Forsíða
 

Miðtími Greenwich og samræmdur heimstími

     Samræmdur heimstími (á ensku: Coordinated Universal Time, skammstafað UTC) er sá tími sem venjulegar klukkur miðast við, með föstu fráviki sem fer eftir því hvar í heiminum menn eru staddir, sbr. kortið á bls. 78 í almanakinu. Til að ákvarða þennan tíma eru notaðar atómklukkur sem ganga afar jafnt. Tíminn er þannig stilltur að hann fer mjög nærri miðtíma (meðalsóltíma) í Greenwich eins og hann er skilgreindur með tilliti til þess hvernig jörðin snýr við sólu. Sjaldnast er gerður greinarmunur á samræmdum heimstíma og miðtíma Greenwich (GMT), en þó er þarna örlítill munur á. Munurinn stafar af óreglum í snúningi jarðar, sem hafa áhrif á meðalsóltímann en ekki atómklukkurnar. Til þess að munurinn verði aldrei meiri en 0,9 sekúndur er samræmdur heimstími leiðréttur um eina sekúndu, venjulega í lok júní eða í lok desember. Þetta var gert í árslok 2008 þegar síðasta mínúta ársins var lengd um eina sekúndu og verður gert í 25. sinn á miðju ári 2012 þegar sekúndu verður skotið inn í lok 30. júní.

   Nafnið heimstími (Universal Time, UT) var upphaflega annað nafn á miðtíma Greenwich, en með auknum kröfum um nákvæmni komu fram fleiri útgáfur af heimstímanum (UT0, UT1, UT2) með vaxandi leiðréttingum. Samræmdur heimstími var tekinn upp árið 1961 þegar ákveðið var að binda tímann við atómklukkurnar. Í hvert sinn sem hlaupsekúndu er skotið inn eykst munurinn milli samræmds heimstíma og atómtíma um eina sekúndu. Eftir 30. júní 2012 verður munurinn 35 sekúndur (atómklukkan er á undan).

(Úr Almanaki Háskólans 2007 með breytingum og viðbótum)

Þ.S. 27. 6. 2012.

   Almanak Háskólans