Merkúríus og Venus saman á kvöldhimni

    Framan af aprílmánuði 2010 verða reikistjörnurnar Venus og Merkúríus saman á kvöldhimninum og skammt á milli þeirra. Venus er björtust allra stjarna og því auðfundin. Þetta verður því kjörið tækifæri til að koma auga á Merkúríus sem allajafna er svo nærri sól að erfitt er að sjá hann. Merkúríus er lengst frá sólu 8. apríl. Frá 4. til 12. apríl nær hann 9° hæð yfir sjónbaug í vest-norðvestri við myrkur í Reykjavík. Hann verður þá lítið eitt norðan (þ.e. hægra megin) við Venus. Minnsta bil á milli þeirra verður 3° (sex þvermál tungls). Það gerist 4. apríl, en 12. apríl hefur bilið vaxið í 5°.  Birta Merkúríusar fer dvínandi á þessu tímabili.
----------------------

    Hinn 3. og 4. apríl var bjartviðri á Reykjavíkursvæðinu og sáust stjörnurnar vel bæði kvöldin. Merkúríus var tiltölulega bjartur (birtustig -0,7) og sást enn með berum augum klukkustund eftir að dimmt var orðið í Reykjavík þótt hæð hans yfir sjónbaug væri þá aðeins 3 gráður.
   Meðfylgjandi myndir voru teknar að kvöldi 8. apríl.  Birta Merkúríusar hafði þá minnkað í -0,1. Bilið milli reikistjarnanna var 3,3°.

 

(Ljósmynd: Snævarr Guðmundsson, Hafnarfirði)

(Ljósmynd: Þorsteinn Sæmundsson, Reykjavík)



Þ.S. 2. apríl 2010, Viðbót 8.4. 2010 

 

 

Almanak Háskólans