% af þvermáli sólar.

6. Almyrkvi á sólu 26. júní 2196. Ferillinn gengur yfir Ísland norðvestanvert. Á Ísafirði stendur myrkvinn í 1 mínútu og 36 sekúndur. Í Reykjavík verður aðeins deildarmyrkvi, en tunglið mun skyggja á 99% af þvermáli sólar.

(Úr Almanaki Háskólans 1983, með lítilsháttar breytingum)

Síđast breytt 19.4. 2015. Ţ.S.

 Almanak Háskólans