Sólmyrkvinn 20. mars 2015

Í Almanaki Háskólans er lýsing á athyglisverðum sólmyrkva sem verður hinn 20. mars á þessu ári. Hér á landi verður deildarmyrkvi svo mikill að minnstu munar að sól myrkvist alveg, en almyrkvi verður skammt sunnan og austan við landið. Almyrkvar eru einstök náttúrufyrirbæri og því má gera má ráð fyrir að margir leggi leið sína til Færeyja þar sem almyrkvinn fer yfir, eða reyni að sjá hann úr flugvél eða skipi fyrir sunnan eða austan Ísland. Við almyrkva þarf ekki að nota sólmyrkvagleraugu eða dökka filmu, en það er nauðsynlegt við deildarmyrkva.

Meðfylgjandi hreyfimynd sýnir ferð myrkvans um það bil 800 sinnum hraðar en í reynd. Almyrkvinn sést sem dökkur blettur, en daufari skuggi sýnir hvar sólin er hulin að nokkru leyti (deildarmyrkvi). Til hægri í rammanum er sýnt hvernig sólin myrkvast séð frá Reykjavík. Smellið á kyrrmyndina hér fyrir neðan til að kalla fram hreyfimyndina (getur tekið dálitla stund).



Myndin er gerð með forriti sem Andrew Sinclair, fyrrum starfsmaður við stjörnustöðina í Greenwich, hannaði.

Tímasetningar verða sem hér segir (í stundum og mínútum):

  Byrjun Hámark Skygging Endir
Reykjavík 8:37,6 9:37,2 97,5% 10:39,4
Ísafjörður 8:40,9 9:40,0 96,4% 10:41,6
Akureyri 8:41,4 9:41,4 97,8% 10:44,0
Norðfjörður 8:41,7 9:42,7 99,4% 10:46,3
Höfn 8:39,6 9:40,5 99,4% 10:44,0
Vestm.eyjar 8:36,7 9:36,6 98,3% 10:39,4
 
Með "skyggingu" er átt við það hve mikinn hluta af þvermáli sólar tunglið skyggir á. Sólin er lágt á lofti þegar myrkvinn hefst, frá 6° á Ísafirði til 10° á Norðfirði.

Þegar þessi myrkvi hefur verið borinn saman við fyrri sólmyrkva á Íslandi, hafa áhugamenn vitnað í  vefsíðu sem gefur yfirlit um myrkva frá 1837 til 2015:

http://www.almanak.hi.is/reykmyrk.html

Tölurnar á þessari vefsíðu voru reiknaðar fyrir Reykjavík og gilda ekki fyrir landið í heild. Til að fá réttan samanburð hafa nú verið reiknaðar nokkrar tölur fyrir helstu sólmyrkva hérlendis síðan 1954. Prósentutölurnar sýna hve mikinn hluta af þvermáli sólar tunglið skyggði á, annars vegar í Reykjavík en hins vegar á þeim stöðum landsins þar sem myrkvinn var mestur. Myrkvinn 1986 varð við sólsetur. Í því tilviki eiga tölurnar við þann tíma þegar neðri rönd sólar nam við hafsbrún (sjónbaug).
 

   

Reykjavík

Landshámark

30. júní 1954 99% 100%
7. mars 1970 76% 78%
25. febr. 1971 77% 78%
11. maí 1975 76% 77%
26. febr. 1979 77% 82%
 3. okt. 1986 77% 82%
31. maí 2003 94% 94%
20. mars 2015 98% 99%


Taflan sýnir að frá Íslandi séð hefur tunglið sex sinnum náð að hylja 77% eða meira af þvermáli sólar síðan almyrkvinn varð árið 1954. Mestur þessara myrkva var hringmyrkvinn 2003.

Um sólmyrkva á Íslandi í framtíðinni er fjallað hér:

http://www.almanak.hi.is/myrk2200.html

                                                                                     
Þ.S. 7. jan. 2015. Síðast breytt 1. 4. 2015.

Forsíða